12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

411. mál, reglur við úthlutun viðbótarritlauna

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svar hans við fsp. minni, að svo miklu leyti sem það var gert. En það hefur þá farið fram hjá mér, ef síðari lið fsp. var svarað, um það, hversu margir höfundar ættu rétt á viðbótarritlaunum samkv. þessum reglum árið 1972 og árin 1970 og 1971, sem er náttúrlega kjarni þessa máls. Það er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðh., að eins og orðalag er á þál., sem vitnað var til, og í gr. í fjárl., er ekki talað um, að þetta sé endurgreiðsla á söluskatti. Hins vegar vita allir hv. þm., að rökin fyrir því, að þetta framlag var tekið í fjárl., voru fyrst og fremst þau, að hugverk, bækur, ættu ekki að bera söluskatt frekar en t.d. málverk, eða því um líkt, önnur listræn verk, og það var ástæðan til þess, að þessi fjárhæð var tekin í fjárl. Það var fyrst og fremst af tæknilegum ástæðum, eða þannig hef ég skilið það, sem tekin var í fjárlagafrv. ákveðin fjárhæð, en ekki kveðið beinlínis á um það, að endurgreiðsla á söluskatti skyldi vera stofninn, sem veittur yrði. Ég vil enn fremur benda á það, að sú upphæð, sem veitt var, var miklu lægri en söluskatturinn, ef út í það er farið. Ég vil svo aðeins leggja áherslu á það, sem ég sagði áðan, um leið og ég viðurkenni þó, að auðvitað eru mál eins og þessi vandmeðfarin, að kjarni málsins er sá, að rithöfundar okkar njóti þessa fjár. Til þess var fjárveitingin veitt í upphafi og ekki ætlast til þess, að það væri verið að fara í reiptog um einstakar sálir.

Ég beini því til hæstv. menntmrh., að hann beiti sér fyrir því, að undan því verði komist í því frv., sem fram kemur, og að menn þurfi ekki að sækja um þetta fé, heldur muni þeir menn, sem veita féð, hafa fyrir því að kynna sér hvaða bækur komu út á s.l. ári. Það eru ekki svo margar bækur, sem koma út á Íslandi, að það ætti að vera ofverk, enda skilst mér, að það þurfi að senda allar bækur Landsbókasafni, það sé skylda prentsmiðjanna að gera það, og þeir eigi þar að geta fylgst með því, hvaða hækur komi út. Mér finnst það alger lágmarkskrafa.

Mig langar einnig til þess að beina því til hæstv. menntmrh., að hann beiti áhrifum sínum til þess, að þeim höfundum, þeim skáldum, sem voru svikin um þetta fjármagn í ár, verði að einhverju leyti bættur sá skaði, án þess að það bitni á þeim réttmætu framlögum, sem þau eiga skilið að fá, ef þau hafa gefið út bækur á árinu 1973. Sumir þessara manna gefa út bækur á hverju ári. Þeir hafa verið meiri rithöfundar, mikilvirkari, hvernig sem á er litið, bæði að blaðsíðufjölda og innihaldi, heldur en sumir, þeirra, sem fengu náð fyrir augum n., og þeir eiga bókstaflega kröfu á hendur ríkissjóði um það, a.m.k. sanngirniskröfu, að á þeirra mál sé litið af réttsýni og að um þetta fjalli menn, sem líta ekki á þetta frá sjónarmiði einhverra hagsmunahópa. Að sjálfsögðu eru til menn á Íslandi, sem gefa út bækur, sem betur fer, sem eru í hvorugu rithöfundafélaginu, heldur standa utan við og hafa ekki átt þarna fulltrúa. Ég vil benda í því sambandi á mann eins og eitt okkar ástsælasta og besta skáld fyrr og síðar, Hannes Pétursson, sem mér er ekki kunnugt um, að sé í rithöfundafélagi. Þannig er um fleiri, og um þetta fólk á líka að hugsa.