30.10.1973
Sameinað þing: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

1. mál, fjárlög 1974

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Fjárlagaræða hæstv. í fjmrh. var flutt hér í sameinuðu þingi 23. þ. m., fyrir réttri viku. Síðan hafa verið haldnir þrír fundir í Sþ., en ekki verið á þeim rúm fyrir umr. um þetta mikilvægasta mál Alþ.

Eins og að líkum lætur, gaf fjárlagaræða hæstv. fjmrh. tilefni til margs konar hugleiðinga, enda stóð hún í 3 klukkustundir. Þó er það svo, að mestan hluta ræðu hans má finna í grg. með frv., eins og eðlilegt er. Þær aths., sem þar eru settar fram, eru um margt athyglisverðar og þá ekki síst að því leyti, að svo virðist sem þær komi ekki heim við þær staðreyndir, sem lesnar verða út úr þeim tölulegu upplýsingum, sem aths. eiga þó að skýra. T. d. veit ég, að mönnum kemur það mjög á óvart, sem segir þar um fjármögnun ríkisframkvæmda, en um það segir svo í aths., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá hefur við gerð þessa fjárlagafrv. verið gengið lengra á þeirri braut, sem fylgt hefur verið við gerð síðustu tveggja fjárl., að fjármagna ríkisframkv. með samtímatekjum. Nú hefur tekist að ná þessu marki að verulegu leyti.“

Þetta segir í aths. Ég hygg, að þetta sé rétt lesið hjá mér. En sé svo, ber þá að skilja þetta þannig, að nú sé gert ráð fyrir minni lántökum til framkvæmda en ríkisstj. hefur staðið að, síðan hún kom til valda? Sennilega. Ég tel það þá sanni nær, að skuldasöfnun hafi orðið með ólíkindum mikil á því góðæri, sem verið hefur hin síðari ár. Ég hef það fyrir satt, að t. d. hafi erlendar skuldir hækkað, síðan núv. ríkisstj. kom til valda, um það bil 6 þús. millj. kr., og ég fæ ekki betur séð en enn sé í fjárlagafrv. gert ráð fyrir stórfelldum lántökum til fjáröflunar fyrir verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins eða lántökum, sem þarna eru tíundaðar að upphæð 2728 millj. kr. Að sjálfsögðu er ekki öll sagan sögð, þótt þessi upphæð sé nefnd, því að þá eru ótaldar þær fjárhæðir, sem óhjákvæmilegt verður að útvega hinum ýmsu fjárfestingarsjóðum að láni umfram þau framlög, sem til þeirra eru ætluð á fjárl. Mér þykir óvarlegt að áætla þá lánaþörf mikið undir 5 milljörðum kr., og er þá húsnæðislánakerfið meðtalið.

Af þessu má nokkuð marka það, hversu haldgóðar upplýsingar það eru, sem gefnar eru í aths. með frv., þegar sagt er, að nú hafi tekist að ná því marki að verulegu leyti að fjármagna ríkisframkvæmdirnar með samtíma tekjum. Þar held ég, að vanti stórlega á. Eða vill hæstv. fjmrh. kannske halda því fram, að skuldaaukningin gangi ekki til framkvæmdanna, heldur fyrst og fremst til þess að standa undir kostnaði við rekstur ríkisbáknsins? Ég held varla.

Fjárlagafrv. er í nokkuð öðru formi en verið hefur. Í aths. með því segir, að það hafi verið talið hagkvæmt að fella saman tvo meginþætti ríkisbúskaparins, fjárl. og framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ársins 1974, vegna þess að með þeim hætti gæfist betri heildaryfirsýn yfir ríkisbúskapinn. Ég tel, að þetta viðhorf sé rétt, og það hefði vissulega verið mikilvægt, að við þessa ákvörðun hefði verið staðið. En svo er hreint ekki. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er ekki stafkrókur um þær fjárhæðir, sem hinir ýmsu fjárfestingarsjóðir atvinnuveganna og húsnæðislánakerfisins verða að fá til ráðstöfunar, svo að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar samkv. lögum. Þar er um háar fjárhæðir að ræða, eins og ég vék að hér áðan, sennilega ekki undir 5 milljörðum kr. Það má því vera öllum mönnum ljóst, að með engu móti gefst viðhlítandi yfirsýn yfir ríkisbúskapinn, nema unnt sé að meta í einu alla fjármagnsþörf til rekstrar og fjárfestingar á vegum ríkisins og stofnana þess. Það má því segja það um þessa ákvörðun um gerð yfirgripsmeiri og heilsteyptari fjárl., að hún væri mjög til hagræðis við að meta stöðu ríkisins um fjármál og framkvæmdir, ef við hana hefði verið staðið, en ekki felldur niður stór og afgerandi þáttur ríkisbúskaparins.

