12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

411. mál, reglur við úthlutun viðbótarritlauna

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi kvartaði yfir, að ekki hafi verið svarað skýrum orðum síðasta lið fsp. hans. Ég taldi það felast í þeim reglum um viðbótarritlaunin, sem ég las. Þar er að finna þá skilgreiningu, sem yfirleitt er um að ræða á því, hverjir koma til greina við úthlutun viðbótarritlaunanna. Þar er tekið fram, að auglýst skuli eftir upplýsingum frá rithöfundum um verk þeirra á þessu tímabili. Það er auðvitað álitamál, hverjir hafi haft á þessum þrem árum rétt til ritlaunanna. Hins vegar er ekkert álitamál og þarf ekki að vera í vafa um það, að þeir, sem til greina komu, voru þeir, sem umsókn sendu.