20.02.1974
Neðri deild: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram þegar í upphafi, að ég er sammála þeirri aðferð, sem í þessu frv. er lagt til, að viðhöfð verði, að leggja á 5% útflutningsgjald af fob.-verði loðnuafurða framleiddra á árinu 1974 til þess að verja til niðurgreiðslu á olíu til fiskiskipa.

Sú skoðun hefur raunar komið fram, að þetta væri ekki með öllu eðlileg aðferð, þar sem aðeins hluta af fiskiskipaflotanum eða þeim aðilum, sem veiða og verka loðnu, er gert að greiða þetta gjald, til þess að flotinn í heild sinni njóti góðs af. Ég vil taka það fram, að sem einhver regla getur þetta auðvitað ekki gilt, en í þessu tilfelli sýnist mér þetta alveg réttlætanlegt. Það verður tæplega talið, að þetta mikla happ og þessi miklu uppgrip, sem loðnuveiðin er, ný uppgrip að kalla, eigi að teljast happ einvörðungu til viss hluta af útgerð og fiskvinnslu í landinu, heldur verður að líta á þetta sem happ fyrir þjóðfélagið í heild, og þeir, sem skyndilega bera mikið úr býtum, verða að sjá af hluta þess til samfélagsþjónustunnar, svo sem eins og hátekjumenn verða að bera þyngstu byrðarnar í sköttum og axla stærri hluta af samfélagsþjónustunni en hinir, sem minna bera úr býtum. Þess vegna er það og með sérstöku tilliti til þess, að hér hefur orðið samkomulag við viðkomandi aðila um þessa aðferð, þá er ég henni alveg fylgjandi.

En í sambandi við þetta mál væri ástæða til þess að orðfæra hér örfá atriði, sem snerta veiði og verkun loðnunnar. Allir hafa fylgst með því, bæði í fjölmiðlum og einnig hér í Alþ., hvað hefur átt sér stað undanfarið, þeir ógæfuatburðir, að sjómenn hafa neyðst til þess að dæla veiðiafla sínum í sjóinn aftur, vegna þess að þeir hafa ekki haft tök á því að selja hann til vinnslu. Slíkt ástand er auðvitað hið ömurlegasta ófremdarástand, enda þótt ég fái ekki séð, að það megi kenna neinum sérstökum einum aðila þar um. Ástæðan er kannske fyrst og fremst sú ókyrrð, sem nú er ríkjandi á vinnumarkaðnum. En ég held, að það liggi þó alveg ljóst fyrir, að nokkurt misferli, ef svo má segja, hafi átt sér stað varðandi loðnulöndunina, — misferli, sem reglurnar um loðnulöndunarnefnd áttu að girða fyrir. Ég hygg og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að þetta mál hafi veríð tekið til rannsóknar og unnið að leiðréttingu gagnvart þeim aðilum, sem þarna hafa farið óeðlilega að ráði sínu, svo að ekki sé meira sagt. Við væntum þess, að fljótlega kyrrist um á vinnumarkaðnum, samningar náist, þannig að vinnudeilur verði ekki til þess að torvelda eða kannske eyðileggja að einhverjum hluta fyrir okkur þennan verðmæta sjávarafla, sem við eigum annars í boði.

En ég vildi aðeins víkja að þeim þætti, sem snertir útflutning á loðnuafurðum. Það ástand er í hæsta máta örðugt, sem skapast hefur hér, að mjög hefur hangið í lausu lofti um verðlagningu á þessum afurðum erlendis. Bæði á þetta við um mjölið, og liggja þar til ákveðnar ástæður, að kaupendur hafa haldið nokkuð að sér höndum, vegna þess að þeir áttu von á, sem raunar hefur komið á daginn, að nokkrar breyt. yrðu þar á, sérstaklega með afstöðu Perú. En allt að einu er verðlag á þessum afurðum mjög hátt, lýsi og mjöli, þannig að afkoman ætti alla vega að verða mjög góð, enda þótt hún verði e.t.v. ekki eins góð og menn höfðu í upphafi gert sér vonir um.