Í framhaldi af þessu segir svo í aths. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Að öðru leyti má segja, að fjárlagafrv. þetta fylgi fastar eftir en verið hefur þeim umhótum á sviði félagslegrar uppbyggingar, sem ríkisstj. hefur þó unnið verulega að, og svo hitt, að með því er hafinn nýr áfangi í framkvæmd byggðastefnu þeirrar, sem ríkisstj. markaði við upphaf valdatöku sinnar.“

Þetta eru orð hæstv. fjmrh. Það er nú svo. Það skyldi þó aldrei vera ástæða til að staldra hér aðeins við og kanna, hvað hæft er í þessum fullyrðingum? Hvað um félagslega uppbyggingu? Í málefnasamningi stjórnarinnar er heitið umhótum á ýmsum sviðum félags- og menningarmála. Og satt er það, að ný lög og reglur hafa verið sett um nokkur þeirra, svo sem um heilsugæslu og heilbrigðismál. En hvar sést árangurinn af þeirri löggjöf? Jú, í aths. segir, að framlög til byggingar sjúkrahúsa og læknisbústaða hækki um 57.4 millj. kr., og það er rétt. Mér telst svo til, að það séu 30% hækkun frá fjárl. þessa árs, og væri það ekki lítils vert, ef um svo mikla magnaukningu væri að ræða. En þetta atriði er rétt að athuga dálitið nánar. Á því ári, sem liðið er frá því, að fjárlagafrv. fyrir árið 1973 var lagt fram, eða frá 1. nóv. 1972 til 1. nóv. n. k., hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað upp í 910 stig, um 221 stig eða rúmlega 32% eða m. ö. o.: sú hækkun um 30%, sem samkv. fjárlagafrv. er á fjárl. til sjúkrahúsa og læknishústaða, vegur hvergi nærri upp á móti þeirri kostnaðarhækkun, sem Hagstofa Íslands mælir í byggingarvísitölunni og er, eins og áður sagði, um 32% á einu ári.

Nú er það öllum vitanlegt, að raunverulegur byggingarkostnaður hefur hækkað miklum mun meira en vísitalan segir til um vegna þeirrar þenslu, sem nú er á vinnumarkaðinum, og eftirspurnar eftir byggingariðnaðarmönnum, sem sprengt hefur af sér alla taxta, en þeir — aðeins þeir — eru lagðir til grundvallar útreiknaðri byggingarvísitölu Hagstofunnar. Það er mönnum kunnugt, að hin nýju lög um heilbrigðisþjónustu taka gildi um næstu áramót. Það er mönnum einnig kunnugt, að þau lög leggja þyngri fjárhagslegar skyldur á ríkissjóð en áður, þar sem hlutur ríkissjóðs í byggingu og búnaði heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa var aukinn úr 60% í 85%. Þetta er ákvörðun Alþ., sem gerð var einum rómi og þm. ætluðust ekki til þess, að þessi aukna þátttaka ríkisins gleymdist við gerð fjárlagafrv., þess fyrsta eftir samþykkt laganna. Ég veit, að það var ekki ætlun þm., að ákvæði hinna nýju laga yrðu til þess að draga úr framkvæmdum sem þessum, og ég vænti þess, að það hafi ekki heldur verið ætlun ríkisstj. Þó er staðreyndin þessi, að framkvæmdafé í fjárlagafrv. til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva er svo numið við nögl, að ekki verður á næsta ári haldið í horfinu um framkvæmdamagn og vantar raunar mikið upp á, þegar reiknað er með öllum þeim þáttum, sem hafa áhrif á útkomu dæmisins. Við lauslega athugun þykir mér líklegt, að framkvæmdir muni dragast saman um fast að 30% á árinu 1974, ef ekki fæst leiðrétting á þessum lið.

S. l. laugardag var í Tímanum forustugrein með nafninu „Byggðamálin“. Í henni eru tekin upp ummæli eftir hv. þm. Vilhjálm Hjálmarsson, sem hann hafði í ræðu sinni í umr. um stefnuræðu forsrh. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er einkennandi fyrir málefnastöðuna á hálfnuðu kjörtímabili, hvað víða hefur verið tekið til hendi, svo að um munar, og mörgu þjóðþrifamáli komið á rekspöl. Gildir það ekki síst um byggðamálin, og má þar enn minna á nokkur atriði. Opnun hringvegar umhverfis landið mun marka tímamót“ — Ég hef nú ekki orðið þess var fyrr, að það væri fyrst og fremst fyrir atbeina núv. ríkisstj., að opnun hringvegar umhverfis landið blasir við að komast í framkvæmd nú. Enn fremur sagði í þessari forustugrein: „Ný hafnalög, heilbrigðislöggjöfin og lög um dvalarheimili aldraðra ákvarða stóraukna þátttöku ríkis í mannvirkjagerð og innihalda merk skipulagsleg ákvæði“

