21.02.1974
Neðri deild: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

152. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessu frv. var vísað til fjh: og viðskn. nokkru áður en þm. fóru í jólaleyfi. Fjh: og viðskn. ræddi þá frv. á nokkrum fundum, þ.e.a.s. fyrir jólaleyfið. Varð ekki samkomulag um afgreiðslu málsins í n. Í áliti meiri hl. er lagt til, að frv. verði samþ.

Eftir áramótin tók n. svo til nánari skoðunar ýmsar aths., sem fram höfðu komið og verið beint til n., flestum bréflega, og þetta var athugað allt nokkru nánar í n. allri, og ég hygg, að þær brtt., sem ég flyt á þskj. 389, njóti einnig stuðnings annarra nm. en þeirra, sem undirrita álit meiri hl.

Eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir við 1. umr., er megintilgangur þessa frv. nánast þríþættur: 1) Að framkvæma umsamdar tollalækkanir vegna aðildar íslands að EFTA og vegna samnings Íslands við Efnahagsbandalagið. 2) Að lækka tolla á ýmsum verndarvörum frá löndum utan þessara samtaka þar til samræmis. 3) Að koma á nokkrum nánast leiðréttingum á tollskránni, en að venju hafa fjmrn. borist ýmsar beiðnir og ábendingar þar að lútandi síðan tollskrá var síðast til meðferðar hér á hv. Alþ. Breytingar þær, sem frv. inniheldur, eru sem sagt takmarkaðar af þessum ramma.

Eins og ég sagði áðan, bárust fjh.- og viðskn., bæði áður en hún skilaði áliti og eins eftir það, nokkur erindi frá innflytjendum og einnig frá samtökum atvinnugreina um frekari breytingar. Þessi erindi voru að sjálfsögðu rædd í n. M.a. kvaddi n. sér til ráðuneytis fulltrúa fjmrn., sem með tollamál fer, og ræddi þessar hugmyndir allar við hann. Till, þær, sem ég flyt á þskj. 389, eru sumar til komnar vegna þessara erinda, og allar þessar brtt. eru innan þess sama meginramma, sem frv. var í upphafi við miðað. Má geta þess, að í Ed. voru gerðar nokkrar breytingar á frv., og mun mega segja alveg það sama um þær. Þær eru allar innan þess ramma, að undanskilinni einni breytingu, sem felst í bráðabirgðaákvæði því, sem nú er komið inn í frv., þ.e.a.s. varðandi tekjuöflun á móti tollalækkuninni með álagningu söluskatts. Ég skal gera grein fyrir brtt. með örfáum orðum aðeins.

Þær brtt., sem eru undir tölul. 1, eru flestar til komnar af tæknilegum ástæðum eða þá til samræmis við önnur tollskrárnúmer. Þar er ýmist um að ræða aðeins textabreytingar, og svo er um allar breytingar í tölunúmeri 85 19, eða þá í einstaka tilvikum, að um er að ræða breytingar á tollum, en það er þá nánast gert til leiðréttingar og samræmis. Sú breyting, sem felst í tölunr. 48 21 13, um toll af drykkjarmálum, er til komin vegna hagsmuna innlends framleiðanda og til þess gerð, að ekki dragi jafnört úr tollvernd þessarar innlendu framleiðslu og ráð hafði verið fyrir gert í frv. í upphafi. Breytingar í nr. 84 10 stafa af því, að tollur í einstökum undirnúmerum þessa númers, sem frv. gerir ráð fyrir, hefur við nánari athugun reynst valda óeðlilegu misræmi milli skyldra vara, og þessar breytingar miða að því, að úr því misræmi verði dregið sem mest. Með breytingum á nr. 85 07 01 er tollur af sauðaklippum lækkaður til samræmis við toll af handverkfærum. Þetta var einnig talin eðlileg leiðrétting. Það var mismunur á tolli eftir því, hvort þessar klippur voru loftknúnar eða rafknúnar. Þótti rétt að færa það til samræmis.

Brtt. þær, sem hér eru fram bornar við 3. gr. frv. undir tölul. 2 á þskj., skýra sig að mestu leyti sjálfar, og er ástæðulaust að fjölyrða um þær. Í d-lið, sem verður 60. tölul. 3. gr., er gert ráð fyrir endurgreiðsluheimild til handa iðnaðinum, til að þær greinar iðnaðarins, sem urðu fyrir aukinni samkeppni frá síðustu áramótum vegna tollalækkana á verndarvörum frá EFTA og EBE, þurfi ekki að þola hina rýrðu tollvernd óbætta, og er fyrirhugað, að fjmrn. setji nánari reglugerð um þessar endurgreiðslur að þessu máli afgreiddu á Alþ.

Í 3. lið brtt, eru svo ákvæði um gildistöku l. og um niðurfellingu eldri laga og eldri ákvæða. Ég held, að ég orðlengi þetta ekki frekar.

Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir meginefni þessa frv. við 1. umr., og ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka neitt af því, sem hann sagði hér. Ég vil aðeins árétta það að lokum, að brtt. okkar á þskj. 389 eru innan þeirra í raun og veru þröngu marka, sem miðað var við, þegar frv. var samið.

Meiri hl. fjh: og viðskn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem fyrir liggja á þskj. 389, og eins og ég sagði áðan, munu væntanlega fleiri hv. nm. fylgja þeim. Ég vil einnig taka það fram, að meiri hl. mælir ekki með öðrum brtt., sem hér liggja fyrir.