19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

216. mál, bankaútibú í Ólfsvík eða á Hellissandi

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju yfir því, að þetta mál skuli hafa komið hér fram í fyrirspurnarformi. Þetta er stórt mál fyrir okkur Snæfellinga á Útnesinu og hefur lengi verið í brennidepli.

Eins og fram hefur komið, er þannig háttað á utanverðu nesinu, að þar er mikil og vaxandi útgerð og mikil fiskvinnsla og mikil framleiðsla. Er þar um að ræða útflutningsframleiðslu, sem nemur hundruðum millj., sem fara í gegnum hendur þessara aðila á hverju ári. En öll þessi viðskipti og alla þá fyrirgreiðslu, sem þessi þjónusta þarf að fá og þessi framleiðsla verður að sækja til Landsbanka Íslands, sem er aðalviðskiptabanki, með því að fara til Reykjavíkur. Og þannig er ástatt, að það er ekki einu sinni til peningageymsla. Mér er kunnugt um, að það hefur verið sótt um það til Seðlabankans frá hendi Sparisjóðsins, að sett verði upp seðlageymsla í Ólafsvík, en því hefur ekki verið sinnt.

Það er talað um það hér, að ekki hafi verið sótt um þessa fyrirgreiðslu frá aðilum á þessum stöðum. Þetta er ekki rétt. Bæði útgerðarmenn og fiskverkendur hafa sent bréf um þetta efni til Landsbanka Íslands. En þannig hittist á, að einmitt þegar það var gert, var í gangi hin svokallaða bankamálanefnd, og var ekki talið eðlilegt að taka þetta mál til afgreiðslu, fyrr en þær niðurstöður lægju fyrir. Enn fremur vil ég segja frá því hér, að sveitarstjórinn í Ólafsvík hefur óskað eftir því við stjórn Sparisjóðsins, að hann tæki upp eða hefði frumkvæði um það að taka upp viðræður við Landsbanka Íslands um framtíðarskipan bankamála á utanverðu Snæfellsnesi með bankaútibú sem takmark. Það er mjög mikilvægt, að þarna takist vel til, og við teljum, að það væri æskilegast, að sparisjóðirnir á þessu svæði mynduðu þessa forustu og sæju um leið um það í samningnum, að þegar bankaútibú kæmi frá Landsbankanum, þá fengist ekki minni þjónusta í ýmsum smærri greinum en sparisjóðirnir eru nú færir um að veita, svo sem lán til húsbyggjenda.

Ég vænti þess, að þetta mál fái ítarlega skoðun og fái þann framgang, sem æskilegastur er og í samræmi við þær framfarir og atvinnuþróun, sem augljóslega er á þessu svæði.