13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

204. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt leiðrétting á misskilningi, sem mér þótti koma fram hjá hv. 3. þm. Reykn.

Ég geri ekki ráð fyrir því í frv., að sjútvrn. ákveði þetta. Það er breyting frá því, sem áður var, vegna þeirra ábendinga, sem komu, einmitt þess efnis, að þarna þyrftu byggðasjónarmið og lánasjónarmið að komast að. Þetta vildi ég undirstrika. Það er þess vegna, sem ég geri ráð fyrir þriggja manna n. í þeirri von, að þarna komist þessi sjónarmið öll að.

Í öðru lagi vil ég leggja ríka áherslu á, að það er alls ekki hugmynd mín að útiloka eitt byggðarlag af fimm, eins og hv. þm. tók fram. Ég lagði áherslu á, að mér sýnist, að ef önnur byggðarlög þyrftu af eigin byggðarástæðum á vinnslustöð að halda, væri að mínu viti þeirri n., sem þarna á um að fjalla, skylt að skoða slíkt. Hinu get ég alls ekki leynt, að vitanlega er þörf byggðarlaganna mjög misjöfn, og staðreyndin er sú, að sem betur fer hefur atvinnulíf á Blönduósi byggst upp á öðrum grunni. Þar hefur skapast töluverður iðnaður, og þar er landbúnaður mjög ríkur í kring, og ég hef engan hitt, sem telur þar mikla þörf slíkrar vinnslustöðvar. En út af fyrir sig er það algert aukaatriði. Ef svo skyldi reynast, að þarna þyrfti að koma upp vinnslustöð, ætti að sjálfsögðu að athuga það. Hins vegar vil ég leggja áherslu á, að það er að mínu viti ekki eðlilegt, að aðkomumenn flytji vélar á slíkan stað og kippi e.t.v. grundvellinum undan lífsafkomu hinna fjölmörgu byggða í kring, ekki aðeins á Ströndunum, heldur Skagaströnd og víðar, þannig að ég tel. að það þurfi að skoða hvert einstakt tilfelli.