20.02.1974
Efri deild: 59. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svar hans við fsp. minni. Hæstv. ráðh. kom nokkuð víða við í sínu svari, og er síst að lasta það. Hann benti á, að varðskipin og Landhelgisgæslan hefðu mörgum störfum að sinna, og gerði grein fyrir, hvernig hefði verið háttað verkefnum varðskipanna á laugardaginn var, þegar sá atburður varð á Vestfjarðamiðum, sem er tilefni fsp. minnar. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við hans ummæli eða skýrslu í þessum efnum að athuga. Ég efast ekki um, að þar sé rétt greint frá.

Það er gott að vita þetta, og af þessu má draga nokkrar ályktanir. En áður en lengra er haldið, vil ég víkja að nokkrum öðrum atriðum, sem hv. ráðh. vék að. Hann sagði, að þeir atburðir, sem skeð hefðu s.l. laugardag á Vestfjarðamiðum, væru ekki nýtt vandamál, slíkt hefði komið fyrir áður, og auðvitað er það rétt. Hér er ekki um nýtt vandamál að ræða í þeirri merkingu, að áþekkir atburðir hafi aldrei skeð áður.

Víð eigum langa sögu af árekstrum á miðunum og sérstaklega árekstrum við Breta. Hæstv. ráðh. sagði, að hann vildi ekki ætla neinum svo illt, að hann af ásettu ráði stofnaði til slíkra athurða og árekstra. Ég held, að það verði að taka þessi ummæli hæstv. ráðh. með nokkrum fyrirvara. Við megum ekki gleyma sögunni í þessu sambandi. Við þekkjum svo mörg dæmi um grímulaust ofbeldi og yfirgang breskra togara gagnvart landsmönnum og okkar fiskimönnum, að ég held, að það sé óþarfi hér á hv. Alþ. að gefa slíkar yfirlýsingar, að það sé útilokað, að hér geti verið um viljaverk að ræða. — Ég ætla ekki að fara að rekja þetta. Það tilheyrir Íslandssögunni atburðurinn þegar vegið var að sýslumanni Ísfirðinga, Hannesi Hafstein, á sínum tíma í Dýrafirði. Og það er hægt að greina frá mörgum atburðum nokkuð í þá átt. En ég ætla ekki að gera slíkt.

Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., sem hann kom inn á, að það þyrfti að gera ráðstafanir til þess að skipta veiðisvæðunum og vernda sum vegna línuveiðanna. Þetta er það, sem nauðsynlegt er að gera. Og það er gert ráð fyrir því í l., sem tóku gildi varðandi friðunarmálin 1. jan. s.l., að þetta sé gert. Ég vitnaði áðan í bréf frá fiskideildinni Tálkna á Patreksfirði til sjútvrh. og gat þess, að það bréf væri skrifað 3. þ.m. En einmitt í þessu bréfi er þess farið á leit við hæstv. sjútvrh., að notuð verði heimild í l. um friðun fyrir togveiðum á línubátasvæðum. Heimamönnum vestra þykir hafa orðið nokkur dráttur á afgreiðslu þessa máls, og mér finnst rétt að nota þetta tækifæri til að óska eftir, að hæstv. forsrh. inni nú félaga sinn, hæstv. sjútvrh., eftir þessu máli og leggi lið í þá átt að flýta afgreiðslu þessa máls.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að hugleiðingum hæstv. ráðh. um það, hvernig menn eigi að haga sér, sem verða fyrir þessum ágangi bresku togaranna. Hann gat um, að skipstjórarnir, sem s.l. laugardag urðu fyrir ofbeldi Bretanna, hefðu ekki komið fyrir rétt enn þá. Þeir þurfa að fara nokkurn veg, og það eru ekki greiðar samgöngur til Ísafjarðar og naumast hægt að fara nema sjóleiðina. Það mundi þýða, að það féllu niður sjóferðir hjá þessum bátum, ef skipstjórar þeirra tækju sér á hendur ferð til Ísafjarðar. Nú vill svo til, að einmitt í þessum mánuði hefur verið aftaka gæftaleysi, svo að ég hygg, að það sé ekki hægt að finna þessum skipstjórum til foráttu, þó að þeir hyggist nota næsta dag, er ekki gefur á sjó, eða verkfallið, sem búið er að boða, til þess að sinna betur þessum málum. Ég hygg, að þeir tapi engum rétti við það og það sé óþarfi að gera því skóna, að þeir hafi ekki fullan áhuga á því að koma sínum málum á framfæri við rétta aðila.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði komið í ljós, að mönnum bæri ekki saman, þegar slíkir atburðir yrðu eins og s.l. laugardag á Vestfjarðamiðum. Ég hygg, að það sé ekki í frásögur færandi. Ég hygg, að í flestum slíkum tilfellum beri mönnum ekki saman. Þeim, sem beita aðra ofbeldi og yfirgangi, er yfirleitt ekki tamt að viðurkenna staðreyndirnar og viðurkenna sig seka. Og auðvitað er það eins í þessu sambandi og mörgum öðrum áþekkum.

