25.02.1974
Efri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

215. mál, olíubirgðastöð á Norðurlandi

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur Alþb. barist fyrir því alla tíð, síðan flokkurinn varð til, að olíuverslunin yrði þjóðnýtt. Við erum að vísu ekki áhugamenn um, að allur rekstur, hverju nafni sem hann nefnist, sé almennt rekinn af ríkinu. Við teljum, að margs konar rekstrarform geti komið til greina, jafnvel þótt verslun og vöruframleiðsla verði síðar meir sett undir félagslega stjórn, og ekki eigi að stefna að því, að ríkið verði eini rekstraraðilinn, þegar málum er þannig skipað. En á ákveðnum sviðum, þar sem óhjákvæmilegt er að skipuleggja þjónustu fyrir landið í heild, er alveg sérstaklega nauðsynlegt og sjálfsagt, að ríkisvaldið sé rekstraraðili, og þetta á ekki hvað síst við í orkumálum.

Ég held, að því verði ekki neitað, að skipulag olíumála á Íslandi er mjög skynsamlegt. Ríkisvaldið semur við erlendan aðila um svo til öll innkaup á ollum til landsins, en síðan er þessi samningur afhentur þremur olíudreifingarfyrirtækjum, sem byggt hafa upp þrefalt dreifingarkerfi í landinu. Afleiðingin af þessari þróun hefur orðið sú að í fyrsta lagi er milliliðakostnaður vegna olíudreifingar óeðlilega mikill hér á landi og olíur óeðlilega dýrar af þeirri ástæðu. En í öðru lagi og þá að sjálfsögðu einkum vegna þess, að olíufyrirtækin hafa mest verið með hugann við að ná sem stærstum hagnaði út úr sínum rekstri, hefur minna verið hugsað um, að fyllsta öryggis væri gætt varðandi olíubirgðir í landinu á hverjum tíma.

Á landinu öllu mun nú vera geymarými fyrir gosolíu, bensín og svartolíu sem nemur 153 þús. tonna. Og þar sem ljóst má vera, að ekki geta allir geymarnir verið fullir stöðugt á sama tíma, er nær að segja, að raunverulegt birgðarými af þessum olíum í landinu sé ekki nema 60% af þessari tölu eða um 92 þús. tonn. Ef tekið er til hliðsjónar, hve mikil eyðsla er af þessum olíutegundum hér á landi, eru menn fljótir að finna það út, að lágmarksendingartími olíubirgða er að meðaltali aðeins rúmir 2 mánuðir af þessum olíum, eða nánar tiltekið 2.3 mánuðir af gasolíu, 1.7 af bensíni og 2.2 af svartolíu.

Hér er að sjálfsögðu um mjög alvarlegt ástand að ræða, ef eitthvað það gerist, sem stöðvar olíuflutninga til landsins. Þá eru sem sagt birgðir okkar af olíum þrotnar að rúmlega tveimur mánuðum liðnum. Mér er óhætt að fullyrða, að fáar þjóðir hér um slóðir, þ.e.a.s. í norðanverðri Evrópu, eru jafnóforsjálar í þessum efnum og búa við jafnlitlar olíubirgðir. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafa einmitt verið gerðar umfangsmiklar ráðstafanir á síðustu árum til þess að koma upp öryggisbirgðum.

Í fyrirspurnatíma á Alþ. ekki alls fyrir löngu benti ég á, að það væri einkar viðeigandi sem fyrsta skrefið í þá átt að þjóðnýta olíuverslunina, að ríkið tæki að sér að byggja stóra olíuinnflutningsstöð, þar sem komið yrði upp geymslurými fyrir a.m.k. 4 mánaða birgðir af olíu til viðbótar þeim birgðum, sem fyrir eru, þannig að alltaf væru fyrir hendi a.m.k. hálfs árs birgðir af olíu í landinu. Ef þetta væri gert, þýddi það að sjálfsögðu, að ríkið tæki raunverulega alla heildsölu á olíu í sínar hendur, ekki aðeins samningsgerðina sjálfa, eins og nú er, heldur heildsöluna sem slíka, og þá skapaðist um leið aðstaða til að taka á móti olíuflutningaskipum af allra stærstu gerð, en það er ein ákjósanlegasta leiðin, sem hægt er að fara til að lækka verulega olíuverðið.

Síðan þessar umr. fóru fram, hef ég tekið mér sérstaklega fyrir hendur að rannsaka og reikna út skv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér frá olíufélögunum, hvernig ástatt er í þessum málum á Norðurlandi. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú, að á Norðurlandi væri geymarými fyrir um 25 þús. tn. af gasolíu, bensíni og svartolíu, en giska má á, að árseyðslan á Norðurlandi af þessum 3 mikilvægustu olíutegundum sé um 79 þús. tn., og er því ljóst, að ef miðað er við lágmarksendingartíma birgða og þar af leiðandi ekki tekið tillit til nema 60% af þessu geymarými, sem ég nefndi hér áðan, þá er svipað ástatt á Norðurlandi og landinu í heild, að lágmarksendingartími birgða er ekki, talinn í mánuðum, nema rúmir 2 mánuðir, af gasolíu 21/2 mánuður, bensíni 1.4 og svartolíu 2.3.

