13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

208. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 362 flyt ég ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni frv. til l. um breyt. á l. nr. 93 frá 1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég vil taka það fram í upphafi, að frv. þetta er flutt á vegum mþn. í byggðamálum.

Mþn. þessi var kjörin á síðasta þingi samkv. þál., sem samþ. var 18. apríl s.l. Í n. eiga sæti auk mín og hv. þm. Stefáns Jónssonar, sem situr þar í forföllum Helga F. Seljans, hv. þingmenn Lárus Jónsson, Matthías Bjarnason, Ingvar Gíslason, Karvel Pálmason og Pétur Pétursson. Í þál. þeirri, sem til grundvallar liggur kjöri þessarar n., er gert ráð fyrir því, að n. marki almenna stefnu í byggðamálum, og eru þar settar fram allitarlegar ábendingar um það starf. En í till. er jafnframt tekið fram, að n. skuli þegar á þessu þingi leggja fram þær till. til breytinga, sem hún telur, að brýnastar séu vegna byggðamála.

Fljótlega, líklega í lok næstu viku, verður lögð fram skýrsla þessarar n. hér á hv. þingi, eins og þál. gerir ráð fyrir, og skal ég ekki fjölyrða um það starf. Ég vil þó geta þess, að n. hefur unnið grundvallarverk að mótun almennrar stefnu í byggðamálum. En eftir að þetta þing hófst, hefur hún fyrst og fremst lagt áherslu á að kanna einstök mál í samræmi við anda þál. Því sendi n. hæstv. forsrh, bréf 8. nóv. s.l. og gerði honum grein fyrir þeim málum, sem hún hafði þá ákveðið að beita sér fyrir.

Í þeirri upptalningu voru fremst á blaði húsnæðismál dreifbýlisins. Nm. eru allir á einu máli um það, að íbúðaskortur sé víða í dreifbýlinu versti þrándur í götu eðlilegrar byggðaþróunar. Í raun og veru er óþarft að nefna miklar tölur í þessu sambandi. Ég hygg, að allir þm., sem hafa einhver kynni af þessum málum dreifbýlisins, — og það hafa sem betur fer allflestir, — þekki þessa staðreynd. Víða er atvinnuástand mjög blómlegt og hefur eflst verulega, t.d. við komu skuttogara, byggingu og endurbætur á frystihúsum o.s.frv. Víða, þar sem svo er ástatt, og kannske víðast hefur orðið vart við vagandi fjölda yngri manna og kvenna, sem vilja setjast þar að, ekki aðeins fólk, sem á ættir sínar að rekja eða hefur búið í þessum byggðarlögum, heldur einnig ótrúlegur fjöldi aðkomufólks, sem hefur viljað freista gæfunnar á slíkum stöðum. E.t.v. kennir þar nokkurrar þreytu á þéttbýlinu og öllum þeim hraða, sem þar er. E.t.v. er þarna farið að bera á vilja fólksins til að sumu leyti einfaldara og betra lífs. En það hefur staðið mjög í vegi fyrir þessari ánægjulegu þróun, að íbúðarhúsnæði hefur ekki verið fáanlegt nema í örfáum tilfellum. Að vísu er það svo, að á þessum stöðum mörgum hefur fækkað. Þá spyrja menn: Er þá ekki íbúðarhúsnæði til? En því er til að svara, að það íbúðarhúsnæði, sem til er og aflögu er, er yfirleitt orðið ákaflega úr sér gengið og fullnægir hvergi nærri nútímakröfum um hollustuhætti og heilbrigði í íbúðarmálum eða þeim eðlilegu kröfum, lágmarkskröfum, sem ungt fólk hlýtur að setja.

