14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

4. mál, sjóminjasafn

Halldór S. Magnússon:

Herra forseti. Söfn eru tvímælalaust nauðsynlegur þáttur í menningarlífi einnar þjóðar. Það ætti að teljast sjálfsagður hlutur á Íslandi með tilliti til atvinnuhátta landsmanna, að sjóminjasafn væri eitt af þeim fyrstu söfnum, sem byggð væru hér. Það þarf að tryggja, að menningarverðmæti, sem svo mjög eru tengd lífi og starfi þjóðarinnar sem minjar um sjósókn landsmanna, varðveitist. Staðsetning slíks safns þarf að vera með þeim hætti, að greiður aðgangur sé að safninu sem flestum landsmönnum og auk þess sé það í tengslum við lifandi starf í sjávarútvegi. Þessi skilyrði uppfyllir Hafnarfjörður tvímælalaust öðrum stöðum fremur. Auk þess má minna á, eins og fram hefur komið hjá hv. þm., sem hér hafa talað, að áhugi Hafnfirðinga á því, að sjóminjasafn rísi þar, er mjög mikill og þeir hafa reyndar lengi haft mikinn hug á því, að af því gæti orðið. Ég vil fagna því, að allshn. skuli hafa fljótt og greiðlega afgreitt þetta mál og mælt með samþykkt þeirrar þáltill., sem til umr. er.

Í framhaldi af samþykkt till., sem ég dreg ekki í efa, að verði samþykkt, þarf að sjálfsögðu að vinda bráðan bug að undirbúningi byggingar. En jafnhliða og ekki kannske síður þarf að vinna ötullega að söfnun og varðveislu muna, sem til safnsins mættu heyra. Það hefur vissulega verið svo á undanförnum árum og áratugum, að ýmis verðmæti í munum um sjósókn hafa glatast, og þeir munir verða sífellt fleiri með hverju árinu sem líður, án þess að eitthvað róttækt sé gert í því að safna þeim saman og tryggja, að þeir varðveitist. Að vísu hefur, eins og hv. síðasti ræðumaður minnti á, hv. 4. þm. Reykn., verið veitt á fjárl. lítilsháttar fjárhæð til að tryggja varðveislu slíkra muna. En það þarf vissulega að gera mun meira en þar er gert. Þetta mál hefur bæði á hv. Alþ. og utan þings hjá þeim, sem um málið hafa fjallað, hvort sem er í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eða innan ríkisstj. eða hvar sem málið hefur á góma borið, fengið mjög góðan hljómgrunn. Þess vegna leyfi ég mér að vænta þess, að það verði staðið rösklega að því að útvega fjármagn til þessara tveggja þátta starfsins, sem á eftir koma, í fyrsta lagi að vinna að undirbúningi byggingar safnsins og í öðru lagi að vinna að söfnun muna, svo að koma megi í veg fyrir, að enn fleiri munir en hingað til glatist ævarandi.

Ég vil svo aðeins að lokum endurtaka þakklæti mitt til n. fyrir að hafa afgreitt málið svo rösklega, svo og bera fram þakkir til flm. fyrir að hafa flutt þetta mjög svo merkilega mál á þingi. Og ég leyfi mér að lokum að vona, að að framhaldinu verði staðið eins rösklega og staðið hefur verið að málinu hingað til.