12.02.1974
Sameinað þing: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

122. mál, nýting jarðhita

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. Vestf. Eins og fram kemur hér í grg., er áætlaður sparnaður Reykvíkinga vegna hitaveitunnar árið 1974 1565 millj. kr., miðað við að olíulítrinn sé áætlaður 11 kr. Miðað við, að verðið hækki í 12.50 kr. nálgast þessi upphæð 2000 millj. Frá því sjónarmiði, að hér í Reykjavík eru um 82 þús. íbúar, og reiknað með, að notkunin skiptist hlutfallslega eins á milli íbúðarhúsnæðis og skrifstofuhúsnæðis eða annars húsnæðis, þá verður hér um að ræða samkv. þessum útreikningi, sem er grundvallaður á tölum frá Hitaveitu Reykjavíkur, á milli 3500 og 4000 millj. kr. En eins og hv. síðasti ræðumaður réttilega gat um, skiptir ekki máli, hvort um er að ræða 100 millj. meira eða mínna, þetta eru svo stórar tölur þegar, og málið út frá því sjónarmiði hið mikilverðasta.

Hv. þm. gat þess í ræðu sinni, að ég hefði haft áhuga á þessum málum fyrir 15 árum. Það er alveg rétt. Ég held, að ég muni það rétt, að ég hélt mína jómfrúrræðu á Alþ. um hitaveitumál þar syðra, fsp. til þáv. forsrh. Ég verð að segja það, án þess að ég ætli að fara að hefja hér á Alþ. gagnrýni á stjórnendur míns byggðarlags, að flokksmenn mínir þar hafa ævinlega barist mjög fyrir hitaveitu. Við höfum m.a. bent á þá leið, sem nú loksins er farin, þ.e.a.s. að gera samning við Reykjavíkurborg. Hitt er svo aftur annað mál, að vel má vera, að ekki hafi verið grundvöllur fyrir því, vegna þess að Reykjavíkurborg hafi ekki haft afgangsvatn til þessara sveitarfélaga suður frá. En það hefur læðst að manni sá grunur, að byggðarlögin hér syðra hafi ekki viljað gera samning við Reykjavíkurborg einhverra annarra hluta vegna, en þess, að ekki hafi þar verið tekið á móti þeim og ekki verið vilji til að færa út Hitaveitu Reykjavíkurborgar á þessu þéttbýlissvæði.

Þá kem ég að spurningu ræðumanns með formið á hitaveitu, hvort mér hefði ekki sýnst eðlilegra, að þessi sveitarfélög hefðu sameiginlega byggt hitaveitu, og úr því að farið hefði verið út í samninga við Reykjavíkurborg, hvort ekki hefði þá verið eðlilegt, að sveitarfélögin gerðust eignaraðilar að hitaveitunni. Ég verð að segja eins og er, að þetta er ekki að mínum dómi stærsta atriðið. Hitt er aðalatriðið, að það sé hægt að Fá heitt vatn til upphitunar híbýla á þessu svæði. Samningarnir, sem gerðir hafa verið, annars vegar af Kópavogskaupstað og hins vegar Hafnarfjarðarkaupstað, eru meira að segja ekki sambærilegir. Kópavogskaupstaður kemur til með að fá eignaraðild hlutfallslega miðað við notkun, og sú arðsemi, sem það gæfi, verður látin renna inn í fyrirtækið sjálft. Þessu er ekki þannig varið með þann samning, sem Hafnarfjarðarkaupstaður hefur gert. Hann er þannig, að hlutfallsleg arðsemi, sem gæti verið, rennur til sveitarfélagsins sjálfs að 15 árum liðnum.

Ég skal ekki meta samningana að þessu leyti, en ég vil gjarnan, að það komi hér fram, að mér fannst Kópavogskaupstaður vera til fyrirmyndar um forustu í þessu máli, og jafnframt skjóta því hér að, að það gerðist ekki fyrr en var breytt um stjórn á Kópavogskaupstað.