30.10.1973
Sameinað þing: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1974

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér kom það afskaplega mikið á óvart að heyra, hvernig hv. síðasti ræðumaður, 7. landsk. þm., byrjaði sína ræðu, og ætti hann þó að vera kunnugur í verkalýðshreyfingunni, þegar hann er að halda því hér fram, að kjör þeirra lægst launuðu hafi hækkað svo og svo mikið — rauntekjur þeirra lægst launuðu — í tíð núv. ríkisstj. Verkalýðshreyfingin fer fram á yfir 40% hækkun á lægstu launin. Það segir sína sögu. (Gripið fram í.) Já, það er rétt, plús það, sem krafist er fyrir fiskvinnu. Þetta sýnir, svo að ekki verður um villst, að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar meta stöðuna þannig, sem allt það, sem vannst með samningunum 1971, hafi verið étið upp í verðbólgunni. Að öðrum kosti væri það að sjálfsögðu óverjandi af verkalýðshreyfingunni að setja fram kröfur um 40% kauphækkun nú. Þetta gefur að sjálfsögðu auga leið, og ég er þess vegna afskaplega undrandi á því, að þessi maður, sem telur sig verkalýðsleiðtoga og telur sig kunnugan því, hvernig fólkið lifir í þessu landi, skuli ekki vita betur, að hann skuli líta þetta sömu augum og grósserarnir með stórsigarana.