Það hefur verið um margra ára skeið sérstök hrollvekja fyrir Norðlendinga að hugsa til þess, hvernig ástatt yrði fyrir norðan, ef hafís yrði landfastur fyrir öllu Norðurlandi og lokaði höfnum um nokkurra mánaða skeið. Að sjálfsögðu er alls ekki fráleitt að reikna með því, ef þetta gerðist, að sjóleiðin lokaðist, að þá yrði landleiðin einnig erfið. Hafísvetrum, þá sjaldan þeir koma, fylgir gjarnan mikið frost, tíð norðanveður og mikil fannkoma, sem skapað getur algert samgönguleysi á landi. Og þó að þetta gerist kannske ekki oft og hafi ekki gerst um mjög langt skeið, — kannske gerist þetta ekki nema einu sinni til tvisvar á hverri öld, — þá er hitt ljóst, að ef þetta gerist, þá er mikil vá fyrir dyrum einmitt á Norðurlandi. Olíueyðsla þar hlyti að aukast stórlega, bæði vegna kaldara tíðarfars og vegna truflana á raforkuframleiðslu með vatnsorku, sem engin leið er að fyrirbyggja, en þá yrði gífurleg notkun olíu í dísilstöðvum.

Miðað við venjulega notkun er,eins og ég áðan sagði, aðeins um að ræða olíubirgðir á Norðurlandi til tveggja mánaða. En reikna má með, að þessi tími yrði talsvert styttri við óvenjulegar aðstæður. Það er fyrst og fremst með þetta í huga, að ég flyt hér ásamt varaþm. Alþb., Stefáni Jónssyni, sem nú er ekki lengur á þingi, frv. á þskj. 372 um olíubirgðastöð á Norðurlandi. Samkv. 1. gr. þessa frv. á ríkisstj. að láta reisa olíubirgðastöð fyrir norðan, þar sem hagkvæmast þykir. Í þessu frv. er að því stefnt, að stöð af þessu tagi gegni tvenns konar hlutverki: Í fyrsta lagi, að hún uppfylli það skilyrði, að jafnan séu fyrir hendi birgðir af þessum 3 mikilvægustu olíutegundum, sem nægja mundu Norðlendingum í allt að 6 mánuði, ef sem sagt einhvern tíma gerðist það, sem gerast kann, að hafís lokaði höfnum norðanlands. En í öðru lagi gegndi þessi stöð því hlutverki að lengja endingartíma öryggisbirgða í landinu um a.m.k. 1 mánuð, þ.e.a.s. 50% frá því sem nú er. Þriðja hlutverk stöðvarinnar yrði þá hugsanlega það, þó að það sé að vísu allt óljósara og þurfi nánari rannsóknar við, að taka á móti olíu frá stórum flutningaskipum, sem flytja olíuna beint erlendis frá, til þess að draga úr flutningskostnaði. Að sjálfsögðu veltur það, að þetta sé mögulegt, á því, hvernig stöðin er úr garði gerð, hversu stór hún er, og þarf að sjálfsögðu að athuga það nánar, hvort unnt er að koma því við að flytja olíuna beint erlendis frá til þessarar stöðvar. En þó að stöðin gegndi ekki nema hinum tveim hlutverkunum, sem ég hef áður nefnt, held ég, að það væri fullkomlega nægileg réttlæting til þess, að út í þetta væri farið.

Því er haldið opnu í 2. gr. frv., að tankrými fyrir öryggisbirgðir yrði á fleiri en einum stað á Norðurlandi, ef það þætti hagkvæmara að rannsökuðu máli, vegna þess að það kann að vera, að stöð á einum stað gegni ekki nægilega vel því öryggishlutverki, sem stöðinni er ætlað að gegna.

Um aðrar gr. frv. er ekki margt að segja. Í 3. gr. er ríkissjóði ætlað að leggja fram fé til þessara framkvæmda og taka lán í þessu skyni, og er ríkisstj. heimilt að taka erlent lán allt að 300 millj. kr., en lántaka til byggingar stöðvarinnar er hér miðuð við 100 millj. kr. Að sjálfsögðu þarf að skoða nánar þessar tölur, og ég verð að játa, að þær eru settar fram að lítt rannsökuðu máli og eru áætlunartölur.

Hér er gert ráð fyrir því í 4. gr., að olíubirgðastöðin mundi síðan selja ollu bæði til olíufélaga, til olíusamninga og til annarra aðila, sem hugsanlega vilja kaupa mikið magn af ollu í einu, á sérstöku heildsöluverði skv. ákvörðun viðskrn. Þetta felur að sjálfsögðu í sér þá stefnumótandi ákvörðun, að með þessu væri ríkisvaldið að hafa með höndum heildsölu á olíu, sem það gerir ekki í dag.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir því, að ekki sé farið að setja upp neina nýja stofnun til að annast þessa þjónustu. Þess virðist ekki gerast þörf, og er því lagt til, að Innkaupastofnun ríkisins fari með stjórn, fjárreiður og bókhald olíubirgðastöðvarinnar.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.