Ja, það var nú þá, sagði Lárenzíus sýslumaður. Þessi tilvitnuðu orð voru nefnilega sögð, þegar verið var að ræða um stefnu ríkisstj. Þá er munað eftir því og gumað að því, að ákveðin hefur verið stóraukin þátttaka ríkisins í mannvirkjagerð. En það gefur engri ríkisstj. og engum þm, rétt til þess að ganga á svig við bein lagafyrirmæli við fjárlagagerð, eins og gert hefur verið með till. um framlög til uppbyggingar heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu í því fjárlagafrv., sem hér er til umr. Og ég hygg, að strjálbýlismönnum þyki það ekki lýsa háþróaðri byggðastefnu ríkisstj.

Þótt ég hafi lýst hér fjármögnunarþætti heilbrigðismálanna sérstaklega, þá er það ekki vegna þess, að sá málaflokkur skeri sig svo mjög úr. Sömu sögu má segja t. d. um hafnamál, skólamál og fleiri málaflokka. En ég nefni ekki um það dæmi, þar sem það hefur verið gert af öðrum á undan mér við þessa umr. En áður en ég lýk máli mínu, get ég ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um byggðamálin frekar.

Ég vitnaði til þess hér áðan, að í aths. við frv. væri sagt, að nýr áfangi væri hafinn í framkvæmd byggðastefnu. M. a. er talið, að efling stofnlánasjóða atvinnuveganna á síðasta þingi sé veigamikill þáttur í framkvæmd þessarar byggðastefnu. Rétt er það, að framlög ríkissjóðs til fjárfestingarsjóðanna voru aukin nokkuð á síðasta þingi og hækkaðir skattar til þeirra sumra til þess að reyna að greiða úr fjárskorti þeirra. En það er fjarri því, að sjóðirnir valdi betur sínum verkefnum nú en þeir gerðu, áður en vinstri stjórnin kom til valda. T. d. má nefna það um Stofnlánadeild landbúnaðarins, að árið 1970 var eigið fé deildarinnar 45% af útlánum hennar, en árið 1973 mun eigið ráðstöfunarfé, eftir eflingu deildarinnar á síðasta þingi, vera því sem næst 40% af lánaþörfinni. Þetta er ekki gott. En þó er sagan ekki sögð öll í þessum tölum, því að ef litið er til lánsupphæða, t. d. til íbúðarhúsa, þá munu þau núna nema 800 þús. kr. En ef þau ættu að vera húsbyggjendum álíka hagstæð miðað við byggingarkostnað og þau voru 1971, þá þyrftu þau nú að vera 1 millj. til 1.1 millj. kr. Sama máli gegnir um Byggingasjóð ríkisins. Húsnæðismálastjórn þyrfti að hækka lánin um 200–300 þús. kr. a. m. k., til þess að þau standist samanhurð við þær lánsupphæðir, sem menn fengu árið 1971. Svona fer verðbólgan með fjárfestingarsjóðina.

En mér þykir rétt að benda á það hér, sem fyrir flestum ætti þó að vera augljóst, að stefna í byggðamálum og áfangaskipti í þeim ákvarðast hreint ekki af getu fjárfestingarsjóðanna. Þeir eru byggðir upp fyrir landið í heild, og þeim verður að óbreyttum lögum ekki heitt að neinu marki til þess að hafa áhrif á þróun byggða og búsetu manna. Þeir hafa önnur höfuðverkefni. Öðru máli gegnir um Byggðasjóðinn. Honum á að beita til byggðajafnvægis. Það er gumað af því, að sá sjóður hafi verið efldur verulega á síðasta þingi, og það er rétt, framlag til hans var aukið verulega, og ber að meta það og virða. En hver eru svo viðbrögð stjórnvalda við upphaf þessa þings? Hversu miklu nemur hækkun til Byggðasjóðs í fjárlagafrv. miðað við árið 1973? Jú, hækkunin er um 1.9 millj. kr. Er þessi hækkun til komin fyrir frumkvæði núv. ríkisstj.? Nei, ég vænti þess ekki, að ríkisstj. eða stuðningsmenn hennar geri tilraun til að þakka sér þann þáttinn í uppbyggingu Byggðasjóðs, sem kemur frá álverksmiðjunni í Straumsvík. Það er eini tekjuliður hans, sem hækkar frá fjárl. 1973. Hið rétta er, að framlagið frá álverksmiðjunni var ákvarðað af viðreisnarstjórninni, og lágu þar til grundvallar rökrétt sjónarmið til byggðamála, sem núv. valdhafar báru ekki gæfu til að koma auga á á sínum tíma. Með það í huga þarf það engum að vera undrunarefni, þótt nokkrum stuðningsmönnum ríkisstj. þætti tími til kominn að reyna að átta sig betur á byggðamálefnunum.