Í grg. með þessu frv., sem er allítarleg, eru reyndar birtar töflur, sem gefa að mínu viti ágætlega til kynna, hvernig þróun þessara mála hefur verið upp á síðkastið. Í töflu í er birtur heildarfjöldi fullgerðra íhúða í kauptúnum og kaupstöðum allt frá 1960 til 1972, og er það samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdastofnun ríkisins. Þarna kemur fram, að hundraðshluti íbúða, sem fullgerðar hafa verið, þegar honum er skipt á landshluta, nær hvergi hundraðshluta íbúa viðkomandi landshluta nema á Reykjanessvæðinu og í Reykjavík. Á Reykjanessvæðinu hafa á þessum 10 árum verið fullgerðar 25.5% allra íbúða í kauptúnum og kaupstöðum og á Reykjavíkursvæðinu 48.3%, en íbúafjöldi þessara svæða var á Reykjanesi í des. 1972 19.4% og í Reykjavík 39.9%. Má öllum jafnframt vera ljóst, að þetta hlutfall hefur verið enn lakara á fyrri árum þessa tímabils þegar fólksfjöldi var hér nokkru minni tiltölulega. Í öllum öðrum landshlutum eru fullgerðar langtum færri íbúðir en íbúafjöldi gefur til kynna.

Í töflu II hef ég jafnframt sett fram heildarútlán Húsnæðismálastofnunar ríkisins frá árinu 1955 til 1972. Þar er sömu söguna að segja, þegar borið er saman við íbúafjölda. Í töflu III eru útlán Húsnæðismálastofnunar ríkisins á árunum 1970, 1971 og 1972 skipt á landshluta, og er niðurstaðan þar enn hin sama. Og loks í töflu IV, sem er e.t.v. einna fróðlegust í þessu sambandi, er útlán Húsnæðismálastofnunar ríkisins árið 1972 og lánsupphæð á hvern íbúa eftir landshlutum. Þar kemur í ljós, að í Reykjavík er lánsupphæð á hvern íbúa 5 618 kr., Kópavogi og Seltjarnarnesi 4447, á Reykjanessvæðinu 6914, en síðan fellur þetta niður, þ.e.a.s. á Vesturlandi 1 700, Vestfjörðum 1726 og kemst hæst í dreifbýlinu upp í 3 700 rúmlega á Norðurlandi eystra og á Suðurlandi. Þarna kemur fram ákaflega mikill mismunur.

Ég hef einnig fengið yfirlit yfir lánveitingar 1973, þ.e.a.s. fyrri hluta lána til þeirra, sem höfðu gert fokhelt frá 1. jan. til 15. ágúst 1973. Því miður eru þær upplýsingar enn meir dreifbýlinu eða landsbyggðinni í óhag. Þar kemur fram, að til Reykjavíkur hafi farið 44.9% þess fjármagns, sem lánað hefur verið, í Reykjaneskjördæmi 40.89%, en fellur síðan niður, í Vesturlandskjördæmi 2.91%, Vestfjarðakjördæmi 1%, á Norðurlandi vestra 0.16%, Norðurlandi eystra 1.98%, í Austfjarðakjördæmi 2.77% og Suðurlandskjördæmi 5.39%. Ekki horfir því vænlega, ef leggja á þessar upplýsingar til grundvallar. Þetta mun þó, þegar á árið er litið í heild sinni, að öllum líkindum vera nokkru skárra. Það var því ekki undarlegt, að n., sem ber að láta byggðavandann sig skipta, kaus að leggja svo ríka áherslu á íbúðamálin í fyrstu atrennu.

N, benti í bréfi sínu til hæstv. forsrh. á ýmis atriði, sem lagfæra þarf. Hún benti í fyrsta lagi á örvunarlán til almennra íbúðabygginga í dreifbýli, og mun ég fjalla um það nánar síðar, enda er frv. um þann þáttinn.

Hún benti einnig á það, að lög um byggingu verkamannabústaða yrðu endurskoðuð þannig, að þau verði, ef ég má orða það svo, framkvæmanleg fyrir minni byggðir um landið. Nú er framkvæmdin þannig, að fjöldi íbúða er bundinn af framlagi viðkomandi sveitarfélags. Afleiðingin verður sú, að minni sveitarfélög eru e.t.v. 5, 6 eða 7 ár að safna sér fyrir byggingu þriggja, fjögurra eða fimm verkamannabústaða. N. telur, að framlag hins opinbera eigi að vera hærri hluti en nú er og framlag sveitarfélagsins að sama skapi mínni hluti, og n. telur jafnframt eðlilegt, að fjöldi verkamannabústaða verði ekki bundinn við framlag, heldur við þörf.

