30.10.1973
Sameinað þing: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

1. mál, fjárlög 1974

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gaf þessu fjárlagafrv., sem nú er til 1. umr., þá einkunn í Tímanum með fjórdálkafyrirsögn, að það táknaði hvorki meira né minna en þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu á Íslandi. Ráðh. vék einnig að þessu í ræðu sinni, sem var allítarleg og nálgaðist að standa yfir í eina klst. fyrir hverja 10 milljarða frv., en lagði þó, að mér fannst, minni áherslu á þessi þáttaskil í byggðamálum hér á hv. Alþ. en í Tímanum.

Ýmsir hv. þm. hafa komið hér inn á það, hversu fjárl. hafa bólgnað út í tíð núv. ríkisstj. Ýmsir þeirra, þ. á m. hv. þm. Bjarni Guðnason, 3. landsk. þm. hafa vikið að þessu á þann veg, að það var ómögulegt að skilja annað en einn veigamesti þátturinn í þessari miklu þenslu fjárl. stafaði af því, að ríkisstj. eyddi svo miklu í sína byggðastefnu. Það er nefnilega þetta, sem ég held að sé hættulegt við það, þegar hæstv. ráðh. gefur slíkar yfirlýsingar eins og hann gefur í Tímanum, að nú fari fólk í landinu að hugsa sem svo, að það eigi að eyða og spenna, þess vegna stafi öll þessi hækkun fjárl., að það eigi að eyða og spenna verðmætum út um landsbyggðina. Ég fór þess vegna að hugleiða þessi mál allrækilega og gerði nokkra athugun á fjárl. ársins 1971 og því fjárlagafrv., sem við erum hér að ræða um.

Nú er það svo, að það kann að vera álitamál, hvað á að athuga í fjárl. hverju sinni til þess að finna út, hvort byggðastefna viðkomandi ríkisstj. sé hagstæð eða óhagstæð. Þó hygg ég, að menn séu sammála um það, að meginmáli skipti, hvernig sé staðið að fjárveitingum til verklegra framkvæmda á landsbyggðinni. Maður skyldi ætla eftir orðum ráðh. og ýmissa hv. þm., að bylting hefði orðið í þessum efnum, ekki síst, þegar haft er í huga, að fjárl. hafa nær þrefaldast að krónutölu í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Ef að er gáð, kemur það þó út úr dæminu, að fjárveitingar til skólabygginga, sjúkrahúsa og hafna — að undanskildum stórhöfnunum í Grindavík og Þorlákshöfn, sem ég kem að síðar — hafa hækkað í heild um 671.6 millj. kr., eða 101% frá fjárl. 1971. Á sama tíma hafa fjárl. í heild hækkað um rúmlega 130%, ef frá er dregin áætluð útgjaldaupphæð framkvæmdaáætlunar á fjárlagafrv., sem er 690 millj. kr. Nú er það svo, að fleira þyrfti að dragast frá heldur en þetta, t. d. framlög til almannatrygginga, sem ríkissjóður hefur tekið á sig, og ýmislegt fleira, en þó hygg ég, að allir hv. þm. hljóti að sjá, að fjárl. hafi hækkað allverulega miklu meira á sambærilegum grundvelli en 100% á þessum tíma. Það er einnig svo, að byggingarvísitala mun hafa hækkað á þessu tímabili um miklu meira en 100%. Erfitt er að segja um, hversu miklu meira hún hækkar, vegna þeirra breytinga, sem koma munu í kjölfar kjarasamninga í haust. En það er alveg ljóst, að byggingarvísitalan hefur hækkað á þessu tímabili, þegar til framkvæmda kemur eftir fjárl. 1974, um allverulega meira hundraðshlutfall en 100%. Þó er hér ekki öll sagan sögð. Hafa verður í huga, að raunverulegar þjóðartekjur okkar hafa vaxið allverulega á þessum árum vegna einstaklega hagstæðra skilyrða á erlendum mörkuðum. Afurðir okkar hafa selst þar fyrir mjög hátt verð, eins og menn vita, og afli hefur verið góður, t. d. á loðnuveiðum. Auðvitað ætti verulegur hluti af þeim auknu tekjum að koma fram í auknum verklegum framkvæmdum hvarvetna á landsbyggðinni. En sú er þó ekki raunin á, því að framlögin munu ekki hækka meira en sem nemur hækkun byggingarvísitölu einnar á milli framkvæmdaáranna 1971 og 1974. Enn er þess að gæta, að byggingarvísitala er ófullkominn mælikvarði á verðhækkanir við byggingu skóla, sjúkrahúsa og hafna, svo sem fram kom í máli síðasta hv. ræðumanns. Raunveruleg hækkun framkvæmdakostnaðar er áreiðanlega meiri en byggingarvísitalan segir til um. Til þess að gera betur grein fyrir því, hversu kostnaðarhækkanirnar eru gífurlegar, les ég — með leyfi hæstv. forseta — stuttan kafla úr grg., sem við nokkrir þm. fengum í hendur um hækkun byggingarkostnaðar á Austurlandi nú fyrir skömmu. Þar segir m. a. svo, með leyfi forseta:

