18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það var býsna sérkennileg ræða, sem hér var flutt af hv. 12, þm. Reykv., ekki venjulegar fsp., heldur býsna einkennileg ræða um ræðu, sem hún hafði ekki heyrt af nema á skotspónum, ekki getað útvegað sér og vissi í rauninni ekki, hvað stæði í. (RH: það var í Ríkisútvarpinu, hæstv. ráðh.) Ræðan var ekki í Ríkisútvarpinu, og þm. sagði ég einmitt — (Gripið fram í: Átti ráðh. afrit af henni heima?) Ég skal segja þessum hv. þm., að ég var búinn að lesa þessa ræðu og ég veit vel, hvað stóð í ræðunni. (Gripið fram í: Hvað stóð í henni?) Ég vil taka það skýrt fram, ég er sammála hverju orði, sem var flutt í þessari ræðu, og tel, að þar hafi ekkert verið ofsagt.

Það eru einkum tvö atriði, sem hafa vakið nokkurt umtal, af því, sem fram kom í þessari ræðu. Hið fyrra var það, að Íslendingum fyndist, að í — mjög þýðingarmiklu máli, landhelgismálinu, hefðu þeir ekki notið þess stuðnings frá samstarfsþjóðunum á Norðurlöndum, sem þeir hefðu ætlast til. Ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti, að þetta er almenn skoðun Íslendinga, jafnvel þó að til séu nokkrir forhertir sjálfstæðismenn, sem belja, að undirtektir Norðmanna, Dana og Svía hafi verið alveg nógar við málstað Íslendinga í landhelgismálinu. Það var skýrt tekið fram varðandi þetta atriði í ræðu Magnúsar Kjartanssonar, að þrátt fyrir þá afstöðu, sem opinberlega kom fram frá ríkisstj. þessara landa í landhelgismálinu og olli okkur Íslendingum — mörgum eða flestum — vonbrigðum, þar sem þessar ríkisstjórnir treystu sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við stefnu Íslands í landhelgismálinu, þá var þó skýrt tekið fram, að ein af Norðurlandaþjóðunum, hin finnska hefði hins vegar tekið dyggilega undir okkar afstöðu. Það kom einnig fram, að þrátt fyrir þessa afstöðu hefðu margir einstaklingar í þessum löndum og mörg félagasamtök tekið mjög dyggilega undir afstöðu íslendinga. Þetta getur hv. 12. þm. Reykv., sem ekki hefur séð ræðuna og ekki veit, hvernig hún er, og á eftir að sjá hana, þegar hún verður birt hér, talað um, að hæstv. iðnrh. Magnús Kjartansson hafi ráðist á ódrengilegan hátt á Norðurlandaþjóðirnar fyrir að segja þetta. En slíkt er vitanlega út í hött og sagt aðeins af þeim, sem ekki veit, hvað hann er að tala um.

Hitt atriðið, sem vakti allmikla athygli og umtal í ræðu Magnúsar Kjartanssonar, var um það, að varla yrði til að bæta samstarf Norðurlandaþjóða, þegar í viðkvæmu innanríkismáli væri staðið þannig að, að ríkisstj. t.d. Noregs hefði sent íslensku ríkisstj. skrifleg tilmæli, þar sem gerð var sérstaklega grein fyrir afstöðu ríkisstj., sem þá var í Noregi, - það er ekki Brattelistjórnin, sem nú situr þar við völd, — þar sem afstaða Noregs var mjög á annan veg en yfirlýst stefna íslensku ríkisstj. Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum, sem fylgst hefur með málum hér á Íslandi, að þessi skriflega orðsending norsku ríkisstj. frá því í sept. var notuð mjög af þeim, sem hörðust fyrir áframhaldandi hersetu hér á landi, og þeir hafa hvað eftir annað í blöðum vitnað til hennar og bent á, að norska ríkisstj. væri annarrar skoðunar en hin íslenska varðandi þetta mál. Það á eflaust eftir að koma að því, að þessi orðsending verði birt, þó að hún hafi ekki verið birt enn, svo að það komi skýrt í ljós, hvað var verið að gera með þessari orðsendingu.

Það er sem sagt skoðun mín og Magnúsar Kjartanssonar og ábyggilega mjög margra annarra Íslendinga, að þessi orðsendingaskipti hafi ekki verið eðlileg, eins og þau komu fram á sínum tíma.

Það er svo mál út af fyrir sig, að núv. ríkisstj. í Noregi vill í rauninni afneita þessu og segist ekki vilja skipta sér af þessum málum á einn eða neinn hátt. Það getur hver og einn metið þetta eins og hann vill. Það er auðvitað hægt að meta þetta þannig að segja. Þó að þeir hafi skýrt afstöðu sína og telji, að halda eigi herstöðinni í Keflavík þrátt fyrir gagnstætt álít margra Íslendinga þar um, séu þeir ekki að hlanda sér í okkar innanlandsmál. Aðrir álíta hið gagnstæða.

