14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

179. mál, rannsókn á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forsoti. Ég efast ekkert um að þessi aths. frá hv. 1. þm. Vesturl. er vel meint. En það liggur í hlutarins eðli, að við flm. þessarar till. höfum alltaf gengið út frá því, að sérfræðingar væru kallaðir til. Við höfum aldrei látið okkur detta f hug, að þessir fulltrúar, sem eru kosnir af sýslunefndunum og Vestmannaeyjakaupstað, geri raunverulega út um málið. Þess vegna sagði ég í minni framsöguræðu, að það yrði ekkí pólitísk ákvörðun, sem réði um staðarvalið, heldur tæknileg og hagfræðileg, sem byggist á því, hvað sérfróðir menn um þessi mál álykta. Það er þetta, sem kom, að ég ætla, alveg skýrt fram áðan í minni framsöguræðu. Það eru kosnar n., og þeir, sem fara í nefndirnar, eru ekki ávallt sérfróðir. En þeir kalla til sérfræðinga. Þó að ég hafi ekki talið heppilegast að fela Hafnamálastofnuninni þetta út af fyrir sig, vil ég, að það verði haft gott samband við Hafnamálastofnunina og fengin sú aðstoð þaðan, sem mögulegt er í þessu máli.

Það er vitanlega nauðsynlegt að afla fjár fyrir þeim kostnaði, sem rannsóknin hefur í för með sér. Það liggur i hlutarins eðli. Um leið og Alþ. samþ. þessa till. og nefndarskipunina, felst í því viðurkenning Alþingis um, að fé fáist, til þess að n. geti starfað eins og ætlast er til.

Í sjálfu sér er ekki ástæða til að orðlengja þetta meira. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir það, að hann hefur skilning á því, að þörf sé á að láta þessa rannsókn fara fram. Það er ekkert við því að segja, að mér virðist, að hann hafi misskilið það, sem fyrir okkur flm. vakir. Fyrir okkur vakir það að fá sérfróða menn til að kanna þetta. Fyrir okkur vakir það, að úrskurði hinna sérfróðu og færustu manna verði hlítt og þegar ráðist verður í dýrt hafnarmannvirki á suðurströndinni, verði það gert á þeim stað, sem kemur héraðinu að sem mestum notum og er best frá þjóðhagslegu sjónarmiði.