„Á árinu 1971–1972 var byggt fjölbýlishús í þorpi hér á Austurlandi. Í húsinu eru 16 íbúðir, og kostar húsið fullfrágengið um 33 millj. kr. eða um 2 062 500.00 kr. hver íbúð. Kostnaðaráætlun liggur nú fyrir um byggingu nákvæmlega sams konar húss, og er hún 1. sept. s. l. 48 millj. 136 þús. kr. eða kr. 3 008 500.00 hver íbúð. Rúmmetrakostnaður fyrra hússins var 7020 kr. á hvern rúmmetra, en kostnaðaráætlun nú er 10241 kr. á hvern rúmmetra. Þetta er hækkun um 46% á 1½ ári.“

Þegar slík óðaverðbólga ríkir í landinu sem þetta dæmi sýnir og almenningur finnur brenna á baki sér í daglegu lífi, þá mega fjárlagaliðir hækka mikið frá ári til árs, ef þeir eiga að halda raungildi sínu, enda hefur þetta ekki tekizt í tíð núv. ríkisstj. Þetta er umhugsunarverð staðreynd, og þótt verja eigi rúmlega helmingi hærri upphæð til byggingar skóla, sjúkrahúsa og hafna á fjárl. 1974 samkv. frv. en árið 1971, þá má búast við minni framkvæmdum nú en áður vegna kostnaðarhækkana þrátt fyrir allt góðærið og þau höpp, sem hafa fallið okkur í skaut á þessum árum, og þrátt fyrir hækkun fjárl. um rúmlega 130%.

Þegar einstakir framkvæmdaliðir eru athugaðir, kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Langminnsta hækkunin á fjárlagafrv. 1974 frá fjárl. 1971 er ráðgerð til skólabygginga. Hækkunin nemur 292 millj. kr., eða rúmlega 74%, á sama tíma sem byggingarkostnaður hækkar sýnilega um meira en 100%, eins og áður segir. Eins og menn rekur minni til, var hafið mikið átak í skólabyggingum strjálbýlisins í tíð fyrrv. ríkisstj. í kjölfar nýrra skólakostnaðarlaga. Þau lög léttu mjög undir fyrir strjálbýlishreppum, sem vinna saman að lausn skólamála. Fjarri fer þó því, að alls staðar sé búið að leysa þessi mál til frambúðar. Hér virðist samt sem áður eiga að skera niður, stefna að beinum samdrætti, því að um 100 millj. skortir á, að unnt sé að gera sér vonir um að halda sama framkvæmdamagni í skólabyggingum á landsbyggðinni árið 1974 eins og gert var 1971. Eru þetta ekki einhvern veginn öðruvísi þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu heldur en hæstv. ráðh. vildi láta fjárlagafrv. sitt vera?

Fjárveiting til sjúkrahúsa, læknishústaða, þar með talið til ríkisspítala, er ráðgerð í frv. 179 millj. hærri en á fjárl. 1971, eða hækkun um 105%. Menn skyldu því ætla, að hér væri nokkurn veginn tryggt svipað framkvæmdamagn og 1971, þótt ljóst sé, að hlutfallslega minni fúlgu af raunverulegum þjóðartekjum er ætlað að renna til framkvæmda í heilbrigðismálum samkv. frv. en gert var 1971. En þegar betur er að gáð, er þó maðkur í þeirri mysu. Ný lög um aukna þátttöku ríkissjóðs í byggingarkostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva voru afgreidd á síðasta þingi, eins og hv. þm. muna. Árið 1971 kom því hlutfallslega meira fjármagn frá sveitarfélögum til sjúkrahúsbygginga en á árinu 1974, enda voru tekjustofnar sveitarfélaga þá aðrir. Ofan í kaupið hefur legið í loftinu í 2–3 ár, að þessi lagabreyting yrði gerð. Á þessum tíma hafa ýmsir aðilar því beinlínis beðið með framkvæmdir þangað til lögin tækju gildi. Allir, sem til þekkja í heilbrigðismálum landsbyggðarinnar, vita, hvílík gífurleg verkefni eru þar framundan vegna gerbreyttra aðstæðna í læknamálum. Þegar allt þetta er skoðað, held ég, að enginn geti sagt með sanni, að 105% hækkun á fjárlagafrv. til sjúkrahúsa, læknisbústaða og ríkisspítala frá fjárl. 1971 tákni þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu, a. m. k. ekki jákvæð þáttaskil.

