13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það blandast engum hugur um, að í Sovétríkjunum hefur farið fram mikill harmleikur undanfarna daga, því miður er það svo, að hann er ekki einstæður í sinni röð, heldur er þar miklu fremur að ræða eitt dæmi, sem er tákn um ástandið þar austur frá.

Sagan af Solzhenitsyn er harmsögu- og hetjusöguefni fyrir allra hluta sakir. En svo harmsögulegt sem dæmi hans eins er, þá er vitað mál, að dæmi margra annarra einstaklinga þar austur frá hefði átt að vekja sömu andúð og rót í hugum manna í frjálsum löndum og dæmi Solzhenitsyn sjálfs. Það er styrkur og gildi hetju eins og Solzhenitsyns að vera þess megnugur að bregða upp fyrir umheiminum dæmi af lífinu undir kommúnisma, dæmi af sjálfum sér, sem skírskotar til frjálsborinna manna.

Vissulega var því tilefni til slíks stutts umræðuþáttar sem efnt var til í Heimshorni í lok janúarmánaðar s.l. og hæstv. menntmrh. tók þátt í. Ég átti þess ekki kost að hlusta eða horfa á þennan þátt, en hef aflað mér hljóðritunar af honum síðan og get tekið undir orð þau, er þátttakendur í þættinum, hæstv. menntmrh. og Gísli Ástþórsson rithöfundur og blaðamaður lét í ljós. Hér var um brýnt mál að ræða, sem auðvitað átti að kynna íslendingum og er til þess fallið, að þeir séu sér þess betur meðvitandi í nútíð og framtíð, að frelsi er ekki sjálfsagður hlutur, heldur er nauðsynlegt að gæta þess sífellt með athöfnum sínum dagsdaglega og í mörkun stefnu stjórnvalda.

Með þessum orðum vildi ég undirstrika gildi þeirra fsp., sem hv. 5. þm. Vestf. bar hér fram, og taka sérstaklega undir það, að þörf er á því, að sovéska sendiráðinu eða fulltrúa þess hér á landi sé gert það alveg ljóst, að íslenskir fjölmiðlar eru frjálsir og íslenskir menn eru frjálsir að því að segja skoðun sína, hvaða stöðu sem þeir skipa í þjóðfélaginu.

Það birtist nýlega grein eftir Andrés Küng í Morgunblaðinu, og þessi grein hefur birst víða í tímaritum og blöðum á Norðurlöndum, þar sem hann gerir nokkra grein fyrir því, hvernig ástandiðið er í Finnlandi vegna nábýlisins við Sovétríkin, hvaða áhrif Sovétríkin hafa á margvíslega hluti í Finnlandi, sem við vildum ekki, að erlend þjóð hefði áhrif á hér á landi. Hann segir t.d. frá því, að í júlí s.l., 1973, hafi komið til Helsingfors sendinefnd útlaga frá Eystrasaltslöndunum til að kynna fyrir þátttakendum í öryggisráðstefnunni ástandið í Eystrasaltslöndunum. Sovétmenn hafi þá krafist þess, að mennirnir yrðu handteknir, og það hafi verið gert þegar í stað. Hér er um að ræða þá öryggismálaráðstefnu, sem við bindum vonir okkar við, að marki upphaf þíðu í samskiptum stórvelda á milli. En ekki er sú von byggð á traustum grundvelli, þegar svona er staðið að. Greinarhöfundur segir enn fremur, að í sama mánuði, í júlí 1973, hafi komið enn ein viðvörun frá sovéskum ráðamönnum um, að þeir mundu ekki þola meiri gagnrýnisskrif í finnskum blöðum. Þá hafi finnski utanrrh. ekki mótmælt þessari íhlutun í finnsk innanríkismál. en sett ofan í við finnska blaðamenn fyrir skrif þeirra.

Það er út af fyrir sig gott til þess að vita, að enn er íslenskur utanrrh. ekki í þeirri stöðu, eins og finnski starfsbróðir hans, að þurfa að beygja sig fyrir mótmælum Sovétríkjanna eða sovéska sendiráðsins. Og þótt við út af fyrir sig getum vel hlustað á, hvað erlendum mönnum finnst um eitt og annað, er nauðsynlegt, þegar slíkar skoðanir eru bornar fram við íslensk stjórnvöld og um íslenska ráðh., að þeim sé gert ljóst, að eftir þeim verði ekki farið umfram það, sem sannfæring hvers og eins Íslendings segir til um, að Íslendingar séu frjálsir að því að flytja skoðanir sínar.

Nú hefur þessi fréttaþáttur birst í enn örlagaþyngra ljósi en jafnvel var um að ræða í lok janúar, og það er kannske ekki úr vegi að rifja upp síðustu spurninguna í þættinum, þegar spyrjandi segir: „En að lokum langar mig til að spyrja ykkur: Hvernig haldið þið, að þessum ofsóknum ljúki? Haldið þið, að Solzhenitsyn hrökklist úr landi?“ Þá segir hæstv. menntmrh.: „Það getur enginn um það sagt. En sjálfviljugur fer hann ekki úr landi. Hins vegar getur honum orðið hent úr landi, það er ljóst.“

Það er leitt, að hæstv. menntmrh. situr ekki þennan þingfund. En hann má vita það, að Íslendingar munu vera honum sammála í þeirri skoðun, sem hann lét í ljós í umræddum sjónvarpsþætti.

Ég vil að lokum beina því til hæstv. utanrrh., að hann geri sendiráði Sovétríkjanna skýra grein fyrir því, að Íslendingar séu frjálsir að því að tjá skoðanir sínar og geti ekki unað sömu starfsaðferðum Sovétríkjanna hér á landi og þau telja sér sæma í Finnlandi. Við höfum samúð með fórnarlömbum ógnarstjórnar Sovétríkjanna, eins og Solzhenitsyn og þjáningarbræðrum hans. En samúð okkar nær einnig til vina okkar Finna, sem verða að beygja sig undir slíkar aðfinnslur. Við skulum gæta þess, að til þess dags komi aldrei, að Íslendingar þurfi að gera það.