25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það má kalla kraftaverk, hversu úr hefur ræst í Vestmannaeyjum, miðað við það, hvernig horfði þar fyrir 13 mánuðum, þegar eldgosið hófst á Heimaey. A.m.k. helmingur Eyjabúa er kominn heim, og framleiðsla þessarar miklu aflstöðvar í þjóðarbúskapnum er þegar rekin af miklu fjöri og þrótti, svo sem áður hefur tíðkast.

Baráttan við gosið verður ekki rakin hér af mér, en stórmerki tel ég, að komið hefur í ljós, að unnt er að hafa veruleg áhrif á hraunstraum í kröftugu eldgosi með öflugri vatnskælingu, og helst er að sjá, að stórmyndarlegar framkvæmdir af því tagi hafi átt sinn þátt í því að bjarga Vestmannaeyjahöfn og mörgu öðru í bænum. Verður það hreinlega ekki í tölum talið, hverja þýðingu það hefur fyrir Íslendinga eða alla afkomu þjóðarbúsins, að höfnin slapp.

Sú reynsla, sem hér hefur fengist í viðureigninni við hraunstrauminn, hefur einnig ómetanlega þýðingu framvegis í baráttu við eldsumbrot, og verður það ekki nánar rakið hér.

Hér verður ekki heldur reynt að gera grein fyrir því margbrotna starfi, sem framkvæmt hefur verið til bjargar og uppbyggingar í Vestmannaeyjum, t.d. með stuðningi Viðlagasjóðs, sem Alþingi stofnaði með l. um ráðstafanir vegna jarðeldanna á Heimaey. Það gerir stjórn Viðlagasjóðs að sjálfsögðu, jafnóðum og tímabært er talið.

Það var upphaf þessa máls, sem hér er flutt í frv. formi nú, að stjórn Viðlagasjóðs sneri sér til hæstv. forsrh. og gerði honum grein fyrir því, að tekjur Viðlagasjóðs mundu alls ekki hrökkva til að kosta þær framkvæmdir, sem gera þarf til bjargar og viðreisnar í Vestmannaeyjum samkv. löggjöfinni, sem um þau efni hefur verið sett, og ekki heldur þótt til komi allt það mikla fé, sem Norðurlandamenn af stórum höfðingsskap hafa fram rétt í þessu skyni, og aðrar gjafir, sem einnig koma þarna til. Óskaði Viðlagasjóðsstjórnin eftir því, að tekjustofn Viðlagasjóðs, þ.e.a.s. 2% á söluskattsstofninn, yrði framlengdur til ársloka 1974.

Forsrh. óskaði þess, að flokkarnir settu n. í þetta mál. Var það gert, og hefur hún starfað, og er frv. þetta ávöxtur af því samstarfi á milli allra flokka þingsins, sem um þetta mál hefur tekist nú enn, eins og varð á sinni tíð, þegar við þessum voveiflegu tíðindum var brugðist á sínum tíma með löggjöfinni um neyðarráðstafanir vegna jarðeldanna á Heimaey, en í henni eru ákvæðin um stofnun Viðlagasjóðs. Samkv. því hafa flm. þessa frv. undanfarið kynnt sér nokkuð fjárhag Viðlagasjóðs í samráði við ýmsa af ráðh. og reynt að mynda sér skoðun á því, hvað líklegt sé, að mikið fé þurfi fram að leggja úr Viðlagasjóði til þess að standa við þau fyrirheit, sem felast í l. um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey, en það veit ég, að allir hv. þm. leggja kapp á, að við þau fyrirheit verði fullkomlega staðið.

Í ljós kom, að ógerningur er að gera sér þess nú fulla grein, hversu mikið fé þarf til að koma. En svo mikið er ljóst að dómi flm., að Viðlagasjóður má ekki missa allar tekjur sínar nú um næstu mánaðamót. Hefur því orðið samkomulag um að flytja þetta frv., en efni þess er að leggja 1% viðlagagjald á söluskattsstofn næstu 12 mánuði í staðinn fyrir 2%: Flm. álíta, að síðar verði að afla fjár enn til viðbótar í Viðlagasjóð, ef í ljós kemur, að þetta fé nægir ekki til þess, að hægt sé að standa við fyrirheit laganna um stuðning við uppbygginguna í Vestmannaeyjum. Það skal tekið fram, að þess er vænst, að Seðlabankinn aðstoði Viðlagasjóð framvegis eins og hingað til, þannig að greiðslur úr sjóðnum geti orðið með eðlilegum hætti.

Ég mun ekki gera tilraun til þess að gefa hér neitt tæmandi yfirlit um hag eða horfur Viðlagasjóðs, því að það er ógerningur að gera sér grein fyrir því, hvers með þarf að lokum. En ég vil þó aðeins segja frá því, að samkv. yfirliti, sem við höfum til skoðunar, hafa útgjöld sjóðsins fram að þessu orðið 3 milljarðar 216 millj. og skiptast þannig: Húsakaup 1398 millj., blokkbygging 34 millj., skuldabréfalán 228 millj., afborganir og vextir 88 millj., vélakaup 77 millj., ýmsir rekstrarliðir í Vestmannaeyjum, þ. á m. baráttan við hraunstrauminn og margs konar björgunarráðstafanir, 705 millj., annar rekstur 49 millj., vaxtakostnaður 37 millj., bætur til Vestmannaeyjakaupstaðar 78 millj., fyrirtækjabætur 80 millj., bætur fyrir hús 226 millj. og aðrar bætur 211 millj. Samtals eru þetta 3 milljarðar 216 millj. Og þessu hefur verið mætt fram að þeim tíma, að uppgjörið er dagsett: Með viðlagagjaldi, sem miðast við útsvarsstofn, 177 millj. Með viðlagagjaldi, sem leggst á söluskattsstofn og eignarskattstofn, ríkissjóðsframlagi og framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs 979 millj. Frá Norðurlöndum hafa komið 1181 millj., og annað gjafafé hefur orðið 179 millj. Greiðslur gengu þannig út og inn, að skuld var við Seðlabankann 784 millj.

Ég geri ekki tilraun til þess að giska á, þótt við höfum skoðað þetta nokkuð og rætt við fróða menn um, hversu miklu þarf við að bæta af ýmiss konar bótum o.fl. En það er alveg augljóst mál nú þegar, að heildarútgjöld Viðlagasjóðs verða aldrei undir hálfum fimmta milljarði og þó líklega mun meiri, en þetta fer að sjálfsögðu mikið eftir því, hvernig til tekst með sölu Viðlagasjóðshúsanna. Hér veltur á mjög stórum fjárhæðum til og frá, svo að best er að vera ekki að reyna að gera neinar tilraunir til að áætla þetta, en leggja sterka áherslu á þá sameiginlegu skoðun allra flm., að komi það í ljós, að þessir fjármunir dugi ekki, verður að bæta við því, sem þarf. Það er aðalatriðið, og enn fremur þá von, að bótagreiðslur geti gengið eðlilega með stuðningi Seðlabankans.

Þá er við að bæta, að það hefur dregist hjá sveitarfélögunum að skila viðlagasjóðsgjaldinu, sem lagt er á útsvarsstofninn og sveitarfélögin innheimta fyrir Viðlagasjóð. Þetta er fé, sem sveitarfélögin innheimta fyrir Viðlagasjóð. Það hefur dregist að skila þessu gjaldi, og þess vegna er sú till. í 2. gr. frv., að heimild verði til þess að tryggja þessi skil með því, að framlög til sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði gangi upp í vanskilin, uns fullkomlega er úr bætt. Þetta er eðlilegt ákvæði og sjálfsagt, og hefur enginn ágreiningur verið manna á milli, sem að þessu máli hafa komið, að þetta væri sjálfsagt ákvæði til að tryggja, að fénu verði skilað þangað, sem það á að fara, því að það er innheimt fyrir Viðlagasjóð. Þetta eru hans peningar.

Loks er að geta þess, eins og kemur fram í grg., að Ingólfur Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason og Bjarni Guðnason taka fram, að þeir telja, að innflutningstollar og söluskattar af Viðlagasjóðshúsunum eigi að ganga til uppbyggingar í Vestmannaeyjum, jafnóðum og húsunum er komið í verð, en tollarnir hafa ekki verið innheimtir af þessum húsum, en gert ráð fyrir, að þeir verði greiddir jafnóðum og húsin verða seld, þ.e.a.s. jafnóðum og einhverjir aðrir eiga að njóta þeirra en þeir, sem áttu að fá í þeim húsnæði vegna áfallsins.

Hins vegar taka 3 af flm., þeir Eysteinn Jónsson, Gils Guðmundsson og Halldór S. Magnússon, fram, að upplýst sé, að ríkisstj. hefur samkv. heimild í 8. gr. 32. lið gildandi fjárl. ætlað þetta fé, þ.e.a.s. það, sem kæmi inn í Viðlagasjóð, jafnóðum og húsin eru seld frá honum, í hafnarframkvæmdir, sem teknar voru ákvarðanir um í beinu sambandi við náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum. Nægir í þessu efni í raun og veru að vísa til umr., sem hér urðu á sínum tíma í sambandi við fjárl., og þeirrar heimildagr., sem þar kemur til í fjárl. Þá er þess að geta, að þótt þessi skoðanamunur komi fram varðandi þessa fjármuni, er samkomulag um að blanda þeim skoðanamun ekkert inn í afgreiðslu þessa máls, og munu engar tilraunir af hendi þeirra, sem að þessu máli standa, verða gerðar til þess að trufla á nokkurn hátt afgreiðslu þess með því að blanda þessum atriðum inn i. Ef menn vilja stefna að því, að eitthvað nánar verði fjallað um þetta, þá munu menn gera það með öðru móti en því að blanda því inn í þetta mál. Mótast það ekki síst af því, að þetta mál verður að ganga rösklega fram, því að þessir tekjustofnar falla niður nú fyrir belgina, ef ekki er búið að ganga frá þessu öllu kirfilega áður, og það verður að gera, hvað sem tautar.

Nú hefði í sjálfu sér ekki verið nein ástæða til þess að vísa þessu máli til n., þar sem það er undirbúið á þennan hátt af fulltrúum allra flokkanna og fjallað um það jafnóðum í öllum flokkunum frá stigi til stigs, eins og gert var um Vestmannaeyjamálið í fyrravetur. Það hefur verið sami háttur á hafður og þá. En ég ætla samt að leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. fjh: og viðskn. d. og þá í trausti þess, að hún geti skoðað það í skyndi og það verði tekið fyrir aftur á morgun til 2, og 3. umr. og þá í Ed. líka, þannig að frv. geti orðið að lögum á morgun. Mun verða hagað fundum í Sþ. með tilliti til þess, að slíkt megi eiga sér stað. Það er engin ástæða til þess að tefla á tæpt vað með afgreiðslu á þessum málum, eins og búið er að vinna að þeim. Það er því ósk mín, að fjh: og viðskn. Ed. verði fengin til að líta á málið með Nd.-nefndinni, þannig að það geti gengið liðlega áfram.

Ég legg því til, berra forseti, að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. með þessari ósk.