Fjárveitingar til nýrra hafnarmannvirkja, annarra en Þorlákshafnar og Grindavíkur, eru ráðgerðar 200 millj. kr. hærri í frv. en í fjárl. 1971. Þetta er um 200% hækkun. Hér má segja, að sé vel að verki staðið, og ber að fagna því. Þörfin er vissulega brýn. En áður en kveðinn er upp dómur um, hvort hér sé um þáttaskil að ræða í framkvæmd byggðastefnu, er þó rétt að athuga málið nánar. Helmingur af fjárhæðinni, 100 millj. kr., fara til að borga hækkun á framkvæmdakostnaði. Þá eru 100 millj. kr. eftir. Hluti af því fjármagni fer til að greiða framkvæmdir, sem sveitarfélögin hefðu átt að standa undir samkv. eldri lögum. Þegar jafnframt er haft í huga, að hafnarframkvæmdir voru skornar niður um tæpar 29 millj. á árinu 1972 og um ótiltekna upphæð á árinu 1973, er mikil spurning, hvort hægt sé að tala um jákvæð þáttaskil á framkvæmd byggðastefnu í fjárlagafrv. á sviði hafnamála. Ein þáttaskil eru þó greinileg. Nú á að verja meira fjármagni til hafnargerða á tveim stöðum í landinu en sem nemur fimmfaldri upphæð, sem varið er til allra hafna á landinu á yfirstandandi ári. Þessar hafnir eru ekki í þeim landshlutum, sem eiga við mestan byggðavanda að etja. Hvað sem annars má segja um þessi áform, held ég, að enginn með óbrjálaða skynsemi geti komist hjá því að sjá, að hafnarframkvæmdir fyrir 1000 millj. kr. í Grindavík og á Þorlákshöfn tákna miklu fremur neikvæð en jákvæð þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu.

Það er því miður svo, að með því fjárlagafrv., sem hér er til 1. umr., er ekki stefnt að því að verja svipuðu hlutfalli þjóðartekna okkar til þess að reisa skóla, sjúkrahús og byggja hafnarmannvirki á landsbyggðinni eins og gert var 1971. Það er því af öðrum sökum, sem þessi fjárlög eru bólgin og hærri en áður. Það er eyðslustefna núv. ríkisstj. og verðbólgustefna, sem því veldur.

Þetta frv. hefur ekki í för með sér jákvæð þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu, þótt miðað sé við fjárlög 1973, þ. e. yfirstandandi árs, því að gert er ráð fyrir, að framlög til skóla, sjúkrahúsa og hafna hækki frá þeim fjárl. aðeins rétt um 21%, en margt hendir til þess að framkvæmdakostnaður hækki ekki minna en 25–30%. Þessi samanburður er því ekki heldur til þess að finna þeim orðum hæstv. ráðh. stað, að þessi fjárlög tákni þáttaskil í byggðastefnu.

Þótt flestum sé ljóst, að það er einmitt á sviði framangreindra framkvæmdaliða, sem vænta hefði mátt staðfestingar á þessum fullyrðingum hæstv. ráðh., þá er alveg ljóst, að áform um fjárveitingar til skóla, sjúkrahúsa og hafna hafa síður en svo þessi þáttaskil í för með sér, eins og ég hef hér rökstutt. E. t. v. ætti að leita á öðrum sviðum.

Rétt er, að fjárveitingar til jöfnunar námsaðstöðu eru nú ráðgerðar 75 millj. kr., en í fjárl. yfirstandandi árs 50 millj. og voru 15 millj. kr. 1971. Hér er stefnt í rétta átt, enda í raun fylgt stefnu, sem mörkuð var af fyrrv. ríkisstj. og meginþorra allra alþm. Fjárveitingar til flugmála hækka um 27.2 millj. kr., sem er 36.2%, og að öllum líkindum eykst framkvæmdamagn örlítið við þessa hækkun, þar sem með ólíkindum yrði, þótt alls ekki sé það útilokað, að kostnaðurinn við slíkar framkvæmdir hækki um svipað hlutfall. En á móti þessu á að halda áfram að innheimta söluskatt af símaþjónustu, sem núv. ríkisstj. tók upp og leggst með miklu meiri þunga á fólk búsett á landsbyggðinni en þéttbýlisfólkið af augljósum ástæðum. Og nú er í fyrsta skipti í Íslandssögunni gert ráð fyrir því að skattleggja bændur til þess að koma upp dagvistunarstofnunum fyrir börn Reykvíkinga.

