19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er upplýst í þessum umr., að hæstv. iðnrh. Magnús Kjartansson hefur sagst tala í nafni ríkisstj., án þess að hafa nokkra heimild til þess, eftir því sem hæstv. forsrh. hefur sagt. Þetta er staðreynd málsins. Hæstv. forsrh. sagði, að við hefðum ekki óskað eftir stuðningi Norðurlandanna í varnarmálum, en hæstv. iðnrh. sagði, að við hefðum orðið fyrir vonbrigðum af því að fá ekki þann stuðning, sem óskað hefði verið eftir eða vænta hefði mátt. Þetta er samræmi í lagi og þarfnast fyllri upplýsinga og skýringa.

Auðvitað eigum við Íslendingar að taka einir og óháðir ákvörðun í varnar- og öryggismálum okkar í samræmi við hagsmuni Íslands, í samræmi við það, sem við álítum nauðsynlegt til að tryggja öryggi Íslands og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Um það er ekki deilt, heldur vil ég undirstrika það út af þeim orðum, sem hæstv. forsrh. sagði.

Hitt er allt annað mál, að við höfum ekki talið það fyrir neðan okkar virðingu, Íslendingar, að hafa samráð bæði við Norðmenn og Dani. Þegar við t.d. gengum í Atlantshafsbandalagið og gerðumst stofnaðilar þess, þá var Framsfl. heils hugar þeirrar skoðunar, að sjálfsagt væri að hafa samráð við Norðmenn og Dani, undir forsæti, að því er mig minnir, núv. hæstv. forseta Sþ. Þess vegna er það ekki fyrir neðan virðingu okkar Íslendinga að líta á orðaendingu Norðmanna í því ljósi, hvort við okkar eigin hagsmuna vegna höfum eitthvað af henni að læra. Og að svo miklu leyti sem orðsending er í andstöðu við sjónarmið okkar, eigum við auðvitað að láta þá andstöðu og gagnrýni í ljós við Norðmenn og nota t.d. það tækifæri, sem nú býðst við heimsókn norska utanrrh. Við eigum ekki að vera með þá vanmáttarkennd að vilja ekki ræða mál eins og öryggis- og varnarmál þessa heimshluta við vina- og nágrannaþjóðir. Við erum í Atlantshafsbandalaginu einmitt til þess að hafa samráð við aðrar þjóðir í varnar- og öryggismálum, og samkv. varnarsamningnum sjálfum er það áskilið, að Atlantshafsbandalagsráðið gefi umsögn um þörf varna hér á landi. Það er þessi umsögn, sem var ástæðan fyrir orðsendingu Norðmanna, og því var orðsending Norðmanna mjög eðlileg og sjálfsögð.

Ég held nú, að hæstv. sjútvrh. þurfi ekki að lýsa taugaspennu annarra hv. þm., svo augljóslega er hann sjálfur taugaspenntur nú í sinni ræðumennsku og ræðuhöldum, þannig að þar stóð ekki stafur yfir staf, og er ekki ástæða til að fjölyrða nánar um hans ræðu. Ég er hins vegar alveg sammála honum um það, þegar hann leggur þá skoðun í okkar hug, stjórnarandstöðunnar, að það er voðalegt, meðan núv. hæstv. ríkisstj. fellur ekki. Það er voðalegt vegna hagsmuna þjóðarheildarinnar. Og ef núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekki vit á því að biðjast lausnar fyrr en síðar, þá er það alveg ljóst, miðað við frammistöðu hennar, bæði í utanríkis- og innanríkismálum, að landsmenn munu í frjálsum kosningum sjá svo um, að hún falli, svo að eftir verði munað.