18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

65. mál, orlof

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef lítið veitt þessu frv. athygli, en það hefur komið fram, bæði í grg., sem kom frá félmrn., og eins í ræðu hv. 7. landsk. þm., að það orðalag, sem hv. flm. befur valið á 1. gr. frv. síns, fullnægi ekki því, sem að er stefnt með frv.- flutningnum. Ég hygg, að það kunni nokkuð að vera til í þessu. Þegar farið er að athuga, hvert sé vandamálið, sem hér er við að stríða, þá sýnist það vera það, að nemendur fá ekki greitt orlofsfé sitt á þeim tíma, þegar þeir eru í skóla og vilja gjarnan hafa rýmri fjárráð og þurfa þess, þ.e.a.s. á tímabilinu frá því í sept. og fram til 1. maí. Þess vegna held ég, að það væri langumbúðaminnst að reyna að orða þetta skýrt og greinilega og láta það koma fram í meginmálinu, hvað við er átt. Þess vegna vil ég gera það að till. minni, — og raunar ætla ég nú fyrst og fremst að skjóta því til n., sem fjallar um þetta hér í d., en það má líka vera skrifl. till. mín, — að efnisatriði gr. orðist þannig: „Heimilt er að greiða skólanemendum, sem stunda nám við viðurkennda og fasta skóla, út orlofsfé sitt, þegar þeir óska.“