20.02.1974
Neðri deild: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

65. mál, orlof

Halldór S. Magnússon:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir tilmæli frsm. félmn. og fagna því, að það skuli vera vilji fyrir því í félmn. að skoða málið örlítið betur, svo sem mér sýnist full þörf á, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu. Ég vil hins vegar aðeins til viðbótar því ítreka þá skoðun mína, að þó að ég telji í sjálfu sér mjög óheppilegt að samþykkja frv. eins og það er nú, þar sem það nái ekki þeim tilgangi, sem til er ætlast með því, þá tel ég þó raunverulegra enn óheppilegra að samþykkja frv. þannig, að það nái þeim tilgangi, sem til er ætlast af hálfu flm. og félmn.

Eins og frsm. félmn gat um, orðaði flm. frv. það í sinni framsögu, að orlofsl. gætu varla átt við um skólanema, þar sem þau ættu fyrst og fremst við um verkafólk, sem ynni hörðu:m höndum allt árið. Ég leyfi mér að halda fram þeirri skoðun, að skólanemar sem flestir hverjir vinna, eins og það er kallað, hörðum höndum, þ.e.a.s. vinna almenna vinnu, þá sumarmánuði, sem þeir eru í orlofi frá skóla, þeir vinni líka hörðum höndum allt árið. Ég leyfi mér að halda því fram, að skólanám sé síst minni vinna, eins og nú háttar í íslensku þjóðfélagi, heldur en hvert annað starf. Ég held þess vegna, að það sé alls engin ástæða til þess og síst til hagsbóta fyrir skólanemendur, að þeim sé gert kleift að taka út sitt orlofsfé, þegar þeir óska, og stuðla þannig að því, að þeir taki alls ekki sitt orlof, þ.e.a.s. fari ekki í leyfi, taki sér ekki frí frá störfum.

Ég held, að skólanemum, sem vinna önnur störf þann tíma, sem þeir eru ekki í skóla, veiti ekkert siður af því en öðrum launþegum að taka orlof, taka sér frí frá störfum. Þeirra vinna í skóla og við önnur störf er síst minna erfiði en vinna þeirra, sem vinna almenn störf allt árið. Ég vil þess vegna leyfa mér að vænta þess, að þetta mál verði skoðað örlítið nánar frá þessum sjónarhóli líka.