19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2251 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Eysteinn Jónsson):

Nú hafa tveir hv. alþm. beðið um orðið utan dagskrár um tvö óskyld efni, að mér skilst. Í því tilefni vil ég segja, að dagskrárnar eru ætið fullar af málum, sem eru flutt með þinglegum hætti, og flm. þeirra eiga rétt á því, að þau komist að og séu tekin fyrir til umr. Það mun ekki verða breytt þeirri venju að sjálfsögðu að veita mönnum orðið utan dagskrár til þess að gera fsp., enda er það mjög gömul þingvenja. En við hljótum að gera okkur grein fyrir því, að þegar innleitt var þetta nýja snið fsp., var það gert í trausti þess, að umr. utan dagskrár gætu orðið með öðru sniði en þær voru farnar að verða, þ.e.a.s. það yrðu þá bara stuttar fsp., stutt svör og stuttar aths. Ég vænti, að við getum sæst á, að ekki er eðlilegt, að fsp. utan dagskrár hafi meiri rétt og það miklu meiri og allt annan rétt en þær fsp., sem bornar eru fram eftir ákvæðum þingskapa. Ég vil þess vegna fara þess á leit við hv. þm., að þeir hafi góða samvinnu um að hafa fsp. sínar stuttar og svörin stutt og aths. stuttar, þannig að sem næst geti gengið venjulegum reglum um fyrirspurnaumr.