Það voru þessi tvö atriði, sem ég hef nefnt, sem gerð hafa verið að umtalsefni úr ræðu Magnúsar Kjartanssonar. Er vitanlega algerlega tilhæfulaust að segja, að hann hafi ráðist á nokkurn hátt ámaklega á ríkisstjórnir Norðurlanda. Hér hefur verið bent á mjög mikilvæg atriði frá okkar hálfu, sem við eigum að benda á, þegar er verið að ræða í almennum umræðum um samskipti Norðurlandaþjóða. Það er með öllu þýðingarlaust að halda uppi samstarfi á milli Norðurlandaþjóða eingöngu í því formi, að ekkert sé nema þakklætisræður og einhverjar sérstakar yfirborðskurteisisræður. Það á vitanlega að ræða þau mál, sem varða á varanlegan hátt samstarf Norðurlandaþjóða. Og það verður vitanlega ekki aftur tekið, að því miður var afstaða ríkisstjórnanna í Svíþjóð, Danmörku og Noregi þannig í sambandi við okkar landhelgismál og deilur okkar við ýmsar þjóðir út af landhelgismálinu, að þessar ríkisstj, treystu sér ekki til að taka undir afstöðu okkar í landhelgismálinu.

Þetta gekk svo langt, því miður, eins og hefur verið minnst á áður á Alþingi, að þegar norska ríkisstj. sóttist eftir því að fá sérstaka undanþágu fyrir veiðiskip sín innan 50 mílna fiskveiðilandhelginnar við Ísland, neitaði hún formlega, um leið og hún sótti um að fá þessa undanþágu, að fallast á nokkra viðurkenningu á okkar 50 mílna landhelgi. Þegar þá var stungið upp á því af okkar hálfu, að ekki yrði minnst í þessu samkomulagi einu einasta orði á viðurkenningu eða ekki viðurkenningu, var því einnig neitað af hálfu norsku ríkisstj. og þess krafist, að ef samkomulag ætti að verða, yrði tekið skýrt fram, hver væri almenn afstaða þeirra til útfærslu landhelgi, þannig að þeir gætu örugglega túlkað það, hvar sem væri, að þeir hefðu ekki á nokkurn hátt viðurkennt landhelgina hér við land. Auðvitað særði þetta marga Íslendinga, þó að það hafi ekki sært hv. 12. þm. Reykv. og marga íhaldsmenn. Þeim þótti allt of langt gengið af okkur Íslendingum í landhelgismálinu, og þeir voru ánægðir með þetta allt saman.

Mér er líka vel kunnugt um, að það hefur komið fram bæði í þessari ræðu Magnúsar Kjartanssonar og fleirum full viðurkenning af hans hálfu og okkar Íslendinga yfirleitt á því, hvað það er þýðingarmikið, að við Íslendingar eigum gott samstarf við Norðurlandaþjóðirnar, og við metum það, sem þær hafa vel við okkur gert á ýmsum tímum. En það á ekki að þýða, að við þorum ekki að minnast á það, sem við teljum að sé ekki af réttum toga.

Ég skal ekki eyða löngu máli í að ræða um ræðu hv. 12, þm. Reykv. að öðru leyti. Hún var á margan hátt furðuleg. Eitt af því, sem sannaði, eftir því sem hv. 12. þm. Reykv. sagði, slóðaskap utanrrh., var það, að hann hefði hér ekki handhært afrit af ræðum manna á fundum Norðurlandaráðs, rétt eins og hv. þm. byggist við því, að það lægju hér í utanrrn. afrit af öllum þeim ræðum, sem Íslendingar flytja á þessum ráðsfundum. En sem sagt, þetta gat þó orðið a.m.k. tilefni til að bera slóðaskap á utanrrh., að þetta hafði ekki fundist. Eins er um það, þegar þessi hv. þm, var búinn að greina frá því, að Einar Ágústsson hefði skýrt frá því í íslenskum fréttamiðlum, að það stæði ekki til að ræða um herverndarmálið við norska utanrrh., sem hér er nú staddur, en hins vegar hefði norska fréttastofan NTB sagt, að þessi mál mundu verða rædd, þá sagði þm.: Þetta varpar skýru ljósi á ástandið í íslensku ríkisstj. — Ja, þvílíkt! Vegna þess að einhver fréttastofa úti í heimi fer með einhverja vitleysu, þvert ofan í það, sem upplýsingar liggja fyrir um hér heima, sannar það, hvers konar ástand er ríkjandi í íslensku ríkisstj. En ætli það varpi ekki öllu heldur ljósi á það, í hvers konar hugarástandi þm. Sjálfstfl. eru. Þeir finna sér allt til í þessum efnum, þjóta upp út af ræðum, sem þeir hafa ekki lesið, en heyrt aðeins hrap úr, ásaka menn fyrir, að það skuli ekki liggja hér fyrir handbært afrit af þessum ræðum, og fullyrða svo, að íslenskur ráðherra erlendis hafi verið að ráðast á erlendar þjóðir og borið þeim á brýn m.a. svik við okkur í varnarmálum eða landhelgismálum. Ekkert slíkt orðalag var haft í frammi. — Það var svo eitt hneykslið, að utanrrh. skyldi ekki yfirgefa norska utanrrh., hlaupa úr fylgd hans hér til þess að svara ræðu af þessari tegund.