18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

65. mál, orlof

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hér er á ferðinni gott mál, sjálfsagt réttlætismál. og er vel, að það skuli hafa fengið svo góðar undirtektir hjá hv. félmn. Er þess að vænta, að frv. geti hindrunarlaust og fljótlega orðið að lögum. En af því að þetta mál er hér á dagskránni og það varðar einkum og sér í lagi nemendur tveggja skóla, eins og hv. flm., hv. þm. Pétur Sigurðsson, bendir á í grg. með frv., þ.e.a.s. það varðar sérstaklega nemendur Stýrimannaskólans og Vélskólans, þá vænti ég þess, að hæstv. forseti taki það ekki illa upp fyrir mér, þó að ég noti þetta tækifæri til þess að fjalla nokkuð um ýmis önnur mál. sem ekki eru góð mál eins og þetta mál, heldur vond mál, eins og unga fólkið mundi segja, mál, sem bitna sérstaklega á nemendum þessara skóla, þ.e. Stýrimannaskólans og Vélskólans.

Ég hef af vissum ástæðum nú undanfarnar vikur rætt mikið við nemendur þessara skóla og þá sérstaklega nemendur Stýrimannaskólans, og þeir hafa vakið athygli mína á ýmsu, sem er þess eðlis, að ég tel skyldu mína að leiða einnig að því athygli hv. starfsbræðra minna hér á Alþ., þótt einhverjir segi kannske, að það muni að mestu leyti verða unnið fyrir gýg, þar sem svo fáir þm. eru staddir hér í salnum. En það er þó bót í máli, að þeim mun fleiri nemendur Stýrimannaskólans og Vélskólans eru staddir á pöllum, og veri þeir velkomnir.

Nú s.l. hálfan mánuð hafa háskólastúdentar verið að fá greiddan seinni helminginn af þeim námslánum, sem þeir eiga rétt á þetta skólaárið. Fyrri helminginn fengu þeir aftur í haust. Það heita haustlán. Nemendur Stýrimannaskólans og Vélskólans hafa hins vegar orðið að bíða eftir sínum lánum alveg þangað til núna, þó að þeir hafi að sjálfsögðu engu minni þörf fyrir þessa fjárhagsaðstoð heldur en háskólastúdentar, m.a. vegna þess, að í þeirra hópi eru áreiðanlega engu færri fjölskyldumenn en í hópi háskólastúdenta að tiltölu. En það er sem sé fyrst núna, þegar komið er langt fram yfir miðjan vetur og búið er að afhenda háskólastúdentum öll þau lán, sem þeir eiga að fá, þá kemur loksins röðin að nemendum Vélskólans og Stýrimannaskólans.

Þetta finnst þeim dálítið skrítið, nemendum Vélskólans og Stýrimannaskólans. Ég verð að segja það alveg eins og er, að mér finnst þetta líka dálítið skrítið. Ég er ekki að segja, að háskólastúdentar séu ofhlaðnir af þeim lánum, sem þeir fá, en ég skil ekki, hvaða réttlæti mælir með því, að þeir hafi þennan forgang. Einhverjum dettur kannske í hug sú skýring, að þeir, sem sett hafa reglurnar um úthlutunina, líti svo á, að tilvonandi embættismenn séu svona miklu merkilegri persónur, svona miklu þýðingarmeiri persónur fyrir þetta þjóðfélag okkar heldur en tilvonandi skipstjórar og vélstjórar. Og liggi sá skilningur þarna til grundvallar, væri vissulega ástæða til þess að mótmæla og mótmæla harðlega.