Byggðasjóður er einn af fáum stofnlánasjóðum, sem ekki fær hækkað ríkisframlag samkv. frv. E. t. v. segir ráðh., að framlag til hans hafi verið hækkað svo myndarlega í fyrra, að þess þurfi ekki í ár. Mætti ég þá minna ráðh. á, að Byggðasjóður var látinn um leið taka á sig stórfelldar sjálfvirkar lánveitingar, sem ekki taka mið af byggðasjónarmiðum. Og má ég e, t. v. minna ráðh. á frv. alþm. úr hans eigin flokki, — ég man ekki, hvort hann var sjálfur þar meðflm., — þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, um stórhækkun á framlögum til Byggðasjóðs, og að einn þeirra hafði a. m. k. Þau ummæli í fyrra, að hækkunin þá væri aðeins áfangi að þeirri leið að hækka verulega framlög til Byggðasjóðs? Má ég einnig minna ráðh. á það, að ungir framsóknamenn lögðu til, að Byggðasjóður fengi til ráðstöfunar 3% af þjóðartekjum úr ríkissjóði, svokallaðir Möðruvallamenn sennilega? Varla þykir þeim, að fjárlagafrv. tákni þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu núna að því er varðar Byggðasjóð. Er nokkur furða, þótt spurt sé, hvar því sé stað að finna í þessu fjárlagafrv., sem ráðh. nefnir, að séu þáttaskil í framkvæmd byggðastefnunnar? Ef menn leita grannt, er e. t. v. hægt að hugsa sér, að ráðh. hafi átt við, að nú óski hann ekki, a. m. k. ekki í fyrstu atrennu, heimildar Alþ. um stórfelldan niðurskurð á verklegum framkvæmdum, eins og hann gerði 1972 og 1973. Ef ráðh. á við þetta, þ. e. hafi hann áttað sig á því, hve sú stefna að skera niður verklegar framkvæmdir, eins og hann hefur gert á undanförnum árum, kemur harkalega niður á landsbyggðinni, þá væri það mjög góðra gjalda vert. Niðurskurðurinn 1973 virðist feimnismál, a. m. k. hafa hvergi birst, svo að ég viti, upplýsingar um hann, en niðurskurðurinn 1974 liggur ljós fyrir. Að honum var staðið á eftirfarandi hátt:

Fjárveitingar til hafna voru skornar niður um 28.6 millj. kr. til sjúkrahúsa og læknisbústaða um 50 millj. kr., til skyldunámsskóla um 53 millj. kr. og til iðnskóla um 2.5 millj. kr. Þetta eru samtals 134.1 millj. kr. Eftir kjördæmum var þetta þannig: Reykjavík 17.5 millj. kr., Vesturland 16 millj., kr., Vestfirðir 21.3 millj. kr. eða allverulega hærri upphæð en í Reykjavík, Norðurl. v. 13.9 millj., Norðurl. e. 21.7 millj. kr., Austurland 20 millj., Suðurland 12 millj. og Reykjanes 11.7 mill,j. Samtals eru þetta 134.1 mill,j. Auk þess voru skornar niður ýmsar sérstakar framkvæmdir í Reykjavík: Við háskóla, þjóðarbókhlöðu, Landsspítala og Fæðingardeild, þannig að samtals nam niðurskurðurinn 58 millj. í Reykjavík, en á landsbyggðinni 116.6 mill,j. kr.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það væru mikil og jákvæð þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu, ef fjmrh. hygðist hverfa frá þessari stefnu um niðurskurð framkvæmda á landsbyggðinni, sem hann sjálfur tók upp árið 1972. Sannleikurinn er sá, að slík niðurskurðarstefna er ekki einungis skaðleg byggðaþróun í landinu, heldur kemur hún að litlu sem engu gagni til þess að draga úr þenslu og verðbólgu. Þrýstingur á framkvæmdir er langmestur á þéttbýlissvæðum hér við Faxaflóa. Það er auðvitað gagnslaust með öllu að ætla að draga úr þeirri spennu með því að skera t. d. niður hafnarframkvæmdir á Þórshöfn á Langanesi, eins og gert var 1972 með þeim afleiðingum, að uppistöðuna í flota Þórshafnarbúa rak upp í fjöru og skemmdist stórkostlega í aftakaveðri, sem þar gerði. Auðvitað hélt þenslan og verðbólgan jafngeyst áfram hér á Reykjavíkursvæðinu eftir sem áður.

