20.02.1974
Neðri deild: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

225. mál, sveitarstjórnarkosningar

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 388 frv. til l. um breyt. á l. um sveitarstjórnarkosningar. Það þarf ekki að lýsa ástæðum þess, að þetta frv. er flutt. Ég hygg, að þær liggi nokkuð augljóslega fyrir, að við þær náttúruhamfarir, sem urðu í Vestmannaeyjum í byrjun s.l. árs, skapaðist ástand hjá því fólki, sem þar bjó, sem er óvenjulegt í þessu þjóðfélagi og á vonandi aldrei eftir að endurtaka sig, þegar þarf að taka upp heila byggð, 5 þús. manna byggð, og flytja hana til fyrirvaralaust. Svo er þó forsjóninni fyrir að þakka, að að mörgu leyti hefur farið mun betur, ræst mun betur úr í sambandi við náttúruhamfarirnar heldur en menn óttuðust á tímabili, þannig að nú er kominn til Vestmannaeyja aftur um helmingur af því fólki, sem þar bjó áður. Það liggur hins vegar fyrir, að ekki mun verða mikið um flutninga á fólki til Vestmannaeyja nú í vetur og þá ekki fyrr en á næsta sumri. En eins og vitað er, eiga kosningar til sveitarstjórna að fara fram 26. maí n.k., og kemur þá til með að standa svo á hjá þeim, sem á kjörskrá eru í Vestmannaeyjum, að helmingur þeirra mun verða utan heimabyggðar sinnar og þyrfti því að neyta atkvæðisréttar síns með því að kjósa utan kjörstaðar, eins og það er kallað, eða leita til næsta yfirvalds og fá þar að greiða atkv. eftir þeim reglum, sem þar um gilda. En eins og allir, sem við kosningar hafa fengist, vita, eru í sambandi við það ýmsir erfiðleikar, sérstaklega fyrir eldra fólk, að þurfa að neyta atkvæðis síns utan kjörstaðar.

Frv. þetta er því flutt í þeim tilgangi einum, eins og fram kemur í grg., að létta því fólki, sem ekki verður komið heim til Eyja aftur á kjördag, að geta neytt atkvæðisréttar síns á venjulegan hátt í kjördeild, eins og almennt tíðkast. Ég get ekki séð neina vankanta á því, að þetta sé framkvæmanlegt, en tel hins vegar mjög nauðsynlegt, að bæjarstjórn Vestmannaeyja fái, að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, heimild til að setja upp kjördeildir á þeim þremur stöðum, sem tilteknir eru í frv., en það er á Selfossi, Reykjavík og Keflavík. Þessir staðir eru sérstaklega tilgreindir vegna þess, að stærstur hluti kjósenda, sem verða á kjörskrá í Vestmannaeyjum í vor, dvelur einmitt á þessum stöðum eða í námunda við þessa staði.

Ég tel ekki, að ég þurfi um þetta frekari rökstuðning. Frá mínu sjónarmiði er málið mjög einfalt og frv. flutt, eins og fram kemur í grg., í þeim tilgangi einum að mæta því fólki, sem kemur til með að dvelja utan heimabyggðar sinnar, á kjördegi, — mæta því með því að gera því eins létt fyrir og mögulegt er að neyta atkvæðisréttar síns við kosningarnar, sem fram eiga að fara 26. maí.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn.