13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil taka mjög undir öll þau ummæli, sem fallið hafa hér um atburði, sem gerst hafa í Sovétríkjunum, og brottrekstur hins snjalla rithöfundar, Solzhenitsyns, úr því landi. Ég þarf ekki að verja frekari tíma til að endurtaka þessi orð, en vil aðeins bæta því við, að ég skammast mín fyrir það að á Alþingi Íslendinga skuli þurfa að draga umr. um slíkan viðburð niður á það svið að vera að tala um deilur Guðmundar Daníelssonar við aðra menn á Selfossi. Við ættum að geta haldið okkur örlítið ofan við það.

En tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs, eru þær upplýsingar, sem hæstv. utanrrh, veitti um mótmæli sovéska sendimannsins. Þegar slík mótmæli eru lögð fram, á utanrrn. þriggja kosta völ: að neita að taka við mótmælunum, að taka við þeim og bregðast á engan hátt við eða þá að taka við þeim og svara þeim. Þessi mótmæli voru munnleg, svo að það var heldur erfitt að neita að taka við þeim. En mér líkar ekki, að rn. skuli segja við sendimanninn, að þessari umkvörtun verði komið á framfæri við viðkomandi aðila. Ég held, að utanrrn. hefði átt að taka á móti þessu þegjandi, en ekki veita þessum mótmælum þá viðurkenningu, að þau væru þess virði að flytja þau til viðkomandi aðila. Nú veit ég ekki, hvort viðkomandi aðili í þessu tilfelli er ráðh., sem viðhafði ummælin, sem kvartað var undan, hvort hann hefur fengið þessi boð, eða hvort viðkomandi aðill er sjónvarpið og er það þó líklegra, því að sjónvarpið vissi af mótmælunum og sagði frá þeim. Tel ég ekki vera rétt af rn. að flytja slík mótmæli til opinbers fjölmiðils á Íslandi.

Það er ekki nýtt, að erlend ríki eða erlend sendiráð mótmæli skrifum íslenskra fjölmiðla, þ.e. íslenskra blaða. Ég veit ekki dæmi þess, að þetta hafi komið fyrir áður um útvarp eða sjónvarp, en þetta er gömul saga varðandi blöðin. Nasistarnir í Þýskalandi voru óþreytandi að mótmæla skrifum íslenskra blaða, og ég hef það fyrir satt, að einu sinni, þegar íslenskur sendimaður var í Berlin til að tala um viðskipti, hafi bunka af Alþýðublaðinu verið fleygt á borðið, áður en umr. hófust. Sjálfur hef ég lífað það að skrifa grein, sem var um Sovétríkin og sovétkommúnismann og var þess eðlis, að rússneska sendiráðið hér lét í ljós við utanrrn. mótmæli. Þessi mótmæli voru ekki flutt af rn. til mín, þeir tóku við þeim og þögðu. En ég frétti af þeim persónulega nokkru seinna og óformlega. — Ég tel þetta að sjálfsögðu ekki stórt atriði, en taldi þó rétt, að þessar skoðanir mínar kæmu fram.