25.02.1974
Efri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

227. mál, notkun nafnskírteina

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. um notkun nafnskírteina vekur upp hjá mér ýmsar áleitnar hugsanir. Í sjálfu sér hygg ég, að aðalbreytingar þær, sem hér eru lagðar til, skipti engu meginmáli. Um sumt eru þær eflaust til bóta, einkanlega hér í þéttbýlinu, þar sem notkunin er þýðingarmest að mörgu leyti. Ég held t.d., að aldurstilfærslan sé um margt réttmæt, en auðvitað ber að gera skírteinin þannig úr garði, að um sem minnsta möguleika sé að ræða til fölsunar eða misnotkunar.

Um hitt meginatriðið má segja, að með því sé einnig verið að gera misnotkun erfiðari, þó ég sé nú ekki alveg með á samkvæmni í því, að nafnskírteini séu gerð öruggari sem sönnunargagn, en eigi að síður skuli lögreglustjóra heimilt að krefjast annars sönnunargagns um aldur viðkomandi. En eflaust er hér um að ræða einnig vanda, sem Reykjavikursvæðið á sérstaklega við að glíma og getur réttlæst af því í einhverju. En aðalspurningin, sem hjá mér vaknar, er um það, hversu alvarlega nafnskírteinin séu tekin í einstökum tilfellum og hvort þau séu alls staðar látin þjóna þeim tilgangi, sem þau hafa.

Nú er það svo, að sá hæstv. ráðh., sem hér mælir fyrir þessu frv. sem æðsti yfirmaður Hagstofu Íslands, hefur ekki með hinn þáttinn að gera, sem lýtur að framkvæmdinni á hinum ýmsu þáttum varðandi notkun nafnskírteinanna, þar sem dómsmrh. á yfir þeim þætti að segja. Því má segja, að sumt af því, sem ég segi hér, sé út í hött gagnvart þessum hæstv. ráðh., en kemur þeim mun meira inn á það, sem viðkemur dómsvaldinu í landinu og hæstv. dómsmrh, þá um leið.

Nú vitum við, að aldur unglinga til að sækja almennar danssamkomur er bundinn við 16 ár, og munu margir segja, að það sé nógu snemmt, miðað við ástand þessara samkundna yfirleitt. Það væri reyndar að mínu viti miklu meira og alvarlegra íhugunarefni, hvernig á því stendur, að hegðun hins svokallaða fullorðna fólks á þessum samkomum er slík, að þangað eigi unglingar ekki erindi og megi hreinlega ekki stíga þar sínum fæti. Þar er reyndar komið að því ömurlega ástandi íslensks skemmtanalífs, sem vissulega væri þörf á að taka alvarlega á, en það skal ekki gert hér að öðru leyti en því, að ef menn hafa séð í vínveitingahúsum og auknu frelsi til vínnautnar lausn okkar skemmtanalífs, að með þeim hætti mætti hefja það á hærra stig, þá hefur þar orðið á önnur raun, og þarf engum á óvart að koma. En hvernig er svo nafnskírteinareglunni framfylgt gagnvart þessum unglingum? Ég veit satt að segja um góðan vilja fjölmargra í þessu efni. En sannleikurinn er sá, að hér er misjafn sauður í mörgu fé, bæði hjá unglingunum og eins hjá þeim, sem með málin eiga að fara, löggæslumönnunum, og því vill oft fara verr en skyldi. Ég veit t, d. um allt of mörg dæmi þess, að þessari reglu hefur verið beitt af fullkominni hörku — við skulum segja réttlátri — gagnvart unglingum þess staðar, sem t.d. dansleikurinn hefur verið á, en um aðra lengra aðkomna hafa gilt aðrar reglur og vægari, týnd nafnskírteini og aðrar afsakanir verið látnar duga. Á þessu hefur þó orðið nokkur framför, en dæmin munu þó finnanleg allt of víða. Einnig hefur hér verið um alvarlegan og mikinn mismun að ræða milli einstakra skemmtistaða. Ég veit t.d. mætavel um dreng, sem fór 15 ára gamall á alla þá dansleiki, sem hann yfirleitt kærði sig um að fara á, fór það um allt Austurland. Hann notaði til þess mismunandi aðferðir, fjölbreyttar, og þær tókust allar. Ég skal ekki gera lítið úr erfiðleikum lögreglumanna og dyravarða í þessu efni. Þeir eru vissulega ærnir. En þó verður að gera hér allt, sem unnt er, til þess að fyllsta réttlætis sé gætt. Þegar verið er að breyta l. um notkun nafnskírteinanna og útfæra þau enn frekar, þá koma þessi atriði gjarnan í hugann. Hvað stoðar öll lagasetning í þessum efnum, ef ekki fylgir eftir sem réttlátust og best framkvæmd?

