19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

412. mál, fullvinnsla iðnaðarvara

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er um það, hvaða ráðum ráðh. eða ríkisstj. hyggist beita til að koma í veg fyrir, að hálfunnið hráefni sé flutt úr landi til fullvinnslu iðnaðarvara í öðru landi, þar sem laun eru lægri en hér og ýmsar aðstæður hagstæðari. Hér er átt við iðnaðarvörur, sem annars væri hægt að fullvinna hér á landi. — Ég vil sem svar við þessari fsp. segja það, að yfirleitt verður sú stefna ráðandi að heimila ekki útflutning á hálfunnum eða óunnum vörum, sé þess kostur að fullvinna vöruna innanlands með eðlilegum hætti. Ef það kemur í ljós, að vinnulaun hér eða annar tilkostnaður reynist vera of hár, til þess að hægt sé að fullvinna vöruna hér, verður auðvitað að taka það til sérstakrar athugunar. Ég vil ætla, að það sé fremur undantekning en aðalregla, að vinnulaun hér þurfi að vera hærri á hverja einingu en annars staðar í okkar aðalviðskiptalöndum. Þó munu vera dæmi um það, að vinnulaun erlendis séu talsvert lægri og þetta geti því komuið upp, og þá þarf auðvitað að huga sérstaklega að því, hvort það þyki fært að gripa þarna til sérstakra útflutningsbóta eða fjárhagslegs stuðnings við útflutninginn með einhverjum hætti. En þetta er sem sagt sú aðalregla, sem við í viðskrn. teljum, að eigi að fara eftir og viljum halda okkur við.

Hv. fyrirspyrjandi minntist á, að það hefði orðið um minni framleiðslu að ræða í útflutningsiðnaði á síðasta ári en vonir hefðu staðið til og þar hefðu m.a. verið að verki þessar tvær meginástæður: annars vegar of mikill framleiðslukostnaður hér innanlands, sem dregið hefði úr okkar framleiðslugetu, og svo aftur óhagstæðar gengisbreytingar fyrir okkar útflutningsiðnað. Það er eflaust rétt, að í vissum greinum hefur þetta komið alveg skýrt fram. Ég býst við því, að fyrir okkar tiltölulega unga og veika útflutningsiðnað hafi þær gengishækkanir, sem ákveðnar hafa verið, komið sér illa. Það er skoðun mín, að taka þurfi það mál til sérstakrar athugunar, hvort ekki verði að gera almennar ráðstafanir til þess að veita útflutningsiðnaðinum stuðning, þegar slíkar ráðstafanir eru gerðar, eins og nú hafa verið gerðar með hækkun okkar gjaldmiðils, vegna þess að sú hækkun er miðuð við forsendur annarra greina í okkar útflutningi, sem getur staðið miklu betur á með, eins og hefur tvímælalaust gert nú á þessu ári, og þau mál eru í athugun.

Hins vegar er það nú svo, að á árinu 1973 hefur orðið um umtalsverða aukningu að ræða í útflutningi iðnaðarvara, þó að álið sé þar undantekið. Þær tölur, sem fyrir liggja um það, sýna, að á árinu 1973 hafi heildarverðmæti útfluttra iðnaðarvara, annarra en áls, numið 1 milljarði 636 milljónum, en á árinu á undan 1 milljarði 165 milljónum, verðmætisaukningin er í þessum greinum 40%, og um nokkra beina magnaukningu er þarna að ræða. Þetta er mjög mismunandi á hinar einstöku greinar. í sumum greinum er um mjög verulega aukningu að ræða, en í öðrum aftur miklu minni. En það, sem sérstaka athygli vekur, er, að verðlag yfirleitt virðist hafa hækkað tiltölulega minna á mörgum okkar útfluttu iðnaðarvörum en það hefur almennt gert á okkar útflutningsvörum, og þar koma auðvitað sjávarafurðirnar til.

Ég þykist vita, að þessi fsp. kemur hér fram m.a. vegna þess, að á það hefur verið bent í fréttum að undanförnu, að eitt tiltekið fyrirtæki hafi horfið að því ráði að láta nokkuð af sinni framleiðslu til fullvinnslu í nálægu landi, þar sem það getur fengið ódýrara vinnuafl en hér innanlands. Þetta mál er enn í athugun á vegum viðskrn. En viðkomandi aðilum hefur verið tilkynnt, að þeir fái ekki heimild til þess að reka slíka starfsemi, nema einhver sérstök rök verði færð fram, sem okkur eru ekki ljós á þessu stigi málsins. En það er auðvitað rétt, að það getur komið til þess og hefur auðvitað oft komið til þess, að það hefur þótt réttara að veita leyfi til að flytja út hálfunnar vörur, sem hefði verið hægt að vinna hér á landi, en hefur þó ekki þótt borga sig. Slíkur útflutningur hefur átt sér stað í allríkum mæli lengi, og verður sennilega ekki hægt að útiloka hann í öllum tilfellum. En meginreglan verður sem sagt þessi, að heimila ekki eða veita ekki útflutningsleyfi fyrir hálfunnum vörum, sé hægt að vinna þær með eðlilegum hætti hér í landinu. Og það fara nú fram sérstakar athuganir á því að veita útflutningsiðnaði sérstakan fjárhagslegan stuðning með tilliti til óhagstæðs gengis, þegar um er að ræða, að innanlandskostnaður verður að teljast úr hófi fram eða óeðlilegur fyrir iðnaðinn.