12.02.1974
Sameinað þing: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

166. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til þess að þakka hv. síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Norðurl. v., fyrir skynsamlegar undirtektir við þessa till. og hans aths. Ég vildi geta sagt það sama um hv. þm. Halldór Blöndal.

Ég vil aðeins. skýra nokkru nánar það, sem ég sagði um þær tafir, sem hafa orðið á framkvæmdum. Hv. síðasti ræðumaður skildi ummæli mín rétt og fór rétt með þau. Ég hef orðið var við tafir í mínu kjördæmi og hef átt margar ferðir til Rafmagnsveitnanna og kannað slík mál. Það, sem ég sagði, var byggt á þeim upplýsingum, að dráttur hefði orðið á afgreiðslu efnis og svik í því sambandi langtum meiri en nokkurn tíma má gera ráð fyrir. Nú ætla ég ekki að fara út af fyrir sig að verja Rafmagnsveiturnar. Það má segja, að þær hefðu átt að panta þetta efni fyrr. Hitt er ljóst, að allir framkvæmdaaðilar leggja áherslu á að liggja ekki með efni í óþarflega langan tíma, þegar kannske fjármagn er takmarkað. Því hygg ég, að þetta sé skiljanlegt, þó að það sé ekki mitt verkefni, eins og ég sagði áðan og vil leggja áherslu á, að skýra þetta, en þetta eru staðreyndir. Framkvæmdir hafa dregist, eflaust einnig í Norður-Þingeyjarsýslu eins og á Vestfjörðum ákaflega víða, vegna þess að efni fékkst ekki á þeim tíma, sem gert var ráð fyrir.

Ég sagði áðan, að það mikilvægasta í mínum huga væri það, að fram hefur komið hjá hæstv. ráðh., að áhersla verði lögð á að standa við þessa áætlun, þannig að þeir, sem þar eru skráðir og eiga von á því að fá rafmagn frá samveitum, fái það. Mér er einnig tjáð, að áhersla verði lögð á að standa við hana á þessu ári. Ég get þó lýst efasemdum mínum um, að það megi takast, vegna þess dráttar, sem hefur orðið á framkvæmdum á s.l. sumri, og mér er einnig tjáð, að enn dragist afgreiðsla efnis, sem fyrir löngu er búið að panta, t.d. staura. Það er orðinn upp undir árs afgreiðslufrestur, sem ekki þekktist áður.

Ég ætla ekki frekar en síðasti hv. ræðumaður að blanda mér í umr. almennt um orkumálin, eða um það, hvort línan frá Akureyri til Sauðárkróks eigi rétt á sér eða ekki. Þær hafa farið fram og eiga eflaust eftir að fara fram. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að þessi 131 býli, sem hér er um að ræða, krefjast ekki mikillar orku. Þetta er ekki nema dropi í hafið, og ég satt að segja efast um, að nokkru orkusvæði verði íþyngt með þessu, sem nokkru munar. Og ég vil alls ekki taka undir það, sem mér heyrðist koma fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að það ætti fyrst að virkja og síðan að leggja línurnar. Ekki má draga að leggja línurnar. Við eigum að leggja áherslu á að halda áfram þeirri áætlun, sem nú er í framkvæmd, og hafa nýja áætlun tilbúna og vinna af fullum krafti. Mér finnst eina spurningin vera sú, hvort teygja eigi næstu tveggja ára áætlun jafnvel lengra en gert er ráð fyrir í till., og ég vil enn ítreka það, að mér sýnist, að sú n., sem hefur málið til athugunar, mætti gjarnan skoða það.

Annars verð ég að segja að lokum, að mér finnst það æðimikil kokhreysti að halda því fram, að núv. stjórnvöld hafi svikist um í rafvæðingu dreifbýlisins. Mér virðist það koma úr hörðustu átt frá þm. Sjálfstfl. eftir 12 ára lognmollu á þessu sviði í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að gert hefur verið ákaflega myndarlegt átak nú, og því ber að halda áfram.