13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

Umræður utan dagskrár

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við tilmælum forseta um að hafa það stutt, sem ég segi hér. Ég get gert það af ýmsum ástæðum. Enda þótt samningar verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur hafi nú staðið yfir í 4 mánuði, eru þeir á því stigi nú, að ég tel ekki rétt sem einn af þátttakendum í þeim samningum að fara að ræða það mál ítarlega hér á Alþ.

Það, sem gaf mér tilefni til að koma nú upp í ræðustól, voru ummæli hv. 10. þm. Reykv. um félaga mína, sem eru í samninganefndum verkalýðshreyfingarinnar, þar sem hann talar um, að þeir séu að gefa vitlausar yfirlýsingar. Það var í fyrri ræðunni. En úr stuttu aths. á eftir skrifaði ég orðrétt, að ég held, en sé það rangt hjá mér, þá óska ég leiðréttingar á því, en ég skrifaði orðrétt. „Vitlausar yfirlýsingar samningamanna verkalýðsfélaganna.“

En það var ýmislegt, sem kom fram í ræðu þessa ágæta þm., sem er athyglisvert fyrir einmitt fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, sem í samningunum standa. Eins og kunnugt er, voru fyrstu svör atvinnurekenda, þegar loksins einhver svör komu frá þeim, kauplækkunartill., m.a. frá þeim atvinnurekendum, sem síðar urðu reiðir yfir því að fá ekki undanþágu frá verkfalli til loðnumóttöku og svöruðu með því að neita að taka á móti loðnu. Það er athyglisvert, að það skuli vera 10. þm. Reykv., sjómaðurinn Pétur Sigurðsson, sem sér ástæðu til þess að koma hér nú á viðkvæmu augnabliki í samningamálum verkalýðshreyfingarinnar og taka undir þá kröfu atvinnurekenda, að gefin sé undanþága til loðnumóttöku. Þetta hygg ég, að fleiri samninganefndarmönnum en mér mundi þykja athyglisvert orð af hálfu sjómannsins Péturs Sigurðssonar. Ég harma, að þetta skuli koma einmitt frá honum.

Það var einungis þetta, sem ég vildi vekja hér athygli á, ég skal reyna að standa við það að hafa ekki þessi orð fleiri. Ég vona, að ég hafi ekki hagað orðum mínum þannig, að hv. þm., — ég held, að hann megi ekki taka til máls aftur, er það ekki rétt? — ég hef ekki gefið honum ástæðu til mikilla aths. hér á eftir.