20.02.1974
Efri deild: 59. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Vestf., hér áðan, urðu allmargir vestfirskir línubátar fyrir veiðarfæratjóni s.l. laugardag, 16. febr., norðan Víkuráls, norðvestur af Kóp, 35–15 sjómílur undan landi. Varðskip, sem við gæslu var við Vestfirði, var þá um morguninn statt við Hornbjargsvita með vistir og vitavörð, sem þar átti að fara í land. Kom kall frá línubátunum við Víkurál laust fyrir kl. 10 um morguninn um, að breskir togarar væru að toga yfir línur þeirra. Varðskipið hafði þá strax samband við eftirlitsskipið Miröndu og skýrði frá atburðum; og kvaðst hún mundu koma þessum ábendingum áleiðis til togaranna, að þeir væru að skemma veiðarfæri og væru beðnir að halda sig frá línubátunum. Varðskipið kom svo á svæðið kl. 19.20, og voru þá á um 40 fermílna svæði 18 breskir togarar, Miranda og 4 íslenskir línubátar að auki, sem voru að ljúka drætti, og nokkru vestar voru þrír línubátar að auki, alls 7 línubátar. Gáfu bátarnir varðskipinu upp veiðarfæratjón sitt og voru þeir af varðskipinu hvattir til að gefa sem fyrst skýrslu fyrir dómi um atburðina og veiðarfæratjón sitt, þannig að koma mætti á framfæri með sem skýrustum hætti umkvörtunum og bótakröfum.

Þegar þetta gerðist, voru 5 varðskip á sjó, eitt við Suðvesturland, eitt við Suðausturland, eitt fyrir miðju Norðurlandi, áðurnefnt skip við Vestfirði, varðskipið Þór, og eitt við stauraflutninga vegna símabilunar. Fyrir s.l. áramót, þegar árekstrar urðu við Vestfirði hvað mestir, voru um alllangt bil að jafnaði tvö varðskip við Vestfirði. Það má kannske segja, að nú eftir áramótin hafi lengst af ekki verið nema eitt varðskip þar, enda er mér tjáð, að það hafi verið fremur atburðalítið þar á þeim tíma, enda hafa veður einnig verið mjög erfið. En þó er það svo, að í febrúarmánuði hafa verið til 20. þ.m., eitt til tvö varðskip allan þann tíma, þó að það hafi stundum og eins og þarna stóð á ekki verið nema eitt varðskip.

Það þarf sjálfsagt ekki að fara mörgum orðum um það hér eða benda hv. alþm. á, að varðskipin hafa allajafna æðimörgum verkefnum að sinna, né heldur á það, hver nauðsyn hefur verið á því undangenginn mánaðartíma og verður enn um sinn að halda uppi stöðugri öryggisgæslu vegna veiðiskipa við loðnuveiðarnar, því að það hefur því miður komið fyrir og á það reynt, að það hefur þurft að aðstoða skip, sem þar hafa lent í vanda af ýmsum ástæðum, stundum kannske vegna þess, að hleðsla hefur verið fullmikil og veður verið misjöfn, eins og gengur. Auk þess fer sá tími í hönd, að vertíð færist með eðlilegum hætti í aukana allt umhverfis landið, og þá er ekki hægt að komast hjá því að láta varðskip, eftir því sem kostur er, vera þar nálægt til aðstoðar, ef á þarf að halda.

Það er fullkominn misskilningur, ef einhver skyldi halda, að hér væri um alveg nýtt vandamál að ræða, árekstra nú á milli togveiða og báta með línu- og netaveiði. Og það er ekkert nýtt fyrirbæri við Vestfirði, að því er línuveiðar varðar. Það hefur gerst oft áður. Og það er ekki heldur og hefur ekki heldur verið bundið við Vestfirði. Ég minnist þess t.d. sérstaklega, að fyrir allmörgum árum skeði það, að stórkostlegar kvartanir bárust frá bátum hér við Suðurlandið yfir því, að íslenskir togarar hefðu farið yfir veiðarfæri bátanna og eyðilagt þau í stórum stíl.

Við skulum vona, að hér sé yfirleitt um að ræða aðeins yfirtroðslur breskra togara. Hitt er þó staðreynd, að veiðiskip, með hvaða veiðarfæri sem þau eru, sækja allajafna þangað, sem fiskurinn er, og þess vegna hafa þessir árekstrar oft og einatt átt sér stað, sem auðvitað ber að harma. En það er sennilega ekki gott að koma algerlega í veg fyrir þá, nema því aðeins að hægt sé að koma sér saman um eitthvert nýtt fyrirkomulag í þessum efnum og þá með þeim hætti, að bátarnir hafi meira afmörkuð veiðisvæði. En það er rétt, eins og fram kom áðan hjá þeim, sem töluðu, að það er dálítið erfitt sjálfsagt að koma því við fyrir Vestfjörðum, einmitt af því að bátarnir sækja og hafa jafnan sótt mjög langt út.

