20.02.1974
Efri deild: 59. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

162. mál, ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Ákvæði þess frv., sem hér er til umr., má telja að sé nýmæli í íslenskri löggjöf. Í 1, gr. frv. segir:

„Ríkið ábyrgist samkv. lögum þessum greiðslu á launakröfum á hendur vinnuveitanda, sem úrskurðaður hefur verið gjaldþrota.“

Í 2. gr. frv. eru svo fyrirmæli um það, til hverra launa frv. taki. Eru það vinnulaun, sem forgangsréttur fylgir samkv. ákvæðum í skiptal. frá 1878, og eru þar tilgreind nánar. Ábyrgð ríkissjóðs tekur einungis til kröfu, sem lýst hefur verið lögformlega við gjaldþrotaskipti, þ.e. komið fram við innköllun skulda í gjaldþrotabú. Félmrn. innir greiðslur af hendi samkv. lögunum. Nánari reglur eru settar um framkvæmdina, og sýnast þær vera með eðlilegum hætti.2 umf.

Sams konar löggjöf og hér er á ferð hjá okkur er komin á bæði í Svíþjóð og í Danmörku, og í Noregi er í undirbúningi löggjöf um sama efni eða líkt. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir sérstökum skatti til að standa undir greiðslum ríkissjóðs, en bæði dönsku og sænsku lögin hafa ákvæði um, að atvinnurekendur greiði skatt í þessu skyni, en hjá okkur á ríkissjóður að standa undir þessum launagreiðslum. Þessi skipan þykir í raun og veru, eins og á stendur og við upphaf þessarar löggjafar og fyrstu framkvæmd, einföld og ekki eins kostnaðarsöm og það væri að leggja á sérstakan skatt til innheimtu, þótt að sjálfsögðu geti til þess komið síðar.

Ég veit ekki til þess, að fyrir liggi neinar skýrslur eða sérstakar athuganir á því, hve háar slíkar greiðslur kynnu að vera, miðað við gjaldþrotabú og launagreiðslur í sambandi við þau bú. Að sjálfsögðu fer það mjög eftir því, hvernig atvinnuvegum okkar gengur hverju sinni. Það þarf að minni hyggju ekki að búast við því, að þessar greiðslur verði sérstaklega umfangsmiklar fyrsta kastið og eins og á stendur í þjóðfélaginu. Hins vegar mætti gera ráð fyrir því, ef verr áraði, og þá yrði að hafa hliðsjón af því og íhuga þá væntanlega um skatt í þessu formi. En það er von mín og annarra, sem hafa fjallað um þetta mál, að til þess komi ekki, að þetta verði sérstaklega þungur baggi. En hér er oft um mjög nauðsynlegar greiðslur að ræða, sem vinnuveitandinn hefur ekki getað innt af höndum, og þá kemur ríkissjóður þar til skjalanna og leysir út laun til viðkomandi launþega.

Félmn. þessarar d. sendi þetta frv. til umsagnar Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands. Umsögn barst frá Vinnuveitendasambandinu, þar sem það mælir eindregið með samþykkt frv. Hins vegar hefur A.S.Í. ekki sent umsögn til n, þrátt fyrir beiðni þar um. En okkur í n. þótti ekki vera rík ástæða til að draga þetta mál á langinn fyrir þá sök, að það vantaði umsögn, vegna þess að við gerðum ráð fyrir því, að Alþýðusamband Íslands hefði ekki á móti framgangi þessa frv. Því leggur félmn. d. einróma til, að frv. verði samþ., en með breyt. um gildistökutíma, þannig að frv. taki lagagildi, þegar það hefur verið staðfest af réttum aðilum, og er þeirrar breytingar getið í nái. félmn.