30.10.1973
Sameinað þing: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög 1974

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Það var aðeins út af nokkrum stóryrðum frá hv. 7. landsk., sem ég vildi segja hér nokkur orð.

Hann taldi, að það hefðu orðið mikil umskipti í atvinnulífi strjálbýlisins, og vildi þakka hæstv. ríkisstj. það allt saman. Það er nú svo, að ég veit ekki, hvort hv. þm. gerir sér grein fyrir því, að þessi ríkisstj. stjórnar ekki fiskigöngum eða verði á erlendum mörkuðum frekar en aðrar, og ég hygg nú, að ef vel er að gáð og grandskoðað, þá sé miklu frekar hægt að rekja það blómlega atvinnulíf, sem vissulega er víða úti um byggðir landsins, til þess, að það er einstakt góðæri í landinu um þessar mundir. Við búum núna við verðlag á okkar afurðum, sem er sennilega sexfalt á aðalafurðum okkar, miðað við það, sem var þegar það var lægst.

Það er afskaplega óviðurkvæmilegur málflutningur, finnst mér, oft á tíðum hér á hv. Alþ., þegar núv. stjórnarsinnar eru að tala um það, að fyrrv. ríkisstj. hafi átt sök á því m. a., að svo og svo margt fólk varð að flytja úr landi vegna atvinnuleysis. Það hefði verið sama, hvaða ríkisstj. var við völd, þegar útflutningstekjur okkar lækkuðu um helming á 1–2 árum. Það hefði orðið jafnmikið áfall fyrir þjóðina, hvaða ríkisstj. sem hefði setið, og þetta er þannig nú, að í raun og veru er það að þakka því góðæri, sem við eigum við að búa, bæði í aflabrögðum, t. d. loðnunni og verðlagi á erlendum mörkuðum, að svo mikið og blómlegt atvinnulíf er nú um allt land sem raun ber vitni. En það er einmitt vegna þess, að svo er ástatt, að núv. ríkisstj. gæti, ef það væri ekki algert öngþveiti og stjórnleysi í efnahagsmálum, veitt miklu meira fé til þess að byggja virkilega vel upp fyrir framtíðina, ef vel væri á haldið.

Okkar þjóðartekjur hafa vaxið einmitt af þessum ástæðum. Ég bar saman fjárlög 1971 og fjárlagafrv. 1974. Ég gerði ítarlega grein fyrir því, að á þessu tímabili hefði orðið nokkur vöxtur þjóðartekna, og þakka skyldi ríkisstj. fyrir það, á svipuðum tíma og fimmfaldast verðlag á erlendum mörkuðum og loðnu er ausið upp úr sjónum. Ætli þjóðartekjurnar hafi ekki vaxið um svona 5% á árinu 1972, 1973 sennilega heldur minna, og 1974 veit maður ekki um, en á þessum tíma hefur orðið nokkur vöxtur þjóðartekna. Og það var þetta, sem ég var að gagnrýna, að á sama tíma sem þetta hefur skeð, hefur orðið beinn samdráttur í raunverulegum framlögum til uppbyggingar úti á landsbyggðinni, til skóla, til hafna o. s. frv. Þrátt fyrir öll sín stóryrði hrakti hv. 7. landsk. þetta ekki.

Hann benti á, að það hefði orðið veruleg hækkun til hafna, sjúkrahúsa og skóla á Norðurl. e., og nefndi þar nokkrar tölur. En hann gleymdi að geta þess, að á þessu tímabili, — ég rakti dæmi hér áðan, — hækkaði byggingarkostnaður á landsbyggðinni um 46% á 1½ ári. Byggingarvísitala var í febr. 1971 532 stig. Það er búist við, að hún fari í 1000 stig á næsta ári, jafnvel þótt ekki hækki laun um eina einustu krónu. Og meðal annarra orða, hvernig stendur á því, fyrst það er svona blómlegt atvinnulíf úti um allt land núna eftir tveggja og hálfs árs valdaferil stjórnar hinna vinnandi stétta, að á sama tíma segir þessi ríkisstj.: Nú er ekki tími til kauphækkana? Eftir að hin vonda viðreisnarstjórn var við völd og þegar allt var í kaldakoli, þá var hægt að stytta vinnuvikuna, þá var hægt að lengja orlof, þá var hægt að hækka kaupmátt hinna lægst launuðu um 20% á tveimur árum. Eftir að þessi vonda ríkisstj. hafði verið við völd, var þetta allt hægt. Var það ekki af því, að atvinnulífið var að batna, það var búið að sigrast á erfiðleikunum, að þetta var hægt? En hvaða erfiðleikar eru það, sem núv. ríkisstj. stendur andspænis? Hvers vegna getur hún ekki sagt við launþega núna það sama og áður? Af því að hún hefur gersamlega misst tökin á efnahagsmálum landsins. Og þó að atvinnulíf sé blómlegt nú, þá er spurning, hversu lengi hægt er að reka það með tapi. Ég held, að hv. 7. landsk. þm. ætti að spyrja útgerðarmenn þeirra glæsilegu skipa, sem hafa verið keypt til landsins og vissulega var unnið að af fyrrv. ríkisstj. líka. Það var búið að semja um togara til Vestfjarða, áður en stjórnarskiptin urðu, og það var búið að kaupa marga togara til landsins, áður en stjórnarskiptin urðu. Það er markleysa, að fyrrv. ríkisstj, hafi látið togaraflotann drabbast niður. Útgerðarhættir voru allt aðrir þá heldur en nú, þá réð síldin útgerðarháttum. Þegar hún hvarf, breyttust auðvitað útgerðarhættirnir. Eða finnst hv. þm., að við ættum að reyna að gera enn út á síld? Það er þetta, sem ég held, að hv. þm. ætti að spyrja sjálfan sig. Hvað er að í dag? Af hverju getum við ekki sagt það sama við launþega í landinu með þetta blómlega atvinnulíf eins og hægt var að segja fyrir 2½ ári?