19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, að hún undraðist, hvers konar stjórnarfar væri í þessu landi, og hv. þm. Benedikt Gröndal spurði beinlínis: Hvers konar stjórnarfar er í landinu? Mér koma í hug orð eða spakmæli Hávamála:

„Haltur ríður hrossi,

hjörð rekur handar vanur.“

Það eru fleiri en þeir, sem eru inni í þessum sölum, sem í dag spyrja: Hvers konar stjórnarfar er í þessu landi?

Ég get fallist á þá skoðun hæstv. forseta Sþ., að almennar umr. geti tæpast orðið um þessi mál hér utan dagskrár. Ég vil hins vegar ekki fallast á það, sem hefur komið fram hjá hæstv. forseta Sþ. nú og reyndar áður, að þegar sú breyt. var gerð á þingsköpum, að sérstök takmörkun var gerð á spurningatíma, hafi verið til þess ætlast, að sams konar breyt. væru á ræðuhöldum utan dagskrár, eins og nú fara fram. Þetta er mér ekki kunnugt um, og þetta var ekki rætt, — það hefur þá farið fram hjá mér, hafi það verið rætt. Ég get fallist á, að það sé eðlilegt, að við stefnum að því að takmarka ræðutíma utan dagskrár, eins og nú, en ég held, að þetta sé ekki rétt með farið af hæstv. forseta.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ræða hæstv. forsrh. olli mér miklum vonbrigðum, því að það er auðvitað allt annað það, sem óbreyttir þm. segja í Norðurlandaráði, en það, sem ráðherrar segja. Ráðherrarnir eru ekki kosnir á Norðurlandaráð. Þeir eru stjórnarfulltrúar, sem eiga sæti samkv. reglum ráðsins á Norðurlandaráðsfundum. Hins vegar eru kosnir þar fulltrúar, og á þessum tveimur hópum manna er gerður sá munur, að í myndabókinni frá Norðurlandaráði eru birtar myndir sérstaklega af ráðherrunum, hins vegar af fulltrúunum, sem þangað eru kosnir. Samkv. eðli málsins lítur auðvitað allt öðruvísi út það, sem ráðh. segir, og hvaða ábyrgð fylgir því varðandi stjórnmál viðkomandi lands.

Ég leyfði mér í fyrra eða næstsíðast á Norðurlandaráðsfundi í Noregi að ræða íslensk málefni. Fyrrv. forsrh. Dana, Krag, hafði þá miklar áhyggjur af aðstöðu Færeyinga í landhelgismálinu og það gæti orðið þeim þungt í skauti, sem Íslendingar stefndu að. Ég hafði auðvitað ekkert umboð til að segja það frá ríkisstj., enda stjórnarandstæðingur, en leyfði mér þó að segja út af orðum fyrrv. utanrrh. Dana, að þeir mættu vera vissir um það, að við Íslendingar mundum fara þannig að í landhelgismálinu gagnvart Færeyingum, að þeir mundu mega vel við una, og afgreiða þeirra mál af þeirri fyllstu vinsemd, sem við gætum. Við þetta hafði enginn að athuga, og það spunnust engar deilur á þinginu. Hæstv. forsrh. var á því þingi, — hvort hann var farinn heim, man ég ekki, — og aðrir ráðh. voru þar, m.a. Magnús Kjartansson. Og hæstv. ríkisstj. hefur afgreitt mál Færeyinga í landhelgismálinu þeim mjög svo í hag, e.t.v. kannske miklu meira í hag en þeir nokkurn tíma gátu búist við, að mundi verða gert.

Mér hefði ekki þótt undarlegt, þó að hæstv. forsrh. hefði komið frá Norðurlandaráðsþingi og hingað á Alþingi, stigið hér í ræðustól og tilkynnt, að hann væri búinn að senda forseta Íslands lausnarbeiðni fyrir hönd iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar.