12.02.1974
Sameinað þing: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

185. mál, heyrnarskemmdir af völdum hávaða í samkomuhúsum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þeirrar till., sem hér er rædd, hefur rækilega gert grein fyrir ástæðunum fyrir því, að við höfum borið fram slíka till. Hávaði er í nútímaþjóðfélagi vandamál og vaxandi vandamál, og eru raunar að koma í ljós ýmsar fleiri hættur við hávaðann en menn höfðu gert sér grein fyrir áður. Þetta er heldur ekkert nýtt. Þegar geislar voru fundnir upp, röntgengeislarnir, og farið að nota þá töldu menn þá tiltölulega hættulitla. Það tók áratugi að komast að því, að þessir geislar voru banvænir undir vissum kringumstæðum. Þeir höfðu drepið tugi manna eða jafnvel hundruð, áður en menn gerðu sér rækilega grein fyrir skaðsemi þeirra, enda þótt lækningamáttur þeirra væri mikill og áhrif þeirra í læknisfræðinni gífurleg.

Það er nú langt síðan vitað var, að hávaðinn gat verið skaðlegur mannlegum líkama, ef hann fer yfir viss mörk. Hávaðaeiningin er nefnd desibel, og til glöggvunar get ég getið þess, að munurinn á 80 db., sem er talið nokkuð hóflegt að búa við, og 90 db. er tífaldur hávaði, sem 90 db. er á við 80. Það er skaðlegur hávaði á vinnustöðum, það sýna rannsóknir, sem gerðar hafa verið t.d. hér á landi, og 1. flm. gat um. En það er mjög misjafnt, hvernig með hávaða er farið á vinnustöðum. T.d. get ég getið þess, að þar sem hávaði hefur verið mældur á rafmagnsverkstæðum, var hann frá 87–101 db. Aftur á móti í Áburðarverksmiðjunni var hann 72–114 db. í dósaverksmiðju var hann 60–94 db., en víða fer hann yfir það leyfilega hámark. Og í vélarúmi kaupskipa var hann 94–104 db., sem er of hátt. Þannig mætti upp telja. T.d. í 25 m fjarlægð frá þotum mun hann vera um 140 db. og frá skrúfuþotum um 120 db. Þess vegna er það, að nú eru heyrnarskemmdir við viss störf viðurkenndar sem atvinnusjúkdómur, t.d. hjá járnsmiðum, hjá þeim, sem leika í hljómsveitum, og einnig hjá flugvirkjum og öðrum, sem vinna á flugvöllum.

Upp á síðkastið hefur komið fram enn nýr hávaðavaldur, og það eru dansstaðirnir með nútímamúsík, sem þar er höfð um hönd. Þar hafa einnig verið gerðar hávaðamælingar, eins og 1. flm. gat um. Hafa verið gerðar hávaðamælingar á dansstöðum í Reykjavík og komið í ljós, að ástandið er síst betra en í Árnessýslu, en um það gat hann rækilega, þannig að ég mun ekki ræða um það frekar. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur haft vakandi auga á þessum skaðvaldi, og hún hefur í raun og veru gert ætlun um, hvernig reynandi væri að hafa einhver áhrif á það ástand, sem nú ríkir hér í þessum efnum. Þeir telja, að það, sem til greina komi að gera, sé í fyrsta lagi, að samkomuhúsaeigendum verði gert skylt að eiga litla mæla og sjá sjálfir ásamt heilbrigðiseftirliti um að lögum um hámarkshljóðstyrk verði framfylgt. Í öðru lagi kemur til greina að koma fyrir ljósaútbúnaði, sem kviknar á, ef hávaði fer yfir tiltekin mörk. Í þriðja lagi mætti láta útbúa viðvörunarkerfi, eins konar flautu, sem færi í gang, ef hávaði færi yfir leyfileg mörk. Þessir möguleikar hafa verið til athugunar. En ef miðað er við reynslu frá öðrum löndum, verður að segja, að viðunandi lausn hefur enn ekki fundist. Meginatriðið er þó, að menn hafa nú auga fyrir þessum möguleika og þeim vanda, sem þetta kann að valda.

Vegna þess að 1. flm. gat aðeins um áhrif þessa hávaða gagnvart áfengi, þá er það eitt atriði út af fyrir sig, að á dansstöðum er nú illmögulegt að tala saman. Og þegar fólk situr við borð og getur ekki talað saman, hvað á þá að gera? Þá grípur það til glasanna og drekkur meira en það mundi ella gera, ef það gæti haldið uppi fjörugum samræðum.