19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

412. mál, fullvinnsla iðnaðarvara

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Það er öllum kunnugt, að íslenskur iðnaður á við óvenjulega erfiðleika að etja um þessar mundir, og alveg sérstaklega á þetta við um þann iðnað, sem nefndur hefur verið útflutningsiðnaður. Meginorsakirnar fyrir þessum erfiðleikum eru auðvitað tvær: annars vegar hin ofboðslega verðbólga og launaskrið innanlands og hins vegar gengissveiflur, bæði hérlendis og erlendis.

Það eru aðeins örfá ár, síðan farið var að flytja út íslenskar iðnaðarvörur að nokkru marki. Voru þessar vörur fluttar út fyrir 1636 millj. á s.l. ári, án þess að ál sé með talið. Undir venjulegum kringumstæðum hefði mátt gera ráð fyrir umtalsverðri aukningu á þessu ári. En því miður er ekkert venjulegt ástand í þessum efnum. Uppistaðan í útflutningi iðnaðarvara, fyrir utan ál og fyrir utan kísilgúr, eru lagmetisvörur og svo skinna- og ullarvörur. Ég vil taka það skýrt fram, að fyrirspurn mín beinist eingöngu að þeim iðnaðarvörum, sem ætti að vera hægt að fullvinna í landinu.

Ef við snúum okkur fyrst að lagmetisiðnaðinum, þá er þar um mesta hörmungarástand að ræða. T.d. eru grásleppuhrogn, fryst þorskhrogn, söltuð þorskhrogn flutt út sem hráefni, vegna þess að fullvinnsla þessara hráefna kostar of mikið hér á landi. Þessar vörur væri tæknilega hægt að fullvinna hér á landi, og nægilegur tæknilegur útbúnaður er að mestu leyti fyrir hendi. Hins vegar geta keppinautar okkar keypt þetta sem hálfunna vöru og boðið fyrir lægra verð á heimsmarkaðinum en okkur er unnt, íslenskt hráefni, sem hefði verið hægt að fullframleiða innanlands, ef aðstæður væru eðlilegar. Um loðsútað skinn skiptir nokkuð sérstöku máli. Feldskerar eru mjög sérþjálfað fólk, sem er fátt hér á landi. Hins vegar eru þessar vörur mjög vel seljanlegar á alþjóðamörkuðum, ef verðið væri samkeppnisfært, sem ekki er vegna ástandsins innanlands. Íslenskur ullarfatnaður hefur unnið sér talsverðan markað erlendis á síðustu árum. Nú er hins vegar farið að tala um í fullri alvöru, að þessi framleiðsla verði að eiga sér stað erlendis, til þess að hægt sé að ná viðunandi samningum, þrátt fyrir þá staðreynd, að starfandi saumastofur hér á landi hafa lítil verkefni. Hér er um beint gjaldeyristap fyrir okkur að ræða upp á tugi millj.

Ég held, að þessi dæmi hljóti að sýna, hvernig komið er fyrir útflutningsiðnaði okkar. Mér finnst þetta ekki vera góð byrjun á þeirri iðnbyltingu, sem boðuð hefur verið. Þess vegna hef ég beint þeirri fsp. til hæstv. viðskrh., hvað hann eða ríkisstj. hyggist gera til að sporna við þessari augljósu þróun varðandi útflutningsiðnaðinn. Það mætti t.d. spyrja: Er hægt að greiða sérstakar bætur vegna útflutningsiðanaðarvara, eða er hægt að stöðva útflutning hálfunninna vara og fullvinna þær hér heima, en tryggja samt viðkomandi fyrirtækjum sæmilega afkomu? Að því er varðar íslenskan iðnað, þá eru engar forsendur fyrir tveimur gengishækkunum á s.l. ári.

Af áðurnefndum ástæðum hef ég því leyft mér að bera fram eftirfarandi spurningu til hæstv. viðskrh.: „Hvaða ráðum hyggst ráðh. eða ríkisstj. beita til að koma í veg fyrir, að hálfunnið hráefni sé flutt úr landi til vinnslu iðnaðarvara í öðru landi, þar sem laun ertu lægri en hér og ýmsar aðstæður hagstæðari? Hér er átt við iðnaðarvörur, sem annars væri hægt að fullvinna hér á landi.“