25.02.1974
Efri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

229. mál, vegalög

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. til l. á þskj. 393 um hreyt. á vegalögum, nr. 80 10. júlí 1973.

„1. gr. 1. málsgr. 32. gr. laganna orðist svo:

Árlega skal veita ákveðna fjárhæð til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 200 íbúa eða fleiri, og skal skipting fjárins fara eftir íbúafjölda og ófullgerðum verkefnum við lagningu þjóðvegarins á staðnum. Skal árlegt framlag vera 20% af heildartekjum vegamála það ár samkvæmt XIV. kafla laga þessara. Ráðherra er þó heimilt að undanskilja tekjur vegamála, sem varið er til framkvæmda við hraðbrautir.

2. gr. 34. gr. laganna orðist svo:

Af heildarframlagi því, sem veitt er til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum samkvæmt 32. gr., skal árlega halda eftir 20%, og skal því fé ráðstafað eftir till, vegamálastjóra til að flýta framkvæmdum, þar sem sérstök ástæða þykir til að ljúka ákveðnum áfanga, stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum og til að hraða framkvæmdum við lagningu þjóðvegar, þar sem almenn umferð gegnum viðkomandi kauptún eða kaupstað er sérstaklega mikil og um leið mikilvæg.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Kröfur um varanlega gatnagerð í þéttbýli eru settar fram á þeirri meginröksemd, að ein höfuðforsenda byggðar þéttbýlisstaða um landið sé varanleg gatnagerð og hreinlegt umhverfi, enda eðlilegt, að fólkið í landinu búi við sem jafnasta aðstöðu hvað þetta varðar. Þrifalegt umhverfi er ein af forsendum þess, að fólk vilji búa á viðkomandi stað.

V. kafli vegalaga, um þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum, er augljóslega settur í lögin til að auðvelda sveitarfélögum að ná þessu marki. En miðað við, hve víða er mikið óleyst af þessu verkefni og fjárhagsleg geta sveitarfélaga takmörkuð, er það fjármagn, sem veitt er samkv. 32. gr. laganna, 121/2% af heildartekjum vegamála, of lítið. Því er lagt til í frv. þessu, að það verði aukið í 20%.

Á s.l. ári nam þéttbýlisvegaféð 156.6 millj. kr., og nam þéttbýlisvegagjaldið til sveitarfélaga um kr. 785.90 á íbúa. Að óbreyttum lögum er áætlað, að þéttbýlisvegaféð 1974 verði um 910 kr. á íbúa. Er það talsvert lægri fjárhæð en reiknað var með í upphafi og sveitarfélög hafa nú byggt fjárhagsáætlun sína á fyrir árið 1974. Þessi lækkun er fyrst og fremst vegna þess, að framlag til hraðbrauta verður miklu hærra en áætlað var, og vil ég sérstaklega vekja athygli hv. alþm. á þessu atriði. Ef þetta frv. verður að lögum hækkar þéttbýlisframlag í ca. 1350–1400 kr. á íbúa. Er þá gert ráð fyrir, að heildarfjárhæð til vega í kaupstöðum og kauptúnum 1974 verði um 320 millj. í stað tæplega 190 millj. að óbreyttu frv. Yrði þetta talsverð hækkun til sveitarfélaga, sem auðveldaði framkvæmdir. Þó er rétt að tak,a fram, að hraðbrautarframlag getur lækkað þessar tölur 1974 verulega.

Það hefur verið gagnrýnt meðal sveitarstjórnarmanna, að skipting þessa fjár sé eingöngu miðuð við íbúafjölda. Er hér þörf á breytingu í þá átt, að tekið sé tillit til ófullgerðra verkefna við lagningu þjóðvegarins á viðkomandi stað. Virðist þetta sanngjörn breyting, þar sem í mörgum kaupstöðum og kauptúnum er varanleg gatnagerð að þessu leyti langt komin, en víða um landið algjörlega á frumstigi.

Þá er lagt til í frv. þessu, að kauptún með 200 íbúa í stað 300 íbúa, eins og er í núgildandi lögum, komi inn í skiptingu fjárins. Auðveldar það myndun nýrra þéttbýliskjarna. Þetta er réttlætismál, sem lengi hefur verið bent á, að þyrfti að breyta.

Lagt er til í frv. þessu, að 34, gr. vegalaga breytist þannig, að árlega verði haldið eftir 20% af heildarframlagi til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum í stað 10% áður. Þetta fjármagn nam í árslok 1973, þ.e. frá því að byrjað var að mynda þennan sjóð, 66.3 millj., og þessu fjármagni hafði verið varið þannig, að Kópavogur hafði fengið 51.3 millj., Selfoss 12.3 millj., Hveragerði 0,7 millj. og Dalvík 1.8 millj. Nú hefur ríkið yfirtekið lán Kópavogskaupstaðar.

Eins og sjá má af framansögðu, hafa sárafáir staðir í landinu notið lána eða styrkja af þessu geymslufé. En með auknu fjármagni og þegar dýr framkvæmd eins og Kópavogsgjá er ekki lengur með, má vænta þess, að þetta fjármagn verði í auknum mæli til að hraða framkvæmdum sveitarfélaga.

Sérstök ástæða er til að undirstrika nauðsyn þess, að með þessu fjármagni verði hraðað lagningu þjóðvega í gegnum kaupstaði og kauptún, er hafa mikinn umferðarþunga gegnum miðju byggðarinnar, bæði hvað varðar atvinnulíf viðkomandi staðar og almenna umferð um þjóðveginn.

Þá verður einnig að telja eðlilegt, að vegamálastjóri hafi samráð við viðkomandi sveitarstjórnir um skiptingu þessa fjár, en það hefur ekki verið gert áður.

10% sjóðurinn var 1973 15.7 millj. kr., en ef í gildi hefði verið sú breyting, sem hér er lögð til, hefði þessi fjárhæð orðið um 50 millj. Ef þetta frv. verður að lögum og 20% verða lögð í sjóðinn, yrði fjárhæðin á árinu 1974 um 60 millj. kr. í stað 18–19 millj. að óbreyttum lögum.

Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. alþm. á því, að ég lét setja sem fylgiskjal með þessu frv. skrá yfir framlög til vega í kaupstöðum og kauptúnum samkvæmt V. kafla vegalaga frá upphafi. Þar er gerð grein fyrir á öllu þessu árabili, hvað þetta hefur verið mikið á íbúa og hvernig skiptingin hefur orðið, miðað við kauptún og kaupstaði landsins. Og þar má sjá, að þetta fjármagn hefur, miðað við það form, sem á þessari skiptingu er, farið fyrst og fremst til Reykjavíkur og þéttbýlisstaðanna.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu um þetta nauðsynjamál. Ég vænti þess, að hv. alþm. taki málið til athugunar og reynt verði að hafa áhrif á, að það nái fram að ganga á þessu þingi, því að þetta er réttlætismál, og stórt mál fyrir sveitarfélögin í landinu. Ég vil leyfa mér að mælast til þess, að strax að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og samgmn.