Ég held, að það sé alger óþarfi að fara að blanda inn í þetta mál bráðabirgðasamningnum við Breta. Þó að það sé rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, að við samningana 1961 hafi verið undanskilin ákveðin svæði, sem bátar einir máttu veiða á, en breskum togurum var meinað að fara inn á, þá var þar aðeins um að ræða svæði á milli 6 og 12 sjómílna, landhelgin þá var ekki stærri en 12 sjómílur. En það er staðreynd, að við þessa atburði voru bátarnir staddir, eins og segir í skýrslu frá Landhelgisgæslunni, sem ég hef undir höndum, og merkt er inn á kort, 36–45 sjómílur undan landi, svo að það hefði verið lítil stoð að jafnvel hliðstæðu ákvæði og var í samningnum frá 1961. En ég held, að við ættum ekki að blanda þessum bráðabirgða landhelgissamningi inn í þetta mál. Ég tel víst, að hv. 5. þm. Vestf. telji ekki sérstaka þörf á því. Hann hefur undirstrikað, hvaða sjónarmið hann hafi í því máli, og það liggur skjalfest í Alþingistíðindum, og þar með ætti hann vel við að una að hafa fríað sig alveg af því máli og reist sér þar minnisvarða, sem verður sjálfsagt eftir tekið í framtíðinni.

Annars er það um sókn breskra togara fyrir Vestfjörðum í febrúar að segja, að hún hefur verið þannig samkv. upplýsingum Landhelgisgæslunnar, að við landið allt hafa að meðaltali á dag verið 39 togarar breskir, þar af hafa 26 að meðaltali á dag verið við Vestfirði. Því miður eru ekki fyrir hendi sambærilegar tölur frá febrúarmánuði 1973, af því að þá voru varðskipin öðrum verkefnum að sinna, þau voru á bundin við Vestmannaeyjar. En mér er nær að halda, að fáir muni efast um það, að þá hafi fjöldi breskra togara verið æðimiklu meiri fyrir Vestfjörðum en nú.

En þó að það sé svo, eins og ég sagði, að við gerum ráð fyrir því, að hér sé yfirleitt um yfirtroðslur af hálfu breskra togara að ræða, þá skulum við ekki heldur gleyma því, að við höfum verið og erum að fjölga okkar íslensku togskipum í ríkum mæli, og þess vegna er ekki hægt að girða fyrir, að það komi til einhverra árekstra milli þeirra og þeirra báta, sem stunda línuveiðar.

Ég harma að sjálfsögðu þennan atburð og legg áherslu á, og það var þegar lögð áhersla á það frá varðskipinu og hefur verið lögð áhersla á það af hálfu dómsmrn., að sem gleggstar skýrslur komi fram um þessa atburði.

Það liggur fyrir í skýrslu Landhelgisgæslunnar, hvert það veiðarfæratjón var, sem bátarnir töldu sig hafa orðið fyrir. Samkv. þeirri skýrslu er það Kristján Guðmundsson, Súgandafirði, sem taldi sig missa 32 lóðir, Sigurvon, Súgandafirði, 32 lóðir, Fjölnir, líklega Þingeyri, 16 lóðir, Sólrún, Bolungarvík, sem mest hefur misst, 50 lóðir, Vestri, Patreksfirði, 8 lóðir, Framnes, Þingeyri, 8 lóðir, og mun reyndar hafa talið sig hafa misst 15, febr. aftur 24 lóðir, og svo Jón Þórðarson, Patreksfirði, hann mun ekki hafa misst neitt 16., en 15. febr. taldi hann sig hafa misst 8 lóðir.

Ég efast ekki um, að þarna sé algjörlega rétt frá skýrt af bátanna hálfu. En til þess að hægt sé að koma fram skaðabótakröfum og rökstuddum umkvörtunum, þarf að undirbyggja mál þar um með sem bestum hætti, og þess vegna er nauðsynlegt, að stjórnendur báta, sem orðið hafa fyrir tjóni, mæti fyrir dómi og þar séu skýrslur teknar af þeim.

