19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það hafa nú verið ýmsar umr. um ræðu Magnúsar Kjartanssonar í Stokkhólmi og ýmis sjónarmið komið í ljós, en ég hygg þó, að kjarninn sé eftirfarandi:

1. Ríkisstj. virðist ekki geta komið sér saman um, hvernig eigi að leysa hin svonefndu varnarmál.

2. Ríkisstj. er að bila.

Varnarmálin, sem eru svona erfið viðureignar, virðast ekki hafa neina fyrirsjáanlega lausn. Um þessi mál, varnarmálin, sem menn urðu ósáttir um, hefur ríkisstj. ekki tekist að komast á neinn traustan grundvöll, og eftir því sem tíminn líður, þeim mun erfiðara verður það.

Ef þessi ríkisstj. hefði ætlað sér að standa við málefnasamninginn, hefði þegar um áramót átt að hafa til viðræðugrundvöll við Bandaríkin. Ræða Magnúsar Kjartanssonar er framhald af þeirri óeiningu sem ríkir í ríkisstj. um þetta mál og virðist ætla að halda áfram.

En þetta er líka annað og meira. Það er merki um það, að ríkisstj. er að bila. Nú eru að koma verkföll, eins og menn vita. Óðaverðbólgan stígur nú tröllaukinn dans. Nú er ekki aðeins spurning um vikurnar, nú fara dagarnir að skipta máli. Það er af því að ríkisstj. getur ekki lengur stjórnað þessu landi.