14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

4. mál, sjóminjasafn

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil af hálfu okkar flm. flytja allshn. þakkir fyrir afgreiðslu hennar á málinu, bæði skjóta og góða, og ég vil einnig fyrir okkar hönd og allra annarra, sem áhuga hafa á þessu máli, þakka þann eindregna stuðning, sem þegar hefur komið fram við málið, í fyrsta lagi frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sem eins og frsm. n. lýsti hefur gert ályktun um fullan stuðning við þetta mál. og frá þjóðminjaverði, sem vissulega á sinn stóra hlut í því, að málið er að þessu sinni komið inn á Alþ.

Ég skal aðeins til viðbótar þessum þökkum mínum skýra frá því, að mér er um það kunnugt, að nú um skeið hefur verið unnið að undirbúningi að stofnun áhugamannafélags um að koma upp sjóminjasafni og vinna að ýmsum þáttum í sambandi við það. Undirbúningsfundur hefur verið haldinn fyrir alllöngu, og ég hygg, að það verði ekki öllu lengri dráttur á því, að félagið verði formlega stofnað, — félag, sem hefur það markmið fyrst og fremst að vinna að því að koma upp sjóminjasafni og styðja hugmyndina á ýmsan hátt. Þess má og geta, að á fjárl. þessa árs hefur fengist lítils háttar aukafjárveiting til sjóminjasafns, til þess að vinna að söfnun sjóminjasafns og sérstaklega að því, sem þjóðminjavörður telur allra brýnast, að hægt verði að bjarga frá glötun nokkrum ágætum gömlum áraskipum og árabátum, sem þjóðminjasafn ýmist á nú þegar eða getur eignast annað tveggja að gjöf eða gegn mjög vægu gjaldi. Þessir bátar og skip eru af ýmsum gerðum og verða varðveitt sem sýnishorn af þeim bátagerðum, sem hér voru mjög mismunandi á áraskipatímanum. Þjóðminjavörður telur eðlilega mjög brýnt, að þessum bátum verði komið þannig fyrir, að þeir eyðileggist ekki. Sú fjárveiting, sem hann hefur nú fengið í þessu skyni, mun tvímælalaust koma í miklar og góðar þarfir og hefði raunar þurft að vera ríflegri, en gæti væntanlega orðið það á næsta ári, þar sem svo ríkur skilningur er nú, að því er virðist, bæði innan þings og utan á þessu merka máli, sem of lengi befur beðið framkvæmda.

Nú vænti ég þess og tel raunar víst, að hv. Alþ. láti uppi viljayfirlýsingu í málinu með samþykkt þeirrar till., sem hv. allshn. hefur einróma mælt með, og þá tel ég, að næsti áfangi í málinu hljóti að vera sá, að skipuð verði af hálfu ríkisstj. eða menntmrn. undirbúningsnefnd til þess að ræða um hina einstöku þætti málsins og undirbúa framkvæmdir. Ég hef rætt þetta mál við hæstv. menntmrh., og mér er kunnugt um, að hann hefur skilning og áhuga á þessu máli. Ég treysti því þess vegna, að nú, þegar Alþ. væntanlega lýsir vilja sínum í þessu máli, eindregnum, þá verði haldið áfram undirbúningi málsins á þann hátt að skipa undirbúningsnefnd til að gera frekari till. um framkvæmdaatriði þessa mikilvæga máls.

Ég endurtek svo þakkir mínar til n. fyrir afgreiðslu á málinu.