18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hafði samband við mig núna um hádegið og sagðist hafa fengið fregnir af því, að hv. 12, þm. Reykv. mundi gera fsp. utan dagskrár til sín, en hann væri með fjarvistarleyfi frá þingstörfum í dag vegna komu norska utanrrh. Ég tók því að mér það vandasama verk að flytja hæstv. utanrrh. frásögn af spurningu hv. 12. þm. Reykv., en verð að viðurkenna það, eftir að hafa hlustað á ræðuna, að þar hef ég tekið að mér of mikið verk, því að ræðan var svo yfirgripsmikil, að endursögn af minni hálfu af þeirri ræðu þarf að vera nokkuð mikil, ef hún á að vera nákvæm, enda var komið við hjá þremur hæstv. ráðh. í ræðu hv. 12. þm. Reykv. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. forsrh. komi heim í dag og verði hér á hv. Alþ. á morgun og þá muni hann svara fyrir sig, að því leyti, sem hann telur ástæðu til.

Ég ætla ekki að fara út í efnisatriði ræðunnar, enda verð ég að játa, að til þess skortir mig undirbúning að fara í öll þau atriði, sem þar var á gripið. Hins vegar skal ég koma því til utanrrh., um hvað hv. 12. þm. Reykv. spurði, svo að hann geti verið undir það búinn að svara því. Verður það að gerast með því að fá honum afrit af ræðunni, svo að þetta verði allt ljóst, og ég mun óska eftir því, að hann fái það, svo að hv. 12. þm. Reykv. geti fengið svar við spurningum sínum.

Hvort hæstv. utanrrh. telur sig þurfa að svara því, af hvaða ástæðu hann er bundinn annars staðar, frekar en hann gerði með því að boða, að hann væri bundinn vegna komu norska utanrrh, hingað skal ég ekki segja, en það mun hann skýra síðar.