Þá hefur einnig verið bent á það, að lög um byggingu íbúða til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis eru að ýmsu leyti og raunar að sama skapi og verkamannabústaðalögin erfið í framkvæmd fyrir dreifbýlið og beri að endurskoða það.

Í fjórða lagi telur n. mjög mikilvægt, að byggingaáfangar verði stækkaðir á hinum smærri stöðum, t.d. með því að skipuleggja þá saman fyrir fleiri staði og reyna að koma þar við mestu hagkvæmni, sem ekki er unnt að koma við í þeim litlu áföngum, sem víða eru. Á þetta að sjálfsögðu fyrst og fremst við um byggingu verkamannabústaða og byggingu íbúða til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði.

Þá bendir n. í fimmta lagi á það, að verktaka beri að efla um landsbyggðina. Það er ljóst, að þar sem verktakar hafa eflst, t.d. á Akureyri, er ástand íhúðamála allt annað en áður var. Verktakar geta fremur komið við góðri tækni. Þeir hafa betri aðgang að lánastofnunum, sérstaklega bönkum, en einstaklingar og geta þannig fengið nokkra fjármögnun umfram það, sem einstaklingar yfirleitt ná í. Þetta má vitanlega gera í hinum ýmsu landshlutum. Það má veita verktökum sérstaka fyrirgreiðslu, styðja þá til þess að eignast góðan véla- og tækjakost og veita þeim fjármagn til rekstrar, þannig að þeir geti snúið sér að þessum málum af krafti. Þetta er einnig ákaflega mikilvægt víða, þar sem iðnaðarmenn eru bókstaflega ekki fáanlegir. Oft er það svo á smærri stöðum, að þegar byggingarmeistarinn er fenginn, þá er múrarinn farinn og svo öfugt. Þarna mætti koma við flokkum iðnaðarmanna á vegum slíkra verktaka.

Að lokum benti n. á, að athuga bæri innflutning eða smíði innanlands á tilbúnum húsum í ríkara mæli en gert hefur verið. Það flýtir að sjálfsögðu mjög fyrir, bætir þannig úr þeim brýna húsnæðisskorti, sem víða er. Þessi þáttur er þegar í athugun á vegum Húsnæðismálastofnunar ríkisins og Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins.

Þessum till. var ágætlega tekið af hæstv. ráðh. Hæstv. félmrh., sem við ræddum ítarlega við um þessar till., tjáði sig í öllum meginatriðum hlynntan þeim, tók þeim vel, og að sjálfsögðu yrðu þær skoðaðar í sambandi við þá almennu endurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni, sem mun vera í undirbúningi.

Aðeins um fyrstu till., þ.e.a.s. örvunarlán, gegndi nokkuð öðru máli. Að vísu hefur hún hlotið ágætan stuðning þeirra aðila, sem við befur verið rætt, en mönnum hefur þó sýnst, að ekki væri eðlilegt að fela húsnæðismálakerfinu að mismuna íbúum landsins, ef ég má kalla það svo, eftir búsetu. Í raun og veru lítum við svo á, að hér sé ekki um mismunun í þeim skilningi að ræða, heldur fremur uppbót fyrir ýmsa erfiðleika og ýmislegt, sem í vegi stendur fyrir eðlilegri íbúaþróun á viðkomandi landshlutum. Að athuguðu máli var talið rétt að fela þetta verkefni Byggðasjóði, sem að sjálfsögðu hefur það sem sitt frumhlutverk að veita íbúum dreifbýlisins viðbótarfjármagn til ýmiss konar framkvæmda. Því var ákveðið að milliþn. beitti sér sjálf fyrir flutningi þessa frv. um breyt. á I. um Framkvæmdastofnun ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir því, að við Byggðasjóð starfi íbúðalánadeild, sem veiti lán til sérstakrar örvunar almennum íbúðabyggingum til viðbótar lánum úr byggingarsjóði Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að þessi lán verði afgreidd með öðrum lánum Húsnæðismálastofnunar, þau verði afgreidd í samræmi við ákvörðun stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins með tilliti til lánsupphæðar, skiptingar á landshluta o.s.frv. Þessu á ekki að fylgja neitt frekara umstang fyrir íbúðabyggjendur. Þeim yrðu boðin þessi lán með öðrum lánum Húsnæðismálastofnunar, með tilliti til þess svæðis, sem þeir byggja, og þyrfti þá ekki að leggja inn aðra umsókn, N. gerði sér vonir um, að unnt yrði að fá fjármagn til þessa þegar á fjárlögum ársins 1974, og ég get lýst vonbrigðum mínum og allra nm. með það, að slíkt tókst ekki. Eins og allir menn þekkja, eru margir um þann bita, sem þar er og reyndist svo við lok afgreiðslu, að ekki var talið fært á þessu stigi að veita fé í þessu skyni.