En skýringin, sem nemendur Stýrimannaskólans og Vélskólans fá á þessu, er sú, að farið sé eftir meðaltekjum nemenda í viðkomandi skóla, þegar ákveðið er, hvaða skóli skuli afgreiddur fyrst og hvaða skóli skuli bíða lengst. Meðaltekjur háskólastúdenta eru tiltölulega lágar. Þess vegna kemur Háskólinn á undan hinum tveim skólunum þar sem meðaltekjur eru einna hæstar og hæstar líklega af öllum skólunum. Nemendum Vélskólans og Stýrimannaskólans líkar þetta ekki alls kostar. Þeim líkar ekki alls kostar þessi skýring, og lái þeim það hver sem vill. Sá nemandi, sem hefur brýna þörf fyrir fjárhagsaðstoð vegna lágra tekna sinna, hefur að sjálfsögðu lítið gagn af því, þó að einhver bekkjarbróðir hans hafi haft háar tekjur. Eða hvað mundum við segja, alþm., ef réttindi okkar ættu að skerðast í hlutfalli við meðaltekjur alþm, í heild? Ég segi a.m.k. fyrir mína parta, að ég mundi mótmæla, ef t.d. réttindi mín yrðu skert í hlutfalli við þær tekjur, sem ónefndir stórhændur hafa, þeir sem sitja hér á Alþ. Ég nefni engin nöfn. Að sjálfsögðu ættu nemendur að fá lán sín úr lánasjóðnum, hvort heldur þeir sitja í Háskólanum, Stýrimannaskólanum eða Vélskólanum, eftir þeirri röð, sem réðist af þörfum hvers einstaklings, og engu öðru.

En það kemur fleira skrýtið í ljós, þegar maður fer að rabba við nemendur þessara skóla um þau kjör, sem þjóðfélagið býr þeim. Það er fleira skrýtið í þessum kýrhaus, og mætti halda um það langa ræðu, en til þess er ekki tækifæri hér. Ég ætla aðeins að bæta við einu dæmi, og það varðar skattamál þessara nemenda. Nemendur Stýrimannaskólans eru að sjálfsögðu allir sjómenn, en það gegnir nokkuð öðru máli um Vélskólann, þótt nemendur þess skóla séu að vísu mjög margir líka sjómenn. En víst er, að nemendur Stýrimannaskólans nota allan þann tíma, sem þeir hafa lausan frá skólanáminu, til þess að fara út á sjó og afla sér tekna til þess að halda áfram náminu. En sjómannafrádrátturinn svonefndi, hinn sérstaki skattfrádráttur sjómanna vegna starfs þeirra, — og hér er ég að tala um hinn svokallaða hærri skala, lægri skalinn skiptir reyndar engu máli, þar er um að ræða helberan tittlingaskít, — en þessi skattfrádráttur er háður því skilyrði, að menn hafi verið 26 vikur á sjó. Þeir verða að geta sýnt fram á það, að þeir hafi verið skráðir á skip 26 vikur það árið, sem þeir ætla að fá þennan frádrátt.

Tökum nú dæmi um nemanda, sem er á fyrsta ári í Stýrimannaskólanum eða Vélskólanum, hann hefur unnið duglega, áður en hann hóf námið, og veitir ekki af. Eftir fyrsta veturinn fer hann því mjög háa skatta. Það líða 6 mánuðir, og þar er ég að tala um nemendur á fyrsta ári í Stýrimannaskólanum, það líða 6 mánuðir, frá því að hann lýkur prófi úr 1. bekk og þangað til hann byrjar aftur í 2. bekk. Segjum, að hann vinni allan þann tíma og fái tekjur, sem nema 300–400 þús. kr. Það er allgott kaup fyrir G mánuði. En vegna teknanna árið áður má gera ráð fyrir því, að hann verði að borga skatta, sem nema 2/3 hlutum af þessum tekjum þetta árið, þ.e.a.s. það verði ekki eftir nema 100–150 þús. kr., sem hann hefði þá úr að spila sér til framfæris. Og allt eins líklegt er, að þetta sé fjölskyldumaður. Ekki nóg með þetta. Af því að brúttótekjurnar eru þetta háar, þ.e. yfir 300 þús. kr., missir nemandinn þarna um leið allan rétt til námslána. Þar við bætist, að þó að hann hafi varið öllum sinum tíma, sem gafst á milli bekkja, til þess að vinna á sjónum, er mjög hæpið, að hann nái nógu löngum skráningartíma, til þess að hann fái sjómannafrádráttinn. Það vantar kannske ekki nema tvær vikur. Og til þess að ná þeim vikum til viðbótar er aðeins eitt ráð, margir þessara manna nota það ráð, og það er að fara á sjóinn einnig í jólafríinu. Þeir kalla það að fara jólatúrinn. Þeir ráða sig sem sé á togara eða fragtskip og fara til starfa á sjónum einnig um jólin. Þar fá þeir þessar tvær vikur til viðbótar, sem á vantar, til þess að þeir öðlist réttinn til sjómannafrádráttar. M.ö.o.: til þess að þessir menn geti tryggt sér sjómannafrádráttinn, verða þeir að nota hverja einustu stund, sem þeir hafa aflögu eða hafa sig lausa frá skólanáminu, til þess að vinna á sjónum.