Ég veit enda fullvel, að hæstv. dómsmrh. hefur í þessu góðan vilja og afar jákvæð viðhorf. En kannske einmitt þess vegna er ég hér sérstaklega að minna á þetta. Ég hef þó enn meiri áhyggjur af öðru atriði, er snertir einnig notkun nafnskírteina, en þar kem ég að áfengislöggjöf okkar. Í henni er skýrt fram tekið eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta: „Yngri mönnum en 20 ára má ekki selja, veita eða afhenda áfengi með nokkrum hætti. Ávallt þegar ástæða er til að ætla, að kaupandi eða viðtakandi áfengis hafi ekki náð þessum aldri, skal sá, sem selur, veitir eða afhendir það,láta hlutaðeigandi sanna aldur sinn á þann hátt að sýna nafnskírteini með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.“ Hér er ég hræddur um, að verði misbrestur á í framkvæmd og komi margt til. Auðvitað vitum við, að leynivínsalar eru ævinlega tilbúnir til aðstoðar við þá, er ekki hafa náð aldri til að kaupa áfengi. Þeir eru hins vegar varla verðir neinnar umræðu, enda hef ég ætíð talið þá til þess úrhraks manna, er aumast má telja. Á þeim verður aldrei of hart tekið.

En hvað um áfengisútsölurnar og hvað um póstafgreiðslurnar? Hafa þessir aðilar hreinan skjöld? Vonandi, að svo væri. En margt styður þó að því áliti mínu, að þar eigi sér stað vítaverð vanræksla, visvítandi sviksemi við lögin, einmitt í skjóli þess almenningsálits, sem ríkir í landinu í áfengismálum yfirleitt. Það er a.m.k. ekki einleikið, hve auðvelt er fyrir unglinga að ná sér í áfengi á allan hátt. Einhverjar skýringar verður a.m.k. að finna hér á, ef allir hafa hér hreinan skjöld. Ég hef lengi haft það í huga, að hér þyrfti rækilega rannsókn á orsökum, og ég hef lengi haft það í huga einnig, hvernig úr mætti bæta, hvað mætti gera til þess, að á þessu fengist einhver bót. Mér hefur t.d. dottið það í hug í fullri alvöru, þó að mörgum þyki það e.t.v. broslegt, að sérstök áfengiskaupaskírteini skyldu gilda samkv. áfengíslögum og í sambandi við þau yrði tekin upp sérstök stimplun hjá útsölum og póstafgreiðslum, þannig að t.d. mætti sjá með tiltölulega hægu móti, ef um óeðlilega mikil áfengiskaup væri að ræða hjá sama aðila, og þannig mætti e.t.v. rekja slóð einhverra leynivínsala. E.t.v. er hugmyndin fráleit, e.t.v. óframkvæmanleg, en það er von, að um sé hugsað og einhverra ráða leitað. En hér ber allt að sama brunni. Ég hreinlega vantreysti þeim aðilum, sem um þetta eiga að sjá, til nógu heiðarlegrar framkvæmdar á slíkri skipan mála. Ég ber ekki til þeirra fullt traust í þessum efnum.

Hér kunna mönnum að þykja alvarlegar sakir á menn bornar. En einhvers staðar er ekki allt með felldu, og þessir aðilar hafa þá afsökun, að þeir eru eins og fleiri háðir tísku tíðarandans. Ég hlýt einnig að vænta í þessu máli mikils af dómsmálayfirvöldum. Ég hygg, að þau hljóti að hafa í þessum málum heilbrigða og ómengaða afstöðu,ég á við ómengaða af þeim anda, sem ríkjandi er í þessum málum, því andvaraleysi sofandaháttarins, sem einkennir þessi mál öll í okkar þjóðfélagi.

Ástand okkar áfengismála yfirleitt væri vissulega efni í enn lengri og ítarlegri ræðu, en út í það fer ég ekki hér, þá væri ég kominn of langt frá dagskrármálinu og skal því ekki gert, þótt freistandi væri. En nafnskírteinin eiga að vera nauðsynleg hjálpargögn m.a. í baráttunni við þau miklu vandamál, og þá hlýtur að vera sjálfsögð krafa, að þar sé ítrasta eftirlits gætt og allt sé gert, sem unnt er, til þess að þau komi að tilætluðum notum og hér verði fyllsta réttlætis gætt í hvívetna. Það væri betur, að þetta frv., sem hér er til meðferðar, gæti á einhvern hátt orðið til þess að leiðrétta hér eða laga ástandið eitthvað, þó að ég satt að segja dragi það út af fyrir sig stórlega í efa.