13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

204. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég frv. um sama efni. Það varð ekki útrætt þá, en í meðferð sjútvn. bárust fjórar umsagnir um það frv. Þær voru frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Framkvæmdastofnun ríkisins, sjútvrn, og Útvegsbanka Íslands. Allar þessar umsagnir nema umsögn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna voru jákvæðar. Er í þeim öllum talið eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt að samræma byggingu vinnslustöðva á sviði sjávarútvegs, þ.e.a.s. á þeim sviðum, þar sem aflatakmarkanir eru ráðandi. Ég hef skoðað þessar umsagnir og gert á því frv., sem ég hef nú lagt fram, nokkrar breytingar í samræmi við þær. Mun ég koma að þeim hér á eftir.

Ég flutti að sjálfsögðu framsögu fyrir frv. þessu eða mjög svipuðu frv. á síðasta þingi og ætla því ekki að hafa um það mörg orð. Þó vil ég aðeins draga fram örfá dæmi, sem sýna nauðsyn samræmingar, ekki síst vegna þeirra aðila, sem leggja í að reisa dýrar vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs, sem svo eiga e.t.v. aðeins skamman tíma rekstrargrundvöll. og sömuleiðis og ekki síður vil ég vekja athygli á þeirri nauðsyn, sem slíkt er þeim byggðarlögum, sem byggja e.t.v. að meira eða mínna leyti á þeim veiðum og þeirri vinnslu, sem um er að ræða í einstökum tilfellum.

Ég hygg, að ég skýri mál mitt best með því að nefna dæmi frá Húnaflóasvæðinu. Þar er, eins og hv. þm. vita, rækjuvinnsla töluverð, hefur þróast þar á undanförnum 10 árum. Strandamenn riðu þar á vaðið, eftir að þorskveiði brást á Húnaflóasvæðinu, og má segja, að rækjuvinnsla hafi beinlínis haldið við byggð á Hólmavík og Drangsnesi og þá að sjálfsögðu á langtum stærra svæði þau 10 ár, sem síðan eru liðin. Aðrir hafa sótt í þessa rækjuvinnslu, eins og vel er skiljanlegt. Er nú komin upp vinnsluvél á Skagaströnd og önnur á Hvammstanga. Samkv. nýlegum upplýsingum er framleiðslugeta þeirra véla og vinnslustöðva nú samtals 4215 tonn á ári. Hins vegar hafa fiskifræðingar ekki talið öruggt að leyfa veiði nema á 1700 tonnum á vertíðinni 1972–1973 og sama magni á þeirri vertíð, sem nú stendur yfir. Þetta er aðeins 41.2% af framleiðslugetu þessara vinnslustöðva. Nú hefur frést, m.a. birst í fjölmiðlum, að til standi að setja upp jafnvel tvær stórvirkar vinnsluvélar á Blönduósi. Ég held, að menn geti verið sammála um, að þá muni keyra um þverbak. Framleiðslugetan verður þá orðin margfalt meiri en það rækjumagn, sem fiskifræðingar telja öruggt, að veiða megi.

Því lagði ég fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um þetta mál fyrir nokkrum dögum. Þar komu fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar. Hæstv. ráðh. lýsti því, að hann væri sammála um., að þarna þyrfti að verða samræming á. Hann lagði hins vegar áherslu á, að ekki væri til lagaheimild, sem gerði sjútvrn. kleift að takmarka vinnslustöðvar, þótt það hefði samkv. lögum um botnvörpuveiðar heimild til að setja ýmis skilyrði með þeim undanþágum, sem rn. veitir samkv. 10. gr. þeirra laga til rækjuveiða. Ég skal viðurkenna, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þetta svar, og satt að segja hafði ég dregið að leggja þetta frv. fram að nýju, því að ég taldi mig hafa ástæðu til að ætla, að unnt væri að koma í veg fyrir óeðlilega fjölgun vinnslustöðva með þeim takmörkunum, sem sjútvrn. getur sett fyrir leyfum til rækjuleyfa. Mér hefur auðsýnilega skjátlast þar, og teldi ég því rétt að endurflytja frv. þetta án tafar.