Ég held, að allir hv. þm., sem eitthvað þekkja til landsbyggðarinnar, ættu að geta verið sammála um, að auðvitað væru það mikil þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu, ef horfið yrði frá slíkum niðurskurði framkvæmda á landsbyggðinni 1974, en í þess stað hnífnum beitt á aðra fjárlagaliði og spöruð rekstrarútgjöld ríkissjóðs.

Sannleikurinn er sá, að ekki væri vanþörf á að endurskoða frá rótum fjármálastefnu ríkisvaldsins ásamt miklu fleiri þáttum ríkisbúskaparins, ef jákvæð byggðastefna á ekki að vera orðagjálfur eitt. Menn verða að átta sig á, að þjóðlífið er sífelldum breytingum háð. Ég álít, að nú séu miklu meiri blikur á lofti í byggðamálum en voru á s. l. áratug. Á áratugnum 1970–1980 verða 40 þús. Íslendingar tvítugir. Þetta er miklu fleira fólk og fjölmenntaðra en komið hefur fram á vinnumarkað nokkurn áratug fyrr í sögunni. Mestur hluti þessa fólks velur sér ekki einhæf frumframleiðslustörf, heldur störf við iðnað og þjónustu. Hvar eru þá tækifæri fyrir þetta fólk, ef ekkert er að gert að auka fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni? Það er góðra gjalda vert, að keyptir eru togarar til ýmissa sjávarplássa, ef svo er um hnúta búið, að þeir geti borið sig. Það er einnig góðra gjalda vert að endurhyggja hraðfrystiiðnaðinn og vélvæða hann. Um þetta er ekki ágreiningur milli pólitískra flokka í meginatriðum, þótt reynt sé að búa hann til.

Á hinn bóginn mega menn ekki einblína á þetta og þvo hendur sínar í byggðamálum að öðru leyti. Sannleikurinn er sá, að við þetta stóreykst framleiðslugeta fiskveiða og fiskiðnaðar með sama eða minni mannafla og var fyrir. Raunhæf byggðástefna hlýtur því að taka mið af því að auka fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni, efla þar iðnað og þjónustu við hlið sjávarútvegsins og landbúnaðarins.

Það er fleira, sem eykur hættuna á byggðaröskun heldur en atvinnuval fjölmennustu árganga ungs fólks í landinu, sem þekkst hafa. Hvað um Vestmannaeyjagosið? Flestum, sem um það mál hugsa, er áreiðanlega ljóst, að þeir atburðir eiga eftir að draga þungan dilk á eftir sér í byggðaþróun landsins. Ég á þar bæði við þann húsakost, sem varð að reisa á mestu þéttbýlisvæðum landsins, og þær stórfelldu framkvæmdir, sem fram hafa farið og fara munu fram t. d. í Grindavík og Þorlákshöfn vegna gossins.

Hvað má þá segja um raforkumálin? Gera menn sér það ljóst, að þegar hefur orðið milljónatjón af stefnu ríkisstj. í raforkumálum á Norðurlandi og að rafmagn til húshitunar er ófáanlegt þar til nýrra fjölbýlishúsa og að þrátt fyrir nývirkjun í Laxá, sem tekin hefur verið í notkun, þarf að keyra dísilvélar nær daglega, og er þá ekki farið að selja orku til kjördæmis forsrh. frá Laxársvæðinu. Hvað á að gera 3 stóriðjumálum? Hvert er stefnt í þeim? Er áformað að reisa stóriðjufyrirtæki á Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austurlandi, þar sem byggðavandinn er mestur?

Ég held, að það séu engar ýkjur, að það horfi tvímælalaust miklu verr nú um framtíðarþróun byggðar í landinu en gert hefur um langt skeið. Ég hef aðeins drepið hér á suma þætti þess máls, en ég vona, að þeir séu nógu margir til þess, að hv. alþm. sé ljóst, hver sú heildarmynd er, sem blasir við í þeim efnum.

Því miður er það svo, að þótt svo horfi um byggðaþróun í landinu, þá er ekki um að ræða þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu með þeim fjárl., sem hér eru til 1. umr. Það er því algerlega út í loftið, þegar menn halda því fram, að þau hafi margfaldast og stórhækkað, eins og raun ber vitni á undanförnum árum, vegna þess að núv. hæstv. ríkisstj. eyði meira fjármagni — raunverulegu fjármagni - af þjóðartekjum okkar til þess að byggja skóla, sjúkrahús og hafnir úti á landsbyggðinni. Það er algerlega tilhæfulaust.