19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

216. mál, bankaútibú í Ólfsvík eða á Hellissandi

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er um í fyrsta lagi, hvað valdi því, að ekkert hinna 57 útibúa er í jafnmiklum framleiðslubyggðum og í Ólafsvík eða á Hellissandi. Ástæðurnar munu vera þær, að það hafa ekki komið fram neinar formlegar beiðnir, hvorki frá viðskiptabönkunum né öðrum aðilum, um að setja upp bankaútibú á þessum stöðum. Það mun hafa verið hafður sá háttur á yfirleitt, að bankaútibú hafa verið ákveðin af bönkunum sjálfum eða með þeim hætti, að þeir hafa óskað eftir heimild til að setja upp bankaútibú, og síðan hefur verið á valdi Seðlabankans og bankamrh. að segja til um það, hvort bankarnir fengju leyfi til að setja upp bankaútibú. En nú er einmitt unnið að því, m.a. með þeim tillögum, sem fyrir liggja og væntanlega koma fyrir Alþingi næstu daga í frv.-formi, að taka nokkuð öðrum tökum á þessum málum, þ.e.a.s. að búa sig undir að skipuleggja á nýjan hátt útibúakerfi bankanna, þannig að það verði ekki með þeim hætti, sem verið hefur, þar sem þeir stríða í rauninni um það, hvar þeir hafi útibú og hvar þeir hafi ekki útibú, eins og nú á sér stað.

Ég vil taka fram, að það er skoðun mín, að á margan hátt hefði verið æskilegt, að það hefði verið a.m.k. eitt myndarlegt bankaútibú, sem tekið hefði að sér sem meginverkefni allt Snæfellsnesið og alla þá starfsemi, sem þar er, sem viðskiptabanki með fleiri afgreiðslustöðum. En þetta svæði er á margan hátt dæmigert um það, hvernig ástandið er í þessum efnum í okkar bankamálum. Einn af ríkisbönkunum hefur á þessu svæði útibú, þ.e.a.s. Búnaðarbankinn í Stykkishólmi, og auk þess er svo Samvinnubankinn með útibú í Grundarfirði. En hinir bankarnir, ríkisviðskiptabankarnir, Útvegsbankinn og Landsbankinn, munu hafa mikinn meiri hluta af bankaviðskiptum þessa svæðis á sínum vegum, en ekkert útibú.

Það fer raunverulega fram viss togstreita innan bankakerfisins um, hver eigi að sinna þessu eða hinu svæðinu og hver eigi að hafa rétt til að vera með útibú eða opna bankastarfsemi á viðkomandi svæðum. Það er þetta, sem þarf að taka til lausnar án þess að fá það út úr þessum málum, sem því miður hefur komið fyrir áður, að fá áður en varir þrjá, fjóra eða jafnvel enn fleiri banka á einum tiltölulega litlum stað, en svo engan á mörgum öðrum.

Ég viðurkenni, að þeir staðir, sem hér eru nefndir, Ólafsvík og Hellissandur, eru svo þýðingarmiklir framleiðslustaðir, að það væri fullkomlega eðlilegt, að þar væri bankaútibú eða ígildi þess frá myndarlegu útibúi á þessu svæði, þannig að öll bankaþjónusta gæti farið þar fram á lipurlegan og eðlilegan hátt.

Annar liður spurningarinnar er um það, hvort ég sem ráðherra vilji beita mér fyrir því, að þarna verði gerð bót á og komið upp útibúum á þessum svæðum. Því hef ég í rauninni svarað og tel, að með þeim tillögum, sem nú er verið að gera um breytt skipulag ríkisviðskiptabankanna, eigi að vera hægt að ná tökum á þessu máli, þannig að það ætti að vera hægt að tryggja, að staðir eins og þessi fái bankaútibú eða jafngildi þess og að hægt sé að losna við þó nokkuð af þeirri óþægilegu togstreitu, sem á sér stað í bankakerfinu á þessu sviði. Ég hygg, að aðalástæðan til þess, að þarna er ekki komið upp útibú, sé sú, að bankarnir sjálfir hafa ekki gert neinar tillögur um það.