19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

412. mál, fullvinnsla iðnaðarvara

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir ,svör hans, svo langt sem þau náðu, og þóttist skilja af ræðu hans, að það væri fullt af góðum vilja til þess að koma til stuðnings við útflutningsiðnaðinn, en yfirleitt ekki verið mikið gert. Hann sagði, að það væri yfirleitt stefnan að leyfa ekki útflutning á hálfunnum vörum, ef hægt væri að framleiða þær innanlands með eðlilegum hætti. Þetta er nákvæmlega mergurinn málsins. Það er ekki hægt að framleiða ýmsar útflutningsiðnaðarvörur í landinu með eðlilegum hætti vegna þess, að það verðlag, sem við þurfum að bjóða þessar vörur fyrir á erlendum mörkuðum, stenst ekki samkeppni við aðrar þjóðir, jafnvel þó að þær þjóðir hafi keypt hráefnið af okkur og framleiði síðan sjálfar. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt atriði. Sumpart er þetta sjálfsagt vegna þess, að okkar ungi útflutningsiðnaður er ekki búinn að ná þeirri tækni, sem aðrar þjóðir eru búnar að ná, en svo eru það hins vegar heimatilbúnir erfiðleikar.

Ég sakna þess að heyra ekki frá hæstv. ráðh., til hvaða ráða hæstv. ríkisstj. hyggst grípa í þessum efnum. Ég er ákaflega hræddur um, að enda þótt það hafi orðið aukning á milli áranna 1972 og 1973 og nokkur verðhækkun, þá verði enn þá erfiðari róðurinn nú á árinu 1974, og ég raunar veit það. Og það eru þessir fyrirsjáanlegu erfiðleikar, sem nú eru að koma yfir sem óðast, sem gera það að verkum, að þeir sem eru að fást við útflutning á iðnaðarvörum nú, eru að komast í strand. Það eru að koma þau mörk, að það er ekki hægt að selja, hvorki lagmetisiðnaðarvörur, fatnaðarvörur né ýmsar aðrar iðnaðarvörur, eingöngu vegna þessara erfiðleika. Þess vegna hef ég óskað eftir að fá að vita, hvenær sé líklegt, að viðhlítandi ráðstafanir verði gerðar og í hvaða formi, en um þetta heyrði ég því miður ekkert frá hæstv. viðskrh.