Eins og menn vita, hafa Japanir verið kaupendur að frystri loðnu, og hefur sá útflutningur farið stórvaxandi á síðustu 3–4 árum. Ég hygg, að fyrsta árið, sem að marki má segja, að þeir hafi keypt af okkur frystar loðnuafurðir, hafi verið 1970. Síðan hefur þetta farið stórvaxandi og skiptir orðið verulegu máli sem útflutningsmarkaður. Aðalkaupandinn á liðnum árum hefur verið fyrirtæki, sem nefnt hefur verið Tokyo Maroitsi, og þeir samningar, sem við það fyrirtæki hafa verið gerðir, hafa reynst mjög hagkvæmir. En á undanförnum árum hefur orðið vart nokkurs ókyrrleika á markaðnum í Japan, þar sem annað fyrirtæki, Misvitsi, hefur greinilega gert til þess tilraunir og heppnast að sprengja þennan markað upp með sérstökum samningum við annan útflutningsaðila, þar sem ekki var ákveðið um verð á frystu loðnunni, heldur skyldi það vera miðað við að vera um 5% hærra en það verð, sem samdist um við Tokyo Maroitsi. Nú hefur þetta heppnast, og ýmisleg atriði í þessu sambandi eru þess virði, að þeim sé gefinn sérstakur gaumur. Spurningin er, hvort við þurfum ekki að fá á þessu sérstaka rannsókn. Tokyo Maroitsi lagði til. að í Japan yrði stofnað sameignarfyrirtæki Íslendinga og þeirra. Í nokkru þófi stóð um þetta um hríð. Till. þeirra voru þær, að þeir ættu 50%, útflutningsmiðstöð Sambands ísl. samvinnufélaga 25% og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna 25%. Þessi mál hafa komið í þann stað niður, að aðeins Sölumiðstöðin hefur gengið til þessa leiks, og þetta fyrirtæki hefur verið stofnað. Ég tek það fram, að ég hef ekki nægilegar upplýsingar í höndum til þess að fullyrða neitt um þetta mál, þess vegna er ég að ræða það og víkja að því, að e.t.v. þyrftum við að rannsaka þetta betur. Mér hefur skilist, að þetta sameignarfélag Sölumiðstöðvarinnar og Maroitsi í Japan, þeir samningar gangi ekki út á ákveðið verð, heldur skuli við það verð miðað, sem útflutningsmiðstöð SÍS og Norðmenn ná á þessum markaði. Ég veit ekki, hvort menn álíta, að þetta sé eðlilegur framgangstíll í þessum viðskiptamálum. Annað kemur til, sem hlýtur að vekja mjög athygli okkar, og það er stóraukið framboð Rússa á þessari vöru. Nú skilst mér, að þeir bjóði um 70 þús. smálestir, sem er nokkurn veginn talið vera það, sem neyslan í Japan verður á þessu ári. Er þó nokkur hætta á því, að hún kunni að verða minni vegna olíuskortsins. Að vísu er ekki um flokkun að marki að tefla hjá Rússum, þannig að verð er þar miklu lægra. Þar er einvörðungu miðað við 50% hrygnu af aflanum. Allt að einu er framboðið það mikið og verð með þeim hætti, að okkar markaðir hljóta að vera allmjög í hættu þarna, ég tala nú ekki um, ef Rússar tækju upp á því að flokka loðnuna. Þá er ég hræddur um, að við þyrftum að gá alveg sérstaklega að okkur.

Allur er þessi málatilbúnaður um söluna á Japansmarkaðnum með þeim hætti, að ég mundi vilja leggja til, að þetta mál yrði allt saman rannsakað ofan í kjölinn, hvernig þessi mál eru í pottinn búin.

Það er enn fremur ljóst, að það hefur mjög mikil áhrif á afstöðu Japana í sambandi við verðákvörðun á þessum afurðum, að þeir verða að senda skip sín af stað frá Japan að sækja afurðirnar; áður en framleiðslu er lokið í landinu, og t.d. fyrst í stað hygg ég, að útflutningsaðilarnir hér hafi orðið að ganga að því, ef það magn væri ekki fyrir hendi, þegar frystiskipin tækju hér land, að borga þá fragt, sem ella hefði nýst í því rúmi, sem autt yrði, þegar skipin sigldu til baka. Það er greinilegt, að það hefur mjög mikil áhrif á verðhugmyndir Japana, að þeir verða að senda flota sinn af stað að sækja þær, áður en tryggt er, að þær hafi verið framleiddar.

Þá komum við að því atriði, að það sýnist vera, ef við eigum að byggja mjög á þessum útflutningi, sem við hljótum að gera, að við þurfum að hugsa fyrir því að byggja frystigeymslur, þannig að geyma mætti loðnuna, þangað til Japönum þætti henta að sækja hana á sínum skipum. Er talið af kunnugum mönnum, að það muni þurfa frystirými fyrir um 15 þús. tonn, til þess að nokkurs öryggis mætti vænta í þessum sökum. Þessu þurfum við alveg sérstaklega að huga að.

Eins er um markaðsleit fyrir þessa vöru. Af sýnishornum, sem send hafa verið til Nígeríu, af árangri þeirrar markaðskönnunar er helst að sjá, að þar kunni að vera mikill markaður fyrir þessa vöru. En skilyrði til þess, að þangað megi flytja hana og dreifa henni, er, að byggðar yrðu frystigeymslur þar í landi. Og í heild má segja bæði um markaðsleit vegna þessarar vöru og okkar útflutningsvöru yfirleitt, að ég hygg, að mjög skorti á um alla markaðsleit. Við þurfum að leggja stóraukna áherslu á markaðsleit. Mér skilst, að útflutningsfyrirtæki okkar taki mjög lítil umboðslaun fyrir fiskafurðir, sem fluttar eru úr landi, og kann að vera af þeim sökum, að þau geti ekki staðið undir miklum kostnaði við markaðsleit. En ef svo er og svo reynist, að þau hafi ekki á því fjárhagsleg tök að annast aukna markaðsleit, er það skoðun mín, að það hljóti að vera hins opinbera að koma þar til skjalanna.

Eins og ég minntist á, þykir mér bera til þess brýna nauðsyn, að rannsakaðir verði allir þættir þessa máls, hvað varðar útflutning frystu loðnunnar til Japans. Það hefur margt verið að ske stórt í þeim sökum undanfarnar vikur og mánuði, sem ég hef ekki haft tök á að fá neinar upplýsingar um, sem teljast geta í áttina við það að vera fullnægjandi, og þess vegna er það, að ég mundi eindregið vilja leggja til við rétta aðila, eins og hæstv. sjútvrh., að hann beitti sér fyrir því, að okkur yrði gefin skýrsla um, hvernig þessum málum er háttað. Það getur ekki verið neitt einkamál þeirra aðila, sem þennan útflutning stunda, heldur varðar þetta alla heildina, hvernig að málunum er staðið og unnið.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta, en ég fylgi alfarið þessari aðferð, sem lagt er til í frv., að viðhöfð verði.