Þá vék hæstv. dómsmrh. að því, að ekki væri ástæða til þess að blanda þessu máli saman við landhelgissamninginn við Breta, sem við gerðum í nóv. Ég er honum algerlega sammála um þetta, enda tók ég það sjálfur fram í ræðu minni áðan, að ég ætlaði ekki að fara að ræða þessi mál. Ég aðeins vék í einni setningu eða svo að þessu máli til þess að leggja áherslu á það, að samningurinn væri orsök þess vanda, sem vestfirskir fiskimenn lentu í s.l. laugardag, vegna þess að með samningnum hefði Bretum verið hleypt inn í landhelgina. Í öðru sambandi ætla ég ekki að ræða þetta. En ég sagði og lagði mikla áherslu á, að það yrði að viðurkenna sérstöðu Vestfjarða, það yrði að viðurkenna það, hve háðir þeir eru umfram aðra landsmenn sjávarútveginum og hve þjóðarframleiðslan í heild á mikið undir því, að þar verði ekki brestur á. Og ég sagði, að þessi sérstaða hefði stundum verið viðurkennd og stundum ekki, hún hefði verið viðurkennd, þegar landhelgissamningarnir voru gerðir 1961, en ekki viðurkennd, þegar samningurinn var gerður nú í haust. Þetta eru staðreyndir, sem við skulum ekki deila um. Það er ekki hægt að deila um þetta. Þess vegna var það næsta tillitslaust, sem hæstv. dómsmrh. sagði í þá átt, að þetta skipti ekki máli. Þetta mundi enginn Vestfirðingur geta skilið, að það skipti ekki máli mismunurinn á landhelgissamningunum 1961 og 1973. Ég ætla ekki að fara að tefja hér tímann með því að fara að útlista þennan mun hér. Ég hygg að allir hv. dm. skilji þetta, og raunar efast ég ekki um, að hæstv. dómsmrh. skilji, að hér er um mismun að ræða.

Ég er þakklátur hæstv. dómsmrh. fyrir að vilja beita áhrifum sínum til þess, eins og hann sagði, að sjútvrn. beitti sér fyrir afmörkun veiðisvæða. Ég er einnig þakklátur fyrir það, sem hann sagði, að Landhelgisgæslan mundi gera allt eftir bestu getu varðandi þessi vandamál Vestfirðinga, — allt eftir bestu getu. Ég hef raunar ekki efast um, að hæstv. dómsmrh. væri velviljaður í þessu máli og vildi gera allt eftir bestu getu. En það er ekki nægilegt að segja þetta. Það verður að skapa möguleika til þess, að það sé hægt að halda uppi öflugri gæslu fyrir Vestfjörðum en gert hefur verið. Og ef geta er ekki til þess í dag, af hvaða ástæðum sem það er, þá verður að bæta úr því. Vestfirðingar eiga siðferðislega kröfu til hæstv. núv. ríkisstj., að hún sinni þessu verkefni, vegna þess að það er hún, sem ber ábyrgð á þeim vanda, sem hlýst af því, að ekki var viðurkennd hin sérstaka aðstaða Vestfjarða í sambandi við landhelgissamninginn. Ríkisstj. ber, fyrst hún vildi ekki viðurkenna sérstöðu Vestfirðinga við samningsgerðina, að viðurkenna sérstöðu Vestfirðinga við framkvæmd samningsins, og það er mergur málsins nú. Við skulum ekki deila hér um það, sem búið er og gert. Við skulum heldur beina athyglinni að framkvæmd samningsins, framkvæmd þessara mála. Og ég vænti þess, að hæstv. dómsmrh og forsrh. beiti nú áhrifum sínum til þess, að svo megi verða, að nokkuð verði bætt úr þeim áföllum, sem Vestfirðingar hafa hlotið af landhelgissamningum 1973.