Þessir menn hafa beðið mig að beina því til þeirra, sem fjalla um skattamálin, hvort það væri nokkur goðgá, þó að styttur væri þessi tími, 26 vikna skráningartími, sem er skilyrði þess, að þeir fái sjómannafrádráttinn, þessi tími yrði styttur t.d. um tvær vikur, niður í 24, svo að þeir þurfi ekki endilega líka að taka jólatúrinn. Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til þess að koma fram þessum tilmælum, þó að þetta sé að vísu nokkuð utan við það mál, sem er á dagskránni. Ég tel mjög brýnt, að þessi tilmæli komist á framfæri, enda tel ég þessi tilmæli mjög sanngjörn. Mér virðist, að sleitulaus vinna þessara manna á sjónum allan þann tíma, sem þeir hafa lausan á milli bekkja, þ.e.a.s. frá skólasetunni, sú vinna ætti að nægja til þess að veita þeim rétt til sjómannafrádráttar. En hitt væru næsta harðir skilmálar, ef þeir ættu líka endilega hreint að bæta við jólafríi sínu. Það eru sem sé vinsamleg tilmæli þessara manna, að þannig sé séð um, að þeir geti einhvern tíma fengið sér eitthvert ofurlitið frí.

En það ranglæti, sem bitnar á mörgum þessara manna, sbr. skatta, t.d. þegar þeir hafa kannske ekki nema 100–150 þús. kr. eftir að frádregnum sköttum, en missa um leið allan rétt til námslánanna, — þetta ranglæti mætti leiðrétta að nokkru með því m.a. að miða þennan rétt ekki við brúttótekjur manna, heldur við raunverulegan lífeyri þeirra, það, sem eftir væri, þegar skattarnir hefðu verið teknir.

Læt ég svo þetta nægja að sinni, þó að ýmislegt fleira mætti til tína af aths., sem nemendur þessara skóla vildu gjarnan gera varðandi kjaramál sín og margs konar skilningsleysi, sem þeir eiga að mæta af hálfu þeirra, sem fjalla um þessi mál. Það skilningsleysi kemur m.a. fram í því, að þessir nemendur eru settir skör lægra en aðrir námsmenn og einkum og sér í lagi háskólastúdentar. Samt fer því fjarri, eins og allir vita, að háskólastúdentar séu ánægðir með sinn hag. Tónninn í samþykktum þeirra og ályktanir margvíslegar eru síður en svo í þeim dúr yfirleitt, að þeir telji, að þjóðfélagið leggi sig eitthvað sérstaklega fram um að mylja undir þá. Kröfur háskólastúdenta eru sjálfsagt réttmætar. En hitt fullyrði ég, að þó að hátt láti oft í háskólastúdentum og lægra láti jafnan í nemendum Vélskólans og Stýrimannaskólans, eru kröfur hinna síðarnefndu yfirleitt enn þá réttlátari en kröfur hinna fyrrnefndu.