18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. bar mig hér þeim sökum, að ég hefði ráðist að fjarstöddum þm. Mér er spurn, hvaða þm? (Sjútvrh.: Veit þm. ekki, um hvern hún hefur verið að tala?) Ég hef ekki verið að ráðast að neinum fjarstöddum þm. persónulega. Ég hef rætt hér um hæstv. iðnrh., hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslason, hæstv. forsrh. og síðan þá ráðh., sem hér eru staddir. Ég hef rætt þau orð, sem sagt hefur verið frá í fréttum fjölmiðla ríkisins. Ég hef ekki veist að öðru leyti að hv. þm., sem með þau ummæli fór, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Ég hef aðeins beint spurningum mínum til þeirra hæstv. ráðh., sem hér hafa verið staddir, um afstöðu þeirra til þessara ummæla. Hins vegar kann að vera, að sá, sem hefur lesið ræðuna, eins og hæstv. sjútvrh., telji hana þess eðlis, að ummæli um hana hljóti að fela í sér einhverja árás efnislega. Ég hef ekki rætt efni þessara ummæla, heldur aðeins það, að þau voru sögð við þetta tækifæri, og hef óskað svara um afstöðu ríkisstj. til þess.

Ef hæstv. ráðh. efast um, að það hafi í fréttum fjölmiðla verið talin árás á hinar Norðurlandaþjóðirnar, sem hæstv. iðnrh. lét sér um munn fara, þá skal ég með mestu ánægju láta honum í té ljósrit orðrétt af þeim fréttum, sem fluttar voru í Ríkisútvarpinu og sjónvarpinu í gær um þetta efni. Og ef hæstv. ráðh, vill heyra úr heimild Ríkisútvarpsins um þetta efni, þá hljóðar viss kafli þess svo, með leyfi hæstv. forseta, ef ég má lesa það á minni lélegu norsku, orðrétt eins og það er skrifað:

„Opner den íslanske venstre sosialist, industriminister Magnús Kjartansson, for en slik debatt igen om et kraftigt angreb blandt andet på Norge, for innblandning í islandsk innenrikspolitik.“ „Et kraftig angreb“ — ég skil ekki, að það geti útlagst öðruvísi á íslensku en harkaleg árás. Þá hefur hæstv. ráðh. það. Þetta er beint tekið upp úr þeim fréttum, sem sendar voru Ríkisútvarpinu í gær, en er ekki mín uppfinning.

Við þetta bætist, að í fréttaskeytum, sem borist hafa, segir, að norskir blaðamenn tali um þessa ræðu sem harkalega árás á Norðmenn, þeir bendi á, að ræðan hafi verið flutt í sama mund og Frydenlund utanrrh, var að stiga á land á Íslandi í opinberri heimsókn.

Það er þeim mun meiri ástæða til að nefna þessi atriði hér, að eitt þeirra atriða, sem Ríkisútvarpið sagði, að hæstv, iðnrh. hefði sagt í Stokkhólmi í gær, var, að svar við spurningum hans, þeim sem hann bar fram í þessari umræddu ræðu, gæti haft úrslitaáhrif á þátttöku íslendinga í samstarfi Norðurlandaþjóða. Ég veit ekki, hvaðan hæstv. ráðh. kemur umboð til þess að hóta slitum á samstarfi við Norðurlandaþjóðir. En það virðist augljóst, að ýmsir ráðh. telja sig hafa valdið, fleiri en þeir, sem hér eru staddir. En um það fáum við væntanlega að vita næstu daga. Og alla vega eru þessi ummæli þess eðlis, að það er alls ekki að ófyrirsynju, að um afstöðu til þessa máls sé spurt.

Ég mun ekki taka meiri tíma og þakka forseta fyrir, að ég fékk að taka hér aftur til máls.