Hv. 1. þm. Vestf. og fleiri þm. Framsfl. báru fram á síðasta þingi till. til þál. um mörkun almennrar stefnu í byggðamálum. Till. hefst í þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela 7 manna nefnd þm., sem kosin er hlutfallskosningu af sameinuðu Alþingi, að gera till. um markmið og leiðir og mörkun almennrar stefnu til jafnvægis í byggð landsins. Skal að því stefnt, að markviss starfsemi á því sviði verði viðurkenndur og fastur þáttur í íslenskri stjórnsýslu.“

Svo eru talið upp nokkur atriði, sem n. skal sérstaklega taka til athugunar, Þ. á m. á n. að gera till. um markmið í byggðamálum, hún á að gera till. um leiðir til þess að ná fyrrgreindum markmiðum, og hún á að leggja drög að almennri stefnu í byggðamálum. Mér sýnist, að þeir menn, sem standa að því að flytja slíka till., muni tæplega hafa verið aldir upp í flokki, sem hefur talið sig einan vita, hvaða stefnu ætti að hafa í byggðamálum, nema þeir hafi verið um of tornæmir. En við skulum vona, að á þeim sannist það, sem á fleiri ungum mönnum hefur sannast, að þeir eigi hægara með að læra, sem ungir eru, því að e. t. v. er að finna í þessum tillöguflutningi nýjan áfanga í framkvæmd byggðastefnu. Við skulum vona, að svo sé, en áfanginn verður ekki fundinn í því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir til umr.

Menn hafa að vonum rætt hér um svimandi háar niðurstöðutölur fjárlagafrv., og það er rétt, fjárlagafrv. hækkar ár frá ári. Það hækkar hraðar en hæstv. fjmrh. tókst að hugsa, þegar hann var í stjórnarandstöðu. Þó mun það eiga eftir að hækka nokkuð í meðförum Alþ., svo framarlega sem Alþ. sættir sig ekki við samdrátt á lífsnauðsynlegum framkvæmdum, eins og gert er nú og ég hef tekið dæmi um í máli mínu, svo og vegna hluta, sem ekki hafa enn verið teknir inn í frv., svo sem aukinn launakostnaður o. fl. Með hliðsjón af þessari fullvissu mun margur spyrja þess, hvort ekki sé nein leið til þess að hamla gegn þeirri þróun ríkisfjármála, sem fjárlagafrv. er spegill af. Ég tel, að vissulega séu möguleikar á því. Fyrir knöppu ári, er 2. umr. fór fram um fjárlög ársins 1973, gerði ég að umræðuefni vissar aðgerðir til þess að draga úr spennu fjárl., og tíunda ég þær ekki nú, þótt skoðun mín sé óbreytt um það efni. Þrátt fyrir jákvæðar undirtektir hæstv. fjmrh. undir mál mitt þá, sjást þess ekki merki, að neitt hafi unnist í þá átt síðan. Að vísu veit ég, að þær till. gætu ekki náð tilgangi sínum að óbreyttri stefnu í efnahagamálum. Þær aðgerðir í efnahagsmálum, sem ríkisstj. hefur staðið að á valdatíma sínum, eru svo ruglingslegar, að almenningur er alls ófróður um það, til hvers þær muni leiða. Almenningur hefur aðeins fundið, til hvers þær hafa leitt, og er reynslunni ríkari, því að þar hefur skipst á tal um vaxtalækkun og ákvörðun um grófa vaxtahækkun, hækkun fjölskyldubóta er ákveðin með skyndingu á einhverju viðkvæmu augnabliki, en kippt til baka að vörmu spori. Einn daginn eru auknar niðurgreiðslur á neysluvörum, en ákveðið skömmu síðar að draga úr þeim til stórra muna. Gjaldmiðillinn hefur ekki heldur farið varhluta af þessari ringulreið, þar sem breytingar á honum hafa verið gerðar svo oft, að viðskipti okkar við útlönd eru miklu erfiðari viðfangs um samninga til lengri tíma vegna óstöðugleika krónunnar. Útflutningsiðnaðurinn hefur orðið mjög tilfinnanlega fyrir barðinu á þessu ástandi, og er engan veginn séð, hvernig við því verður brugðist, svo að til bjargar verði.

Herra forseti. Ég gat þess áðan, að yfir stæði leit að markmiðum og leiðum í byggðamálum til þess gerð, að hægt verði að leggja fram drög að almennri stefnu í þeim. Ég fæ ekki betur séð en ríkisstj. megi gera út nýjan leiðangur til þess að leita að markmiði og leiðum í efnahagsmálum, svo að hún geti tekið ákveðna stefnu í þeim. Fyrr en ný stefna fær að marka gerð fjárl., verður ekki ráðin bót á þeim dýrtíðarvanda, sem þjakar almenning svo mjög og raunar þjóðlífið allt.