13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ákaflega erfitt að gera hér aðeins stutta aths., eins og hæstv. forseti tilkynnti, eftir sumt af því, sem fram kom hjá hæstv. ráðh, út af þessum tiltölulega einföldu spurningum, sem ég leyfði mér að beina til hans. Hann fullyrti, að hann hafi ekki neitt vitað um þessa fsp., þótt einkaráðunautur hans í rn. hafi fengið um það að vita í morgun, að efnislega slíkar spurningar yrðu lagðar fyrir hann, hann hefði ekkert vitað um þær og, eins og hann tók til orða, ræki ekkert eftir slíkri munnlegri fsp., það mætti vel koma fram með prentaða fsp. Hæstv. ráðh. Lúðvík Jósepsson telur nú, að ekkert reki á eftir slíkri fsp., þegar það liggur fyrir, að allsherjarverkfall eða því sem næst er boðað á næstu dögum. Öðruvísi mér áður brá, þegar þessi maður, hæstv. núv. ráðh., var í stjórnarandstöðu og stóð hér upp nær daglega til þess að spyrja þáv. ríkisstj., hvernig samningamálum háttaði. Þótt hann haldi, að samningar séu fram undan, álft ég, að svo geti farið, að verkfall skelli yfir. Við skulum vona, að ég vona það með hæstv. ráðh., að til þess komi ekki, og veit ég, að það gera allir, hvort sem þeir eru samningamenn úr röðum verkalýðsfélaga, sjómannafélaga eða frá atvinnurekendum, og að sjálfsögðu hlýtur þetta að vera meginósk þeirra, sem fara með stjórn þjóðmála. Þetta vita auðvitað allir.

En spurningin er sú, sem ég lagði fram: Hefur verið gert það, sem gera þarf? Það hefur komið fram mikil gagnrýni á þetta frá verkalýðsfélögunum og öðrum aðilum, sem í samningum standa. (Gripið fram í.) Já, líka frá aðilum verkalýðsfélaga, hæstv. ráðh.

Ég sagði, að aðilar úr samninganefnd yfirmanna hefðu í gærmorgun ekki fengið þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. lofaði í s.l. viku. Hann segir: Ég var með þetta í vasanum. Vera má, að þeir hafi ekki spurt um það, vegna þess að þeim hafi verið kunnugt um það eftir öðrum leiðum, að þetta var hætt að varða þá. Þetta var svo ómerkilegt og lítið, að þetta varðaði þá ekki í þeirra samningum, og þá kannske halda þeir sig frekar við harðari og hærri kröfur en máske hefði verið haldið á og mun verða haldið á hjá mörgum aðilum, ef slíkt kæmi til greina, eins og fyrirgreiðsla opinberra stjórnvalda í þessum tveim greinum, sem ég minntist á, og þar á ég við til skattalækkunar og til úrbóta í húsnæðismálum. Það rengir enginn þau orð mín, að það hefur bæði verið krafa Alþýðusambands Íslands, allrar verkalýðshreyfingarinnar og loforð ríkisstj. að reyna að koma þar á móti í þessum málum. (Fjmrh.: Það er búið að vinna að því margar vikur.) Ég veit, að hæstv. fjmrh. hefur verið að vinna í þessu dag og nótt að undanförnu. Ég þekki til einnar till., sem frá honum kom og hans starfsmönnum fyrir nokkrum vikum, og ég minni hann á það, hvaða afgreiðslu sú till. fékk hjá sömu samtökum. Að vísu veit ég líka, að það hefur verið unnið að úrbótum á þeim till., og ég vona það hreinskilningslega, að út úr því megi koma eitthvað til úrbóta fyrir þessa aðila.

En mér finnst harla undarlegt, þegar hæstv. sjútvrh. tekur undir þessar vitleysislegu yfirlýsingar frá mönnum úr samninganefndum verkalýðsfélaganna, að það sé sjálfsagt að halda áfram að taka við loðnu í þær verksmiðjur, sem hefur verið boðað til vinnustöðvunar hjá. Hvaða sveitarfélag, hvaða samvinnufélag, hvaða einstaklingur getur leyft sér að reka fyrirtæki upp á þetta, þótt hæstv. ráðh. haldi því fram hér í hv. þd., að þetta hráefni verði hið sama, jafnvel þótt það bíði í mánuð? Jú, bann bætir því við: Það er engin hætta á verkfalli, það verður ábyggilega samið, fullyrðir hann. Ég veit ekki, hvaðan hann hefur leyfi til að fullyrða slíkt. Ekki þekki ég til þess. Hitt veit ég, að slíkt hráefni, sem geymt er með rotvarnarefnum er farið að láta á sjá þegar liðnir eru nokkrir dagar, og orðið minna að verðmæti en áður var, og þegar mánuður er liðinn, spái ég því, að slíkt hráefni sé ónýtt.

