20.02.1974
Neðri deild: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

65. mál, orlof

(Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Vegna umr., sem urðu um þetta mál s.l. mánudag, þarf ég að segja nokkur orð til viðbótar því, sem ég sagði þá, þegar ég mælti fyrir áliti félmn. d. um frv.

Frv. sjálft er skýrt og ég held öllum skiljanlegt. Það er um, að skólafólki, sem stundar nám við viðurkennda skóla, sé þó heimilt að taka allt orlof sitt utan orlofstímabilsins. Þetta þýðir, að orlofið megi taka á öðrum tíma en frá 2. maí til 15. sept.

Eins og fram kom hjá flm. þessa frv., hv. 10. þm. Reykv., þegar hann mælti fyrir frv., er það flutt að beiðni Sjómannafélags Reykjavíkur vegna óska stýrimannaskólanemenda. Þessir nemendur vinna stuttan tíma ársins, en falla ekki undir það, sem verður að teljast meginsjónarmið orlofslaganna, að veita hvíld því verkafólki, sem vinnur hörðum höndum allt árið, eins og fl.m. komst að orði. Samkv. gildandi l. geta þessir skólanemendur fengið orlofsgreiðslur sínar að sjálfsögðu, en þó ekki fyrr en eftir á, á næsta ári. Tilgangurinn með frv. var að breyta þessari reglu, að því er tæki til skólafólks, þannig að þessir nemendur gætu fengið orlof og orlofsfé greitt utan orlofstímabilsins, en þyrftu ekki að bíða með það þar til árið eftir. Flm. taldi sig ná þessu markmiði með því að orða frvgr. eins og hann gerði, og félmn. taldi, að svo væri einnig og að umsögn félmrn. byggðist á misskilningi.

Félmn. eru að sjálfsögðu ljós ákvæði 3. gr. orlofsl. þar sem segir, að orlof skuli vera 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári. Umsögn félmrn. byggist á þessu ákvæði, og undir þá skoðun tók hv. 7. landsk. þm. í umr. hér á mánudag og taldi samkv. því eins og rn., að samþykkt frv. yrði ekki til hagsbóta fyrir skólafólk. Félmn. lagði sem sagt þann skilning í málið, að þrátt fyrir ákvæði 3. gr. væri skólafólki heimilt að taka orlof sitt utan orlofstímabilsins, ef frv. yrði samþ.

Ég lít svo á, að vilji sé fyrir því að veita skólafólki þennan rétt. A.m.k. er sá vilji ótvírætt fyrir hendi í félmn. Hins vegar er ágreiningur um það, hvort þessi réttur næst með því að samþykkja frv. óbreytt.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. hreyfði þeirri hugmynd í umr. á mánudag, hvort ekki mætti leysa málið með því að orða gr. þannig, að heimilt væri að greiða skólanemum, sem stunda nám við viðurkennda fasta skóla, út orlofsfé sitt, þegar þeir óska. Mér sýnist sjálfsagt að taka þessa hugmynd til athugunar og alla vega að skoða það betur, hvor skilningurinn er réttur, sá, sem félmn. heldur fram, eða félmrn. Ég viðurkenni hins vegar, að óþarfi ætti að vera að orða lagagreinar þannig, að lesa þurfi yfir umr. á Alþ. til þess að komast að því, við hvað er átt. Þess vegna vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr., til þess að félmn. gefist færi á að skoða málið nánar, og þá með það í huga, að þau réttindi, sem frv. stefnir að, náist og á því leiki enginn vafi, við hvað er átt.