Í morgun, þegar haft var samband bæði við sýslumanninn á Patreksfirði og bæjarfógetann á Ísafirði, hafði enginn skipstjóranna mætt þar til þess að gefa þvílíka skýrslu. (Gripið fram í: Þeir voru á sjónum.) Það er sjálfsagt afsakanlegt, þeir stunda sjóinn fast, og það getur verið erfitt fyrir þá að koma þessu við. Eigi að síður verð ég að segja, að það er mjög nauðsynlegt, að þeir geri það, því að það gefur auga leið, að það getur orðið erfitt að koma fram kröfum, nema þær séu réttilega þannig undirbyggðar, og það því fremur, sem því ber ekki saman, sem skipstjórar bátanna segja, og svo aftur því, sem togaraskipstjórar bera fram, samkv. þessari skýrslu, sem frá Landhelgisgæslunni kemur. Skilaboðin, sem komu til varðskipsins Þórs frá togurunum í gegnum Miröndu, voru þau, að þeir hefðu ekki togað yfir nein veiðarfæri, þeir hefðu verið á þessu svæði síðustu 36 stundirnar, en línubátar hefðu nú lagt á þeirra svæði. Það er fjarri því, að ég sé með þessu að draga á nokkurn hátt í efa frásagnir hinna vestfirsku skipstjóra. Þetta er eigi að síður staðreynd, að þarna ber ekki saman þeim aðilum, sem hlut eiga að máli. Því segi ég það enn og aftur, að það verður ekki nógsamlega brýnt fyrir þessum aðilum að fara réttar boðleiðir í þessum efnum, en þær eru auðvitað þær að kæra til varðskips, sem næst er statt, en svo líka að kæra til dómsmrn. og senda því skýrslur og umkvartanir og gefa skýrslu fyrir dómi. En ég verð að segja það alveg eins og er, að mér virðist, virtist það í vetur líka, þegar engin kæra barst til dómsmrn. út af þeim ágangi, sem þeir töldu sig þá verða fyrir, að þeir hafi frekar þann hátt á, hvort sem þeir eiga upptökin að því eða aðrir, að láta birta viðtal við sig í útvarpi eða senda blöðum fregnir um þetta. Það getur út af fyrir sig verið ágætt til síns brúks að vekja athygli á málunum þannig, en ég hygg, að hitt væri ekki síður líklegt til árangurs.

Ég leyfi mér sem sagt að endurtaka, að ég legg áherslu á, að sem gleggstar skýrslur verði gerðar um þessa atburði, en lýsi því jafnframt yfir, að ég mun taka upp viðræður við sjútvrn. um mögulegar aðgerðir, — varnaraðgerðir skulum við segja, — og þá t.d., hvort geti komið til greina frekari afmörkun veiðisvæða. Auðvitað mun Landhelgisgæslan leggja áherslu á og reyna, eftir því sem best má verða, að vera íslensku veiðiskipunum til aðstoðar. Og það mun einnig verða lögð áhersla á að hafa samband við bresk stjórnvöld um þetta og reyna að fá togara til að haga sínum veiðum á þann hátt, að þeir reyni að forðast það að valda tjóni á veiðarfærum hátanna. Ég vil ekki ætla neinum svo illt, hvorki innlendum né erlendum, ekki heldur Bretum, að þeir af ásettu ráði vilji beinlínis fara að eyðileggja veiðarfærin. En það getur verið, að þarna komi til árekstra, vegna þess að þeim sé ekki kynnt fyrir fram, hvar línan liggur í sjó, ekki kannske um nægilegar merkingar að tefla o.s.framvegis.

Ég held, að við þurfum að hyggja að öllum þessum atriðum og reyna með þeim hætti, sem nokkur kostur er, að afstýra því, að svona árekstrar eigi sér stað. Það verður sjálfsagt erfitt að koma algerlega í veg fyrir, að það geti komið til slíkra árekstra og þá, að ég vil vona, frekar vegna þess, að um slysni sé að ræða en beinan ásetning. En þá er sjálfsagt að reyna að koma fram bótakröfum og ekki nema sanngjarnt, að þeir greiði bætur, sem þannig valda tjóni á veiðarfærum.

Það var minnst á bréf frá Bylgjunni, og var sagt, að það hefði verið sent sjútvrn. Ég kannast ekki við að hafa fengið nein bréf þarna að vestan varðandi þetta og yfirleitt ekki dómsmrn., og þessi ályktun, sem var sagt að mundi verða send, er, að ég best veit, ekki komin til dómsmrn. En mér heyrðist hv. 5. þm. Vestf. skýra frá því, að í dag eða gær hefði verið gerð einhver samþykkt þar um, en hún kemur þá væntanlega og verður tekin til athugunar.

Það er sjálfsagt að taka þessi mál til athugunar, og ég vil reyna að gera mitt til þess, að það sé hægt að rétta hlut manna, sem orðið hafa fyrir skakkaföllum í þessu sambandi, og jafnframt vinna að því, ef mögulegt er, að hægt sé að koma á þarna einhverju fyrirkomulagi, sem gæti dregið úr líkunum á því, að til svona árekstra komi, og legg ég enn áherslu á, að það er nauðsynlegt, að þessir aðilar snúi sér til réttra stjórnvalda og mælist til þess við þau.

Eins og ég sagði áðan, voru 5 varðskip á sjó, þegar þetta skeði. Vonandi geta þau orðið eitthvað fleiri, og þá verður reynt, eins og ég sagði, að auka gæsluna fyrir Vestfjörðum, enda þótt menn verði að skilja þá staðreynd, að það verður að gæta að víða, ekki bara til vörslu, heldur líka til öryggis, því að á þessum tíma, alveg sérstaklega meðan loðnuveiðarnar standa yfir, er óhjákvæmilegt, að verið sé á varðbergi.

Ég vona, að þessar upplýsingar, sem ég hef hér tiltækar og hef hér gefið frá Landhelgisgæslunni, geti að nokkru upplýst það, sem hv. fyrirspyrjandi spurðist fyrir um, og viðvíkjandi áskorun hans um, að reynt yrði að gera það, sem hægt væri, þá tek ég að sjálfsögðu jákvætt undir það, að bað verði reynt.