Herra forseti. Ég skal ekki níðast á góðmennsku þinni með því að hafa þessi orð miklu fleiri, þótt það væri ærin ástæða til að ræða þetta mál miklu ítarlegar. Það er furðulegt, að bæði hæstv. ráðherrar og forsetar skuli ekki leyfa, að þessi mál séu rædd frekar en gert hefur verið hér á Alþingi Íslendinga. Ég skal fylgja þeim þingsköpum, að þetta hafi aðeins verið aths. hjá mér, þótt margir menn hafi kvatt sér hljóðs til þess að ræða um þetta mál, og hefði kannske verið full ástæða milli þm. að ræða þetta jafnt eins og milli þm. og ráðh.

Það var þó eitt atriði, sem ég verð að gera aths. við í máli hæstv. ráðh. Hann sagði í sambandi við eina fsp. mína, að loðnuverksmiðjur á Suðvesturlandi mundu halda áfram að taka á móti loðnuúrgangi vegna eindreginna tilmæla ríkisstj. hefði verið ákveðið að halda þessari móttöku áfram. Nú geri ég ráð fyrir, að það komi ýmsar aðrar skoðanir fram frá aðilum og m.a. þessum aðilum innanlands, m.a. þær, að þetta eins og kannske sumt annað, sem þessi hæstv. ráðh. hefur farið með hér á Alþ. á undanförnum missirum og árum, séu ekki alveg sannleikanum samkv. held ég, að þetta sé ekki þannig í pottinn búið eins og hæstv. ráðh. vill láta í veðri vaka. Ég held, að þannig hafi staðið á, að þessar verksmiðjur hafi verið búnar að lofa frystihúsunum, sem taka á móti loðnu til frystingar, að taka á móti úrgangi til vinnslu, a.m.k. þar til kæmi til vinnustöðvunar, en þá hafi verið hringt úr Stjórnarráði Íslands til þeirra og beðið um að láta þess getið, að þetta væri ósk ríkisstj., ekki ákvörðun þeirra. Vera má, að þetta sé rangt, en það mun þá verða leiðrétt. En alla vega veit ég það, að þótt hæstv. ráðh. leiðrétti þessi orð mín nú á þann veg, að þau séu röng, þá mun koma önnur fullyrðing í fjölmiðlum á morgun um, að það sé rétt, sem ég er að segja núna.

Ég skal, herra forseti, láta þessum orðum mínum nú lokið í sambandi við þetta mál. En eins og ég tók fram áðan, væri full ástæða til að ræða ýmis ummæli hæstv. ráðh. í löngu máli og þó sérstaklega þau ummæli hans og skoðun, að ekki sé hætta á því, að verkfall skelli yfir, og kannske þá skoðun hans um leið og aðgerðir, að óhætt sé að sofa á málum, þar til kemur að sjálfu verkfallinu. Ég veit ekki, hvaðan hann hefur þær fullyrðingar eða af hverju hans skoðun sé sú, að ekki komi til verkfalls, eftir að staðið hefur verið í samningaumleitunum í rúma 4 mánuði og ekkert hefur miðað frá sjónarmiði almennings. Auðvitað vitum við, sem fylgjumst með samningunum, að nokkuð hefur miðað, og við skulum vona, að samningar geti tekist. En hvernig hæstv. ráðh. getur haft þá vitneskju, að ekki komi til verkfalls, það er mér algerlega útilokað að sjá. Og ég geri ráð fyrir því, að fleiri séu sama sinnis.

Ég vil aðeins að lokum segja það, herra forseti, að ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að auðvitað er ekki heppilegt, að það sé gripið inn í samninga verkalýðsfélaga eða launþega og vinnuveitenda með beinum aðgerðum ríkisvaldsins. Hins vegar þekkjum við það á undanförnum árum og áratugum, hálfum öðrum áratug, að það hefur oft verið farsælt, ef ríkisstj. í viðkomandi tilfelli hefur beitt sér fyrir lausn, sem báðir aðilar gætu fallist á. Þetta hefur oft verið á grundvelli ýmislegra félagslegra úrbóta, eins og við þekkjum dæmi til. En það er ekki von, að blítt gangi um þessar samningaviðræður, þegar ekkert verður úr úrlausn þeirra félagslegu úrbóta, sem lofað er í byrjun samninga, um leið og kröfur koma fram, og engar úrbætur sjást, sem ríkisstj. hefur þó máske lofað. Og það er máske þessi spurning, sem vakir fyrir mörgum aðilum, sem í samningaumleitunum standa nú og ekki vita um það. En hins vegar má vera, að flokks- og félagsmenn hæstv. ráðh. viti eitthvað um þetta. Þeir munu mest hafa leitt þá samninga, sem nú hafa staðið og eru lengstu samningaviðræðna, sem átt hafa sér stað á Íslandi til þessa. Þeir hafa leitt þessar samningaviðræður fram til þessa dags.