18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er í rauninni alveg óþarfi að halda þessum umr. miklu lengur áfram. En það voru nokkur atriði, sem mig langaði þó til þess að víkja að.

Hv. 12. þm. Reykv., sem var að enda við að tala, sagði, að mér hefði þótt það hið mesta hneyksli, að ríkisstj. Noregs skyldi hafa aðra skoðun á t.d. varnarmálunum hér en íslenska ríkisstj. hefði. Auðvitað hefur mér aldrei dottið í hug að segja þetta. Ég hef satt að segja ekkert við það að athuga, þó að aðrar ríkisstj. hafi sínar skoðanir á ýmsum málum. Það var hitt sem ég taldi aðfinnsluvert, þegar norsk ríkisstj. sér ástæðu til þess að fara að senda skriflega orðsendingu til íslensku ríkisstj. og leggja þar mikla áherslu á og mæla með allt annarri stefnu í tilteknu innanríkismáli Íslendinga heldur en íslenska ríkisstj. hefur lýst yfir sem sinni stefnu. Það er þetta atriði, sem sker úr um það, að ég tel fyrir mitt leyti, að þetta eigi ekki við og það sé rétt, sem kom fram í ræðu Magnúsar Kjartanssonar, að slíkt sem þetta auki ekki á gott samstarf þjóða í milli. Mér hefur hvorki dottið í hug að ráðast á norsku ríkisstj, né aðra fyrir það, þó að þær hefðu allt aðra skoðun á þessu en við ýmsir höfum hér á landi.

Hv. 12. þm. Reykv. spurði enn einu sinni um það, hvort ríkisstj. hefði séð ræðu Magnúsar Kjartanssonar, áður en hún hafi verið flutt, eða hvort hér hafi verið um leyniplagg að ræða. Ég get svarað því alveg strax. Ríkisstj. sá ekki þessa ræðu, hún var ekki flutt í nafni ríkisstj. Það var Magnús Kjartansson, sem flutti þessa ræðu. Og það er alveg nýtt, sem kemur fram í þessum umr., að þannig er talað hér af fulltrúum Sjálfstfl., að þeir virðast álita, að sá háttur hafi verið hafður á, að ef íslenskur ráðh. eða fulltrúi í Norðurlandaráði haldi þar ræðu, þá sé búið að ritskoða hana af ríkisstj. Má ég spyrja: Var sá háttur hafður á í tíð fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstj., að þeir Alþfl.menn, sem mættu á þingi Norðurlandaráðs, fengju ekki að halda þar ræðu, nema Sjálfstfl. væri búinn að ritskoða hana fyrst? Var þessi háttur hafður á? Og er það þetta, sem hv. 12. þm. Reykv. er að óska eftir, að fulltrúar Íslands, t.d. á fundum Norðurlandaráðs, megi ekki tala, nema sé búið að samþykkja, hvað þeir megi segja? (Gripið fram í.) Hvað? (Gripið fram í.) Mikið ósköp líður sjálfstæðismönnum illa. Eru þeir nú alveg að bresta? En þeir verða að taka því, þegar þeir efna til svona umr., að við þá sé talað. Ég hef sparað það nokkuð að ræða við þessa hv. þm. að undanförnu, ég hef satt að segja ekki haft neinn tíma til þess að elta ólar við það, sem þeir hafa sagt. Stundum hef ég tíma til að tala við þá, og þá eiga þeir heldur ekki að vera að kvarta.

Það var býsna athyglisvert, að það kom hér fram hjá einum fulltrúa Sjálfstfl., sem hér talaði, Ellert B. Schram, að hann sagði, sem auðvitað er rétt, — hann sagði: Allir Íslendingar hörmuðu þessa afstöðu Norðurlandaþjóðanna til landhelgismálsins okkar. — Og hann bætti reyndar við í tilefni af því, sem ég hef sagt hér: Jafnvel forhertir sjálfstæðismenn hörmuðu þetta líka.

Var það þá einhver dauðasynd af Magnúsi Kjartanssyni að taka það fram í almennum umr. á Norðurlandaráðsfundi, að við Íslendingar hörmuðum þessa afstöðu, að þeir skyldu ekki sjá sér fært að styðja okkur í þessu máli? Vitanlega gátu þeir haft sína afstöðu. En við höfum líka leyfi til að láta þá vita um það, hvert okkar viðhorf var til þessa. Við þurfum ekki að fara í neinar felur með það. Satt að segja man ég ekki betur en að forsrh. okkar hafi vikið að þessu á mjög athyglisverðan hátt á næsta fundi Norðurlandaráðs á undan, þar sem hann sagðist ekki vilja draga neina dul á það; að Íslendingar hörmuðu afstöðu Norðurlandanna til þessa þýðingarmikla máls okkar.

Það er nú eins og allajafna áður, að það er í rauninni ekki mikil þörf á að svara því, sem hér kemur fram í umr. frá hv. 10. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni. Orðbragðið er af þeirri tegund, að það hefði einhverjum þótt nóg um, og m.a. hefði það einhvern tíma verið tilefni til þess að segja, að það væri talað allóvirðulega um jafnvel forsrh. sumra Norðurlanda, sumt af því, sem fauk úr munni þessa hv. þm., m.a. um forsrh. Svía. Það skiptir vitanlega engu máli í þessum efnum, þegar vikið er að ummælum íslenskra aðila á fundi Norðurlandaráðs varðandi afstöðu ríkisstj. á Norðurlöndum til okkar landhelgismáls, hver var afstaða Rússa. Þetta er bara að blása eitthvað út í bláinn. Það er rétt, afstaða þessara ríkisstj. á Norðurlöndum var afskaplega svipuð og afstaða Rússa. Hvorir tveggja viðurkenndu okkar landhelgismörk í reynd, brutu ekki okkar 50 mílna reglu. En frá þeim var ekki að fá nokkra minnstu viðurkenningu. — Eða þá að ætla að réttlæta allt það, sem gerst hefur í þessum málum með því, að sjálfstæðismenn hafi flutt till. um 200 mílur. Engar 200 mílur, ekki einu sinni tvisvar sinnum 200 mílur, geta réttlætt ýmislegt af því, sem sjálfstæðismenn sögðu og gerðu, á meðan áreynslan var mest í landhelgismálinu, hversu oft sem hv. 10. þm. Reykv. reynir að segja eitthvað slíkt.

Hv. 12. þm. Reykv. sagðist ekki hafa byggt fréttir sínar hér á neinum hlaupafréttum um það, hvað gerst hefði á fundi Norðurlandaráðs. En þessi hv. þm. sagði hér miklu meira en það, sem kom fram um málið í ríkisútvarpinu. Þessi hv. þm. sagði í sinni ræðu, að iðnrh. hefði ráðist að ríkisstjórnum annarra Norðurlanda, og sagði enn fremur, að hann hefði borið svik á ríkisstjórnir þeirra í sambandi við okkar landhelgismál. Ekkert af þessu stóð í fréttinni í Ríkisútvarpinu. Hér var aðeins um fullyrðingar þessa hv. þm. að ræða um ræðu, sem þm. hafði ekki séð og ekki lesið, og auk þess var hér rokið upp utan dagskrár til þess að vega að fjarstöddum þm. Myndarskapurinn var nú ekki meiri en þetta. Auðvitað mun gefast tími til að ræða þetta mál miklu nánar síðar, þegar m.a. þessi ræða liggur fyrir. En það er ekki ástæða til þess, úr því sem komið er, að hafa um þetta fleiri orð hér utan dagskrár.