18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

65. mál, orlof

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti, Það er vel við hæfi að fara að ræða um orlof að loknum þessum tveggja tíma umr. um öryggis- og varnarmál. En á þskj. 369 er álit félmn. um frv. til l. um breyt. á 1. nr. 87 24. des. 1971, um orlof. Álit félmn. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

N. hefur athugað frv. og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Garðar Sigurðsson, Gylfi Þ. Gíslason og Stefán Valgeirsson.“

Nú þyrfti ég e.t.v. ekki að segja meira, ef ekki væri um að ræða umsögn um þetta frv., sem félmn. barst frá félmrn., en þangað hafði n. sent frv. til umsagnar. Í umsögn rn. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rn. lítur svo á, að réttarstaða skólanema til orlofstöku rýmki ekki við frv. þetta. í 1. mgr. 3. gr. l. nr. 87 1971 segir, að orlof skuli vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári. Menn geta því ekki öðlast rétt til orlofstöku, fyrr en það orlofsár er liðið, er orlofsréttur er áunninn á, að óbreyttri 3. gr. l. Orlofstímabilið er aftur á móti frá 2. maí til 15. sept. Raunveruleg breyting á réttarstöðu skólanema yrði því, að þeir hefðu möguleika til útborgunar orlofsfjár 1. maí næsta árs í stað 2. maí að óbreyttum lögum.“

Félmn. lítur svo á, eftir að hafa kannað þetta mál ítarlega, að hér sé um misskilning að ræða hjá félmrn. Það má vel vera, að það sé hægt að misskilja frv., ef sérstakur vilji er fyrir hendi að misskilja, en félmn. skilur þetta ekki eins og rn. gerir. Orlofsárið telst frá 1. maí til 30. apríl, en orlofstímabilið frá 2. maí til 15. sept., eins og segir í umsögn rn. Í 4. gr. orlofslaga segir, að af orlofinu skuli a.m.k. 21 orlofsdagur veittur á tímabilinu frá 2. maí til 15. sept. Ef orlof er skemmra en 21 dagur, þá skal veita það í einu lagi á þessu tímabili, en afganginn af orlofinu skal einnig veita í einu lagi, en það má veita á öðrum tímum árs. Þarna er strax komin heimild til að taka hluta orlofsins á öðrum tíma en orlofstímabilinu, þ.e. frá 2. maí til 15. sept. Í 2. mgr. 4. gr. orlofsl. er svo heimild til að veita allt að helmingi orlofsins utan orlofstímabilsins vegna vinnu við landbúnað og síldveiðar. Það frv., sem hér er til umr., gerir svo ráð fyrir, að skólafólki, sem stundar nám við viðurkennda skóla, sé þó heimilt að taka allt orlof sitt utan orlofstímabilsins. Það er þess vegna ekki um neitt nýmæli að ræða, að heimild sé veitt til að taka orlof utan orlofstímabilsins, heldur aðeins um að ræða tiltekinn hóp, þ.e. skólafólk, sem ekki hefur þessa heimild samkv. gildandi l. Ætti því öllum að vera ljóst, við hvað er átt með þessu frv., sem hér er til umr. Með hliðsjón af því, sem ég hef hér sagt, og með þessum skilningi leggur félmn. til, að frv. verði samþ. óbreytt.