Í þeim umsögnum, sem ég minntist á áðan og jákvæðar eru, þ.e. þrjár af þeim fjórum, sem bárust, kemur fram, að menn eru nokkuð óákveðnir um það atriði, hvernig beri að takmarka byggingu vinnslustöðva, hvort það beri að gera með leyfum, eins og lagt er til, eða gegnum lánastofnanir. Nú er hins vegar ljóst, að lánastofnanir hafa ekki að öllu leyti vald á þessu. Sumar slíkar stöðvar eru reistar án þess, að leita þurfi eftir fjármagni til lánastofnana, og er þá ljóst, að ekki verður með því móti komið í veg fyrir, að þær verði reistar. Einnig kemur fram hjá þessum aðilum, að þarna þurfi að verða nokkur samræming á. Sömuleiðis er ljóst, að byggðasjónarmið þarf að taka til greina, og það verður að líkindum ekki vel gert í sambandi við stofnlánasjóði, sem starfa ekki samkv. þeim reglum, sem um það verða að gilda.

Því er það meginbreyting, sem ég hef gert á því frv., sem ég flutti í fyrra, að ég geri nú ráð fyrir því, að þriggja manna n., sem sjútvrh. skipar, afgreiði umrædd leyfi. Ég geri ráð fyrir, að einn verði skipaður samkv. tilnefningu stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, annar samkv. tilnefningu stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands, sá þriðji án tilnefningar. Mér virðist, að með þessu móti fái öll þau sjónarmíð aðgang að slíkri leyfisveitingu, sem nauðsynleg eru, þ.e.a.s. það fáist samræming milli þeirra fjármálastofnana, sem veita fjármagn til byggingar vinnslustöðva, þar komi inn byggðasjónarmið, sem fulltrúi Framkvæmdastofnunar ríkisins hlýtur að hafa mjög í huga, og þar komi loks inn sjónarmið sjútvrn., sem það hefur lagt til grundvallar leyfisveitingum til veiði á viðkomandi svæði.

Þá hef ég einnig í þeim breytingum, sem ég hef gert, fylgt ábendingum sjútvrn. um heimild til þess að ákveða nánar um framkvæmd laganna með reglugerð, og er það fram tekið í 4. gr. frv.

Ég vil geta þess hér, að sjútvrn. ræðir einnig í umsögn sinni um viðurlög við brotum. Að athuguðu máli þótti mér ekki nauðsynlegt að setja slíkt í frv. Rn. hefur þetta í hendi sér. T.d. getur það óumdeilanlega bundið leyfi til veiða því skilyrði, að afla verði ekki landað við vinnslustöðvar, sem starfandi eru án leyfis, þannig að mér sýnist, að slíkt þurfi ekki að óttast.

Eins og ég hef sagt áður, hef ég fyrr mælt fyrir þessu frv. og vil stytta mál mitt. Ég vil taka fram, að það er aldrei eftirsóknarvert að þurfa að binda framtak manna leyfum. Því hefur þó ekki orðið komist hjá, m.a. vegna þess, að sá afli, sem fiskimiðin gefa okkur, er takmarkaður. Við höfum samþ. hér, allir hv. þm., að svo þurfi að verða um ýmsar veiðar, eins og t.d. rækju, humar eða annan skelfisk o.s.frv. Mér sýnist því, að skrefið sé þar í raun og veru stigið. Þessar veiðar eru takmarkaðar og því jafnframt eðlilegt í þessu tilfelli, að bygging vinnslustöðva sé samræmd þeim leyfum, sem veitt eru til afla.

Ég vil loks leggja áherslu á, að þessar veiðar flestar eru ákaflega mikilvægar viðkomandi byggðum, eins og í því dæmi, sem ég hef hér sérstaklega nefnt, á Húnaflóasvæðinu. Má segja, að heil byggðarlög byggist að meira eða mínna leyti á þessum veiðum. Því er alls ekki þolandi, að utanaðkomandi aðilar, e.t.v. án nokkurra hagkvæmnistengsla við byggðarlögin sem slík, fari þar inn og valdi á þeim náttúruauðæfum, sem hér er um að ræða, miklu tjóni og ómetanlegu tjóni fyrir byggðarlög á þessu svæði. Mér sýnist, að allt öðru máli gegni um það, þótt byggðarlög á slíku svæði, sem eru í erfiðleikum, sæki um leyfi til að reisa vinnslustöð. Þá koma byggðasjónarmiðin þar inn í, og þá þarf að meta það, hvort réttmætt sé að skipta þeim afla, sem til skipta er, með tilliti til slíkra þarfa og byggðasjónarmiða.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.