Í þessu frv. er jafnframt gert ráð fyrir því að Framkvæmdastofnunin hafi heimild til lántöku allt að 100 millj. kr. á næstu árum hjá Framkvæmdasjóði Íslands til þessarar lánadeildar. Hitt er ljóst, að lánsfé deildarinnar verður ekki byggt upp, svo að vel sé, með því lánsfé, sem fáanlegt er á almennum markaði. Þarna verður að koma til fjárveiting hins opinbera, til þess að þessi lán geti orðið sambærileg við þau lán, sem húsnæðismálastjórnarkerfið almennt veitir. Það er því skoðun flm. og trú og n., sem þetta hefur undirbúið, að svo hljóti að verða á fjárlögum ársins 1975. Hins vegar þótti rétt, að frv. þetta yrði þegar að lögum, svo að á það mætti reyna, hvort unnt yrði að útvega fjármagn þegar á þessu ári til þeirra lána, sem hér um ræðir.

Grg. með þessu frv. er allítarleg og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Ég hygg, að öllum mönnum sé það ljóst, eins og ég sagði áðan, að þarna verður að gera sérstakt átak. Það er satt að segja í mörgum tilfellum heldur haldlítið og tilgangslítið að veita mikið fjármagn til kaupa á skuttogurum og alls konar atvinnuuppbyggingar í landshlutunum, ef ekki er sköpuð þar sú aðstaða fyrir fjölgun íbúa, sem verður að fylgja slíkri þróun. Þetta er einnig ljóst í sambandi við þær byggðaáætlanir, sem nú er unnið mjög að. Það er tilgangslítið að binda þær eingöngu við atvinnuuppbyggingu. Þær verða að um til hinna fjölmörgu þátta mannlegs lífs á viðkomandi stöðum. Hér er aðeins tekið á einum þeirra að vísu, en að mati milliþn. í byggðamálum þeim þættinum, sem einna mikilvægastur er nú. Það er von flm., að slík örvunarlán geti orðið til þess að rjúfa þann vítahring, sem hefur ríkt í íbúðamálum dreifbýlisins. Þar hefur víða ríkt viss tregða við fjárfestingu. Menn hafa talið fé sínu betur borgið á höfuðborgarsvæðinu og ekki að ástæðulausu og því haldið fremur að sér höndum við að festa það í íbúðabyggingum á hinum ýmsu smærri stöðum.

Auk þess er það skoðun okkar, að venjulega fylgi meiri kostnaður íbúðabyggingum í dreifbýli. Ég gæti nefnt um það mörg dæmi, en ég læt nægja að vísa til þeirrar staðreyndar, að mjög verulegan hluta af byggingarefni þarf að flytja frá höfuðborgarsvæðinu, af honum þarf að greiða flutningskostnað, alls konar tafir valda miklum kostnaðarauka, iðnaðarmenn verður mjög oft að fá frá fjarlægum stöðum o.s.frv. Það er því von okkar, að þetta átak megi verða til verulegra úrbóta í íbúðamálum dreifbýlisins. Hitt vil ég leggja ríka áherslu á, að eflaust þarf fleira að koma til. svo að fullnægjandi sé.

Ég vil svo að lokum mælast til, að í lok þessarar umr. verði málinu vísað til 2. umr. og félmn.