13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta, að þegar svo mikilvægt mál er til umr. sem þetta hér, verði þessari nýju reglu þeirra um takmarkaðan ræðutíma ekki beitt svo harkalega sem raun ber vitni um.

Ég hygg, að ég geti svarað fyrir hv. 10. þm. Reykv. að því er laut að ummælum hans um vitlausar yfirlýsingar, frámunalega vitlausar yfirlýsingar, eins og hann orðaði það í fyrri ræðu sinni. Hann sagði þar orðrétt, að það hefði verið frámunalega vitlaus yfirlýsing eins af samningamönnum verkalýðshreyfingarinnar, sem þarna átti hlut að máli. Og það verður að segjast eins og er, að ég hygg, að það verði ekki með rökum sýnt fram á það, að þetta hafi ekki verið frámunalega heimskuleg yfirlýsing, svo að ekki sé meira sagt, um þau ráð, sem hann vildi grípa til í tilefni af því, að fyrirsvarsmenn verksmiðja á Suðvesturlandi höfðu ekki talið sér fært að taka við loðnu, þar sem boðuð höfðu verið verkföll nú innan örfárra daga. Það má á það minna, að ég hygg, að ég hafi heyrt það rétt í fjölmiðlum í gær, að þegar loðnuþrær hjá Síldar- og fiskimölsverksmiðjunni á Kletti hér í Reykjavík eru fullar, muni verðmæti hráefnisins sjálfs nema milli 40 og 50 millj. kr. Það er rétt, að það má með góðri umhirðingu geyma loðnu alllengi, þannig að hún verður eftir sem áður sæmilegt hráefni, en glatar vitanlega mjög miklu af verðmæti sínu.

Það, sem málið snýst kannske aðallega um, og það, sem orðfært hefur verið hér áður í umr. í þessu efni, er þetta, að hæstv. ríkisstj. hefur verið gagnrýnd fyrir það, að á henni hafi staðið alveg sérstaklega með tilliti til úrbóta í tveimur mjög þýðingarmiklum þáttum hagsmunamála verkalýðsins, sem hún hafði fyrir einum fjórum mánuðum dregist ákveðið á að veita. Þær úrbætur hafa látið á sér standa. Þetta eru úrbætur í skattamálum, sem þegar í upphafi var sett fram ákveðin krafa um af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, og í húsnæðismálum. Það hefur tekið hæstv. ríkisstj. miklu lengri tíma að leggja fyrir þessar úrbætur og lagfæringar á skattamálunum en tók hana haustið 1971 að setja öll núgildandi skattalög. Og ég verð að skjóta því hér inn í, að það kom fram í umr. um daginn hjá hæstv. forsrh., að mig minnir, að fyrir samninganefnd verkalýðsins hefðu verið lögð drög að breytingum á skattalögum. Ég verð nú að segja það alveg eins og er, að mér hefði fundist fullkomin ástæða til þess, að hv. alþm. hefðu fengið að líta á þessi drög. Það hefði getað sparað tíma, ef þeir hefðu getað gert sér grein fyrir því, hvað hér væri um að tefla. Það hefði gjarnan mátt afhenda þetta sem trúnaðarmál. Vitanlega er það að fara aftan að hlutunum að ræða við hvaða aðila sem er í þjóðfélaginu um þýðingarmikil löggjafaratriði og ganga alveg fram hjá hinu háa Alþ. í því sambandi. Þetta hefði verið hægt án þess að hætta neinu til um það, að þetta hefði þurft að verða opinbert mál, — hefði getað skapað skilning og sparað tíma til þess að vinna þessu máli framgang.

Ég vil aðeins víkja að því, sem fram kom hjá hæstv. sjútvrh., sem sagði um sjómannasamningana, að fulltrúar sjómanna hefðu látið þess getið, að útgerðarmenn hefðu í frammi þær kröfur um breytingar á kjarasamningum á skuttogurum, að það mundi taka ár eða áratugi að ná þeim fram. Ég skal ekkert um þetta dæma. En hann hefði kannske átt að láta þess getið í leiðinni, hvers vegna slíkar kröfur eru fram komnar. Þær eru ekki komnar fram vegna þess, að útgerðarmenn telji, að starfsmenn þeirra á skipunum séu of hátt launaðir, þótt hásetahlutur fari e.t.v. að jafnaði upp í 140 þús. kr. á mánuði eða losi það, fyrir utan klæði og ýmiss önnur hlunnindi, þ. á m í skattamálum. Það er ekki höfuðatriðið, heldur það, að rekstrargrundvöllur fyrir þessi skip er ekki fyrir hendi. Og með einhverjum hætti reyna þessir útvegsmenn að sjá málum sínum borgið. Það hefur a.m.k. ekki verið gert hingað til af hæstv. ríkisstj., enda þótt hæstv. sjútvrh. hafi fyrir löngu haft um það góð orð og hafi, að því er ég best veit, haft starfandi n. manna til þess að rannsaka stöðu þessa útvegs. Útgerðarmenn beina e.t.v. huga sínum að þessu atriði af þeim sökum, að nú í dag, þegar fækkað hefur verið mönnum um borð í þessum nýju skipum vegna tækninýjunga úr 31 í 23, þá skuli samt sú staðreynd blasa við, að nákvæmlega jafnmiklu af afla er skipt milli þessara 23 manna og milli 31 áður.

Ég legg áherslu á það, að höfuðatriði málsins má ekki verða það, að það sé sérstaklega beint geiri sínum að kjörum skipverjanna sjálfra. úrbætur verða að nást með öðrum hætti, vegna þess að þótt þeir séu sæmilega haldnir í kaupi og kjörum, þá er það ekki of í lagt, miðað við, að þessir menn dvelja helftina úr árinu, og þó miklu meira, að heiman frá sér og fjarri sinni fjölskyldu, og ýmislegt annað kemur þar til greina, sem óþarft er að telja eða tína til nú.

Ég held, að það liggi fyrir og niðurstaða þeirrar n., sem skipuð var til þess að rannsaka þessi mál, sé, að rekstrargrundvöllurinn er ekki fyrir hendi, og þá er augljóst mál, að ekki eru líkur fyrir því, að samningar gangi greiðlega, þegar svo ber til, að annar samningsaðilanna telur sig ófæran um að ganga frá samningum um kanp og kjör, vegna þess að staða atvinnuveganna er með þeim hætti, að þess er enginn kostur að standa undir þeim útgjöldum, sem þeir væru þá að undirrita samninga um. Þetta má alveg augljóst vera, og væri gjarnan mjög þénugt að fá um það einhver orð frá hæstv. ráðh., hvort hann hefur ekki fljótlega í huga að bera fram till. til úrbóta í þessu efni.

Ég tek undir það, að auðvitað er varhugavert að hafa í frammi á viðkvæmum stigum samningamála háværar umr. um hina ýmsu þætti þeirra. En alla vega, eins og málum er komið nú, þegar hæst stendur í stönginni varðandi loðnuveiði, sem eru einhver mestu uppgrip, sem við höfum nokkru sinni haft, þegar þannig standa mál og fyrir liggur, að e.t.v. muni verða að hætta þeim veiðum vegna yfirvofandi verkfalla, þá er ekkert eðlilegra og sjálfsagðra en hið háa Alþ. taki málið til alvarlegrar yfirvegunar og gefi sér betri tíma en hæstv. forsetar hafa skammtað til slíkra umr.

Hv. 8. þm. Reykv. hneykslaðist á og undraðist mjög, að Pétur Sigurðsson, hv. 10. þm. Reykv., hefði tekið undir þá áskorun vinnuveitenda að gefa undanþágu í þessu efni. Pétur Sigurðsson er að sjálfsögðu í fyrirsvari fyrir verkalýðssamtök. En það má vera forherðing hugarins, ef það er hjá hv. 8. þm. Reykv. eitthvað hliðhallt við réttsýni, að fulltrúi sjómanna, sem nú stunda loðnuveiðar t.d. og eiga slík uppgrip í boði sem þar eru, hvetji til þess, að á það verði litið sérstaklega af verkalýðshreyfingunni, að þessi miklu uppgrip verði ekki stöðvuð, uppgrip til handa umbjóðendum hans og til handa þjóðfélaginu öllu. Það má vera orðin vönduð spilamennska og háþróuð innan þessarar verkalýðshreyfingar, ef það er ekki leyfilegt einu sinni fyrir mann, sem þó er í fyrirsvari þar, að leggja áherslu á, að slíkum ókjörum linni og tekið sé sérstakt tillit til þess arna til þess að bjarga verðmætum, sem okkur ríður lífið á að draga í land og vinna til fullnustu.

Ég hef kannske orðið langorðari en ég ætlaði og reynt á þolinmæði hæstv. forseta. En ég legg áherslu á, að hér er um svo mikilsvert mál að ræða, að við hljótum að gefa okkur tíma til að staldra við og velta því vandalega fyrir okkur. Ég endurtek, að það er alveg ljóst, og það er aðalinnihald þessara umr., að það stendur upp á hæstv. ríkisstj., það stendur stórlega upp á hana, hún á kannske höfuðsök á því, hversu óhæfilega þessir samningar hafa dregist á langinn. Það stendur upp á hana, af því hún hafði axlað og að sér tekið að bera fram úrbætur í þessum geysilega þýðingarmiklu málaflokkum, sem verkalýðshreyfingin hefur fyrir löngu lýst yfir, að væru eitt meginatriði kjarabaráttunnar nú.