13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Það skal tekið fram, að ég er á sama máli og hv. þm. Sjálfstfl., að ég tel það í hæsta máta óviðurkvæmilegt, þegar sendimenn erlendra sendiráða koma og veita okkar æðstu embættismönnum áminningu. En ég held, að við mættum allir vera mjög miklir hræsnarar, ef við neituðum því, að önnur sendiráð hér í Reykjavík hefðu einhvern tíma beitt svipuðum vinnubrögðum.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson stóð hér upp til að benda okkur á, að við mættum vera glaðir yfir því að búa í lýðfrjálsu landi. Ég tek undir það, að við megum vera þakklátir fyrir það. En mér er ekki grunlaust um, að einn íslenskur rithöfundur, sem heitir Guðmundur Daníelsson, kynni að gera aths. við þetta. Hann var ritstjóri blaðs fyrir austan fjall og skrifaði um landhelgismálið öðruvísi en hinum æðsta manni þóknaðist, og hann var rekinn. Ég verð að segja, að mikið megum við líka vera þakklátir fyrir það, Íslendingar, að sá maður skuli, a.m.k. þegar þessi gállinn er á honum, ekki ráða nema yfir einu blaði á Selfossi.

Að öðru leyti þetta: Ég benti hér á óheilindin, sem eru í málflutningi margra íslendinga varðandi ofríki og kúgun. Menn býsnast ekki, nema þegar þetta á sér stað á vissum parti hnattarins. Hv. þm. Ingólfur Jónsson og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen sýndu í ræðum sínum, að þeir voru engu nær um það, sem ég var að segja. Þarna komu fram dæmigerðir fulltrúar þess fólks, sem beitir sér fyrir því, að við skulum endilega hafa hersetu áfram á Íslandi. Þetta fólk er alveg ómóttækilegt fyrir nokkur rök, gersamlega. Mér dettur í hug það, sem einn gamall kennari sagði um nemendur sína, þegar hann var spurður um árangurinn: Enginn, enginn. Það er frosið fyrir öll skilningarvit.