30.10.1973
Sameinað þing: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1974

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður í þessum dagskrárlið, og það er að vísu ekki ýkjamargt, sem þyrfti að gera að umtalsefni hér í umr. hv. stjórnarandstæðinga og þá annars stjórnarandstöðuflokksins, sem hér hefur talað í dag. En það eru nokkur atriði, sem væri ástæða til þess að fjalla um.

Ég held nú, að þessir hv. stjórnarandstæðingar og a. m. k. hv. 2. þm. Norðurl. e., held ég sé, og hv. 5. þm. Norðurl. e., þ. e. a. s. þm. Sjálfstfl., hafi gleymt bókstaflega að lesa Morgunblaðið, sitt eigið málgagn, síðari hluta sumars og í haust. Maður opnaði varla svo Morgunhlaðið á þessum tíma. að ekki væru viðtöl við forsvarsmenn sveitarfélaga eða forsvarsmenn atvinnufyrirtækja víðs vegar í kringum landið og þeir spurðir álits um þá uppbyggingu, sem átt hefur sér stað að undanförnu. Ég veit ekki um eitt einasta tilfelli, — ég les Morgunblaðið. — og ég veit ekki um eitt einasta tilfelli, þar sem þessir einstaklingar, sem talað var við á þess um tíma og ég hygg, að hafi verið úr öllum stjórnmálaflokkum, hafi ekki einróma litið svo á, að aldrei hafi verið slík uppbygging í gangi á öllum sviðum á landsbyggðinni, eins og verið hefur í tíð núv. ríkisstj.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði mikið hér um byggðamál og taldi, að því er mér skilst. að hálfgert svartnætti væri þar fyrir augum í náinni framtíð. Ég held, að þessi hv. þm. hafi ekki heldur kynnt sér það, hvað hefur gerst í hans eigin kjördæmi í tíð núv. ríkisstj. að því er varðar fjármagnsveitingar á fjárl., frá því, sem áður var í tíð viðreisnar. Hann gerði hér að umtalsefni málaflokka eins og hafnamál, skóla- og heilbrigðismál, gleymdi flugmálunum að vísu, sem kannske hvað mesta stökkið hefur verið gert í frá viðreisn. En ég ætla að lofa honum að heyra, til þess að hann glöggvi sig á því, hvort um raunverulegar staðreyndir er að ræða í hans máli.

Á síðustu fjárl. viðreisnar voru veittar til Norðurl. e., þ. e. a. s. kjördæmis þessa hv. þm., í hafnamálum og lendingarbótum 23 millj.. eru 3 fjárl. yfirstandandi árs 44 millj. (LárJ: Hvað segirðu 23, hvenær var það veitt?) Á síðustu fjárl. viðreisnar. Á fjárl. til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknamiðstöðva fóru í kjördæmi þessa hv. þm. á síðustu fjárl. viðreisnarstjórnarinnar 14 millj., þær voru tæpar 19 á þessa árs fjárl. Til byggingar barna- og gagnfræðaskóla og skólastjórabústaða fóru í kjördæmi þessa hv. þm. á síðustu fjárl. viðreisnarstjórnarinnar 58 millj., en á fjárl. þessa árs 92 tæpar. Og síðast, en ekki síst er rétt að geta þess hér í sambandi við byggðamálin, að úr atvinnujöfnunarsjóði, sem var starfandi í tíð fyrrv. ríkisstj. og veitt voru lán úr til uppbyggingar atvinnulífsins, voru í heild lánveitingar á árinu 1971 223 millj., en á árinu 1972, en þá var hann nefndur Byggðasjóður, 480 millj. röskar. Þær voru 172 millj. árið 1970, á næstsíðasta ári viðreisnar.

Ég held, að menn úti á landsbyggðinni, sama hvar í flokki þeir standa, séu sammála um, að það hafi verið brotið blað í stefnu frá því, sem var í tíð fyrrv. ríkisstj., til þess, sem er í tíð núv. ríkisstj., að því er byggðamálin almennt áhrærir. Hvorki hv. 2. þm. Norðurl. e. né 5. þm.. Norðurl. e. tekst að telja mönnum trú um hér á hv. Alþ., að það sé neitt svartnætti ríkjandi í þeim efnum nú. Þeir fá ekki einu sinni sína eigin flokkshræður víðs vegar í kringum landið til þess að fallast á þá skoðun, sbr. tilvitnanir í þeirra eigin málgagni á undanförnum mánuðum.

Málaflokkur eins og hafnamálin var á síðustu fjárl. fyrrv. ríkisstj. rétt um tæpar 100 millj. í heild. Hann er í fjárlagafrv. því, sem nú er hér til umr., röskar 300 millj. og á, að því er ég vona a. m. k.. eftir að hækka allverulega frá því.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að það væru neikvæð fremur en jákvæð þáttaskil í framkvæmd byggðastefnu þær hafnaframkvæmdir, sem fyrirhugaðar væru nú hér á Suðurlandinu. Þarna er ég algerlega ósammála þessum hv. þm. Ég tel, að fyrrv. stjórnvöld, kannske allra tíma, hafi gersamlega vanrækt þennan mikilsverða málaflokk, hafnarframkvæmdir víðs vegar í kringum landið. Þar er um undirstöðuatvinnuvegina að ræða, og stjórnvöldum ber skylda til að sjá svo um, að þessi málaflokkur sé ekki vanræktur. Ákvörðun um þessa uppbyggingu hafna hér á Suðurlandi tel ég, að verði þm. dreifbýlisins, sem ekki hafa hingað til sýnt nógu mikla orku í því að krefjast úrlausnar í þessum málaflokki, tilefni til þess að hamra járnið, meðan heitt er, og krefjast aukinna fjárveitinga til þessa mikilsverða málaflokks víðs vegar í kringum landið. En það skal vissulega undirstrikað hér, að á þessu hefur orðið gerbreyting í tíð núv. ríkisstj.

En á sama tíma og þessir hv. stjórnarandstæðingar telja, að fjárlög þau, sem hér eru til umr., sýni hvað gleggst þá útþenslu, sem hæstv. ríkisstj. stendur nú fyrir í fjármálum og efnahagslífi þjóðarinnar, koma þeir með mýmörg dæmi þess og tölur um, að í allflestum málaflokkum þyrfti að hækka verulega framlög frá því, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Ég sé, að hv. fyrrv. formaður fjvn. brosir, þegar vitnað er til þessa. En hvað um það, ég ætla ekki að ræða það frekar hér. Ég tel og ég fullyrði, að í tíð núv. ríkisstj. hefur í miklu ríkari mæli en gerðist í valdatíð viðreisnarstjórnarinnar farið fjármagn út á landsbyggðina.

Þeim hv. stjórnarandstæðingum, sem hér hafa talað og raunar áður, hefur orðið tíðvitnað til ummæla hv. 3. landsk. þm., Bjarna Guðnasonar. Og í raun og veru má ekki gleyma garminum honum Katli, þegar talað er um þessi mál hér á hv. Alþ. En ákaflega lítið er hægt að standa á því, hvaða hugmyndir eða hvaða stefnu þessi hv. þm. hefur annars vegar í sambandi við fjárl. og hins vegar í þeim málaflokki, sem hann hefur nú básúnað hvað mest út í sínum ræðum, þ. e. í sambandi við skattamálin. Ég ætla að gera að neinu sérstöku umtalsefni málflutning þessa hv. þm. í sambandi við fjárl. Mér þykir sárt, að hann skuli ekki vera h´r í salnum, en við því verður ekki gert. En mér finnst kasta tólfunum, þegar þessi hv. þm. er að tala um áþján í sambandi við skattlagningu. Ég veit ekki betur en þau skattalög, sem nú eru í gildi, séu í raun og veru frumburður þessa hv. þm. í lagasmíði hér á Alþ. Mér er ekki kunnugt um, að á neinu stigi málsins hafi þessi hv. þm. borið fram breytingar á þessari löggjöf. þannig að þarna er þessi hv. þm. í og með að skamma sjálfan sig fyrir það afrek, sem hann sýndi á sínu fyrsta þingi eftir kosningar. Ég tek alveg undir það, sem komið hefur fram, bæði nú í þessum umr. og áður, varðandi þetta mál, að vissulega er full þörf á lagfæringu að því er skattamálin snertir. En það verður jafnframt að krefjast þess, að þeir, sem gagnrýna hvað mest, komi einhvers staðar og á einhverjum tíma með till. til breytinga á því, sem þeir sjálfir eru að gagnrýna. Það hefur þessi hv. þm. ekki gert, a. m. k. hef ég ekki séð hans till. í þeim efnum.

Mig tók það sárt, þegar hv. 6. þm. Sunnl., þessi öðlingur í alla staði, fór að lesa hér upp úr ritstjórnargrein Tímans og vitnaði í ákveðin ummæli, sem þar stóðu, — ég hafði blaðið fyrir framan mig, meðan hann las, — en hann hætti, þegar komið var að því besta kannske. Hann gleymdi alveg að geta þess ójafnaðar, sem átti sé stað í sambandi við byggðaþróun í tíð viðreisnarstjórnarinnar, og þar á ég við Breiðholtsframkvæmdirnar. Þar setti hann punktinn, áður en að því kom. En þar var vissulega um að ræða málaflokk, sem skipti sköpum að verulegu leyti í sambandi við röskun á byggðajafnvægi. Það hefði þessi öðlingur átt að hafa með í sinni upptalningu og sinni tilvitnun í ritstjórnargrein í Tímanum, sem hann vitnaði hér til áðan. (Gripið fram í: Hver samdi um Breiðholt? — LárJ: Vertu ekki að snupra Hannibal.) Ríkisstj. fyrrv., sem hv. þm., sem greip fram í, studdi hvað manna mest. Það voru nú eingöngu þessi atriði, sem ég vildi hér gera að umtalsefni. Vissulega voru fjöldamörg önnur atriði, sem ástæða væri til að gera að umræðuefni, í máli hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað, þegar þeir eru að bera saman, að því er mér skilst, þann glæsileik, sem ríkti í byggðastefnu viðreisnarstjórnarinnar, og það, sem nú gerist. Ég er þessum hv. þm. algerlega ósammála í þessum efnum, og það eru fleiri, meira að segja fjöldinn allur af